Hækkun afnotagjalda RÚV og forsendur fjárlaga

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 10:34:45 (3326)

2000-12-14 10:34:45# 126. lþ. 49.91 fundur 207#B hækkun afnotagjalda RÚV og forsendur fjárlaga# (aths. um störf þingsins), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[10:34]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ef spurt er um lagaheimildir í þessu efni, þá eru þær skýrar í útvarpslögunum. Menntmrh. samþykkir tillögu útvarpsins um hækkun á afnotagjöldum útvarpsins og þær ná ekki fram að ganga nema með samþykki menntmrh.

Það er rétt hjá hv. þm. að hv. fjárln. var gerð ítarleg grein fyrir fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins við meðferð fjárlaganna. Hinn 6. desember ritaði útvarpsstjóri mér bréf þar sem hann gerði mér grein fyrir stöðunni og hafði raunar 5. desember sent þau álit sem hv. fjárln. voru kynnt. Í bréfi sínu frá 6. desember fer útvarpsstjóri fram á að Ríkisútvarpinu verði heimilað að hækka afnotgjaldið úr 2.100 kr. í 2.250 kr. á mánuði með virðisaukaskatti frá og með 1. janúar. Svo segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Þannig ætti að vera tryggt að vetrardagskrá útvarps og sjónvarps geti áfram verið með því sniði sem nú er í meginatriðum en tækifæri gefist jafnframt til að endurmeta fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins á rekstrarfjárþörf um mitt næsta ár, m.a. í ljósi árangurs af því hagræðingarstarfi sem nú stendur yfir og haldið verður áfram.``

Þessi gögn lágu öll fyrir hv. fjárln. en það er samkvæmt lögum mitt hlutverk að taka afstöðu til tillagna útvarpsstjóra í þessu efni. Það geri ég á grundvelli skýrra lagaheimilda.