Málefni aldraðra

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 12:00:37 (3352)

2000-12-14 12:00:37# 126. lþ. 49.8 fundur 317. mál: #A málefni aldraðra# (Framkvæmdasjóður aldraðra) frv. 172/2000, heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[12:00]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Töluverð umræða varð um þetta frv. sem hér er til umræðu við 1. umr. málsins og við fórum mjög vel yfir þetta mál. Síðan langar mig að koma fram með það sem er auðvitað raunveruleikinn í þessu, að við erum ekki að breyta neinu varðandi almannatryggingar eða málefni aldraðra með þessu frv., heldur erum við alfarið og eingöngu með þessu frv. að hækka þennan nefskatt samkvæmt byggingarvísitölu. Það er það eina sem felst nýtt í þessu frv., og það hefur verið gert árlega, ekki með sérstöku frv. heldur með svokölluðum bandormi í áraraðir. Það eru engar grundvallarbreytingar í þessu.

Aftur á móti hefur komið fram brtt. frá minni hlutanum er varðar þá sem eru undanþegnir þessum skatti og mér finnst nú skynsamlegra að sú nefnd sem er að endurskoða tengingu við skatta og tekjur lífeyrisþega fái þetta verkefni. Ég hef reyndar þegar fengið þeirri nefnd það verkefni vegna þess að þetta tengist mörgum öðrum málum lífeyrisþega og öryrkja. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði: Hvað líður störfum nefndarinnar sem er á vegum forsrh.? Forsrh. stýrir henni eða hún er undir stjórn forsrn. og sú nefnd er að vinna lokaverkefni sitt. Hún lýkur ekki störfum fyrir áramót, það er alveg ljóst héðan af, en eftir því sem ég heyri frá þeim eru þeir u.þ.b. að ljúka störfum. Þetta er mjög flókið og viðfangsmikið verkefni sem þeir hafa fengið og þetta er eitt af því sem þeir hafa fengið til úrlausnar sem hér er til umræðu. Ég vona að hv. þm. sem eru hér inni treysti því að það verði afgreitt þar enda eðlilegt því við erum ekki að gera neinar grundvallarbreytingar með þessu frv.