Málefni aldraðra

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 12:05:44 (3354)

2000-12-14 12:05:44# 126. lþ. 49.8 fundur 317. mál: #A málefni aldraðra# (Framkvæmdasjóður aldraðra) frv. 172/2000, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[12:05]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Tillögur nefndarinnar liggja ekki fyrir og þess vegna væri ekki rétt hjá mér að fara að tengja það hér en hv. þm. spyr hvert sé verksvið nefndarinnar sem er allt annað og ég skal fara yfir það hvert verksviðið er. Ég kom aðeins inn á það í máli mínu að það er að fara í gegnum tengingu tekna og skatta og launa lífeyrisþega. Hlutverk hennar er líka að koma til móts við þá sem minnst hafa og aðalhlutverk nefndarinnar er að koma með tillögu til úrbóta gagnvart þeim hópi. Af því hv. þm. sagði að það væri von, þá vil ég segja það gagnvart því máli og þeirri tillögu sem hér liggur fyrir frá samfylkingarmönnum að ég hef þegar komið því til fulltrúa míns innan nefndarinnar að taka sérstaklega tillit til þessa nefskatts þegar komið er að þessum tengingum. Mér finnst ekki rétt að taka það eitt út úr núna, heldur bíða þar til nefndin skilar tillögum sínum sem þeir segja mér að verði ekki langt að bíða.