Málefni aldraðra

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 12:15:15 (3361)

2000-12-14 12:15:15# 126. lþ. 49.8 fundur 317. mál: #A málefni aldraðra# (Framkvæmdasjóður aldraðra) frv. 172/2000, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[12:15]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Það er rétt að við erum hér að fjalla um nefskatt, hækkun á nefskatti um rétt rúmar 500 kr. sem fara til málefna aldraðra. Deila má um réttmæti þess að leggja nefskatta á en þessi nefskattur fer þó í þann málaflokk sem honum er ætlaður. Undanþegin þessum nefskatti eru börn og unglingar innan 16 ára aldurs og þeir sem orðnir eru 70 ára og eldri. Samfylkingin lagði til brtt. um að til viðbótar yrðu allir örorkulífeyrisþegar undanþegnir.

Nú hefur komið fram málamiðlunartillaga eða réttara sagt beiðni til hæstv. heilbrrh. að afmarka örorkulífeyrisþega við þann hóp sem hefur fullar tekjutryggingar. Þetta er þá alveg afmarkaður hópur og eins og hér hefur komið fram hafa skattleysismörkin ekki hækkað í samræmi við tekjur eða bætur þessa hóps, þar af leiðandi er stór hópur farinn að borga skatta sem ekki gerði það áður. Um leið og þeir fara að borga skatta borga þeir nefskattinn líka. Ég hvet hæstv. heilbrrh. til að taka þegar tillit til þessarar beiðni, sem er ekki komin fram í brtt., um að skoða þetta með mjög jákvæðu hugarfari og það væri ósk mín að tillaga þessa efnis kæmi fram frá ráðherra sjálfum nú þegar. Ef ekki þá vona ég að sú nefnd sem vísað var til skili áliti eða niðurstöðu mjög fljótlega og að tekið verði fullt tillit til ekki bara þeirra lífeyrisþega sem eru á fullum örorkubótum heldur til allra lífeyrisþega og örorkulífeyrisþega í sambandi við tekjur, bætur og skatta og nefskatta líka.

En þó svo við séum að fjalla um nefskatt, ákveðna hækkun, þá eru jú undantekningar í þessum lögum og þau má bæta, bæði hvað varðar útdeilingu á þessu fé eins og hér hefur margoft komið fram, að ekki sé sama hvernig þessum sjóði er úthlutað, meiri hlutinn eigi að fara í uppbyggingu en ekki eins og er í dag að helmingurinn fari í rekstur og helmingur fjár í uppbyggingu, heldur að vinna eigi í anda laganna og eins er líka hægt að fækka þeim nefjum sem skatturinn er tekinn af.