Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 14:04:14 (3376)

2000-12-14 14:04:14# 126. lþ. 49.14 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv. 175/2000, Frsm. meiri hluta HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[14:04]

Frsm. meiri hluta landbn. (Hjálmar Jónsson) (andsvar):

Herra forseti. Ræða hv. þm. Sigríðar Jóhannesdóttur var ágæt og skörulega flutt. Ég vil geta þess vegna athugasemda við hefðbundinn fund í landbn. að fundurinn var boðaður með eðlilegum hætti og þar að auki var hringt í nefndarmenn daginn fyrir fund til þess að kanna hvort þeir kæmust ekki til fundarins. Ég veit ekki annað en náðst hafi í þá alla. Ritari hafði þetta á hendi og það átti að vera ljóst hvað fram færi á þeim fundi. Þegar ekki urðu umræður á fundinum og efnið tæmt þá var eðlilega málið tekið út og því lokið.

Ég vil svo segja það um þetta mál og áhuga hv. þm. á því að fá nýja stöð, að þá er einmitt ekki verið að banna slíkt með þessari lagasetningu heldur opna á möguleikann fyrir nýja stöð. Það er ekki verið að banna heldur er verið að opna á möguleika. Og í einni umsögninni til hv. landbn. var einmitt innifalin áskorun til hæstv. landbrh. um að heimila eða leyfa opnun nýrrar einangrunarstöðvar á suðvesturhorninu þannig að ég sé ekki annað en komist geti hreyfing á þetta mál.

Ég vil geta þess líka að mörg rök hníga að því og þeim hef ég vissulega ekki andmælt.