Skipulags- og byggingarlög

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 15:35:50 (3407)

2000-12-14 15:35:50# 126. lþ. 49.15 fundur 190. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulagsgjald, svæðis- og deiliskipulag o.fl.) frv. 170/2000, GunnB
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[15:35]

Gunnar Birgisson:

Virðulegi forseti. Hér erum við að taka fyrir til 2. umr. frv. til laga um breytingu á skipulags- og byggingarlögum. Við gerðum það líka á síðasta þingi. Það er því orðinn árlegur viðburður að breyta þessum lögum, og þær breytingar sem hér er um að ræða held ég að séu flestallar til bóta fyrir sveitarfélögin og þá sem í þeim búa.

Það sem ég tel helst merkilegt við þetta er í 1. gr., með leyfi forseta. Þar stendur: ,,Skilgreining á nýtingarhlutfalli í 2. gr. laganna orðast svo: Hlutfall milli brúttóflatarmáls bygginga á lóð eða reit og flatarmáls lóðar eða reits.``

Þetta er ný skilgreining frá því sem áður var og ég held að þetta sé til bóta og skýrara.

Þá kem ég að 3. gr. frv. og 10. gr. laganna, með leyfi forseta, sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hafði áhyggjur af:

,,Þegar sérstaklega stendur á getur ráðherra að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar og hlutaðeigandi sveitarstjórnar veitt undanþágu frá einstökum greinum skipulagsreglugerðar.``

Þetta held ég að sé nauðsynlegt að hafa því að aldrei er þetta alveg upp á millimetra eða sentimetra --- þannig að þetta verður breyting um einhverja 20, 30 eða 50 sentimetra. Það er óþarfi að hafa heimild til að breyta í þeim undantekningartilvikum. Ég held að það sé þá rétt að ráðherrann hafi heimild til þess.

Síðan kemur hér í 5. gr. frv., um 23. gr. laganna, a-liður, með leyfi forseta:

,,Sveitarstjórn ber ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags. Landeiganda eða framkvæmdaraðila er þó heimilt að gera tillögu til sveitarstjórnar að deiliskipulagi á sinn kostnað.``

Þetta styrkir rétt landeigenda til að koma með tillögu að deiliskipulagi til sveitarstjórnar, sem tekur náttúrlega ákvörðun um það hvort hún setur það á eða slær það af, og hins vegar framkvæmdaraðila. Þótt þetta láti ekki mikið yfir sér í frv. þá er það svo, herra forseti, að það stendur að það skuli vera á kostnað framkvæmdaraðila. Framkvæmdaraðilar eru oft að koma með breytingar á deiliskipulagi eftir að þeim hefur verið úthlutað lóðum. Það geta verið hækkanir á húsum eða fjölgun íbúða eða breytingar af einhverju tagi sem er kannski til hagsbóta fyrir þá sem eru að byggja, hvort sem það eru byggingameistarar eða einkaaðilar, og fram að þessu hefur sá kostnaður fallið á skipulagsstofur sveitarfélaganna. Það hefur bæði verið teiknikostnaður, auglýsingakostnaður og önnur sú vinna sem hefur þurft að gerast þarna inni. Ég tel þetta vera mjög mikilvægt mál fyrir skipulagsstofur sveitarfélaganna.

Í b-lið 5. gr. frv. sem einnig er um 23. gr. laganna stendur, með leyfi forseta:

,,Við 1. mgr., sem verður 2. mgr., bætist nýr málsliður, 2. málsl., svohljóðandi: Sveitarstjórn getur þó auglýst tillögu að deiliskipulagi samhliða auglýsingu tillögu að samsvarandi breytingu á aðalskipulagi.``

Þetta er til verulegra bóta og sparar mikinn tíma. Nýlegur úrskurður kom frá Skipulagsstofnun um þetta mál varðandi það að þetta ætti að gerast í sitt hvoru lagi. Við getum ímyndað okkur að ef breyta þarf aðalskipulagi að einhverju litlu marki þá tekur það a.m.k. átta vikur þannig að við erum að tala um hátt í þrjá mánuði áður en deiliskipulagsfasinn getur farið í gang. Þetta er kannski út af einhverju örsmáu atriði eða mjög litlu þannig að ég held að það sé til verulegra bóta að þetta geti farið samhliða og líka betra fyrir þá sem vilja gera athugasemdir að þetta fari saman. Þá sjái menn þetta í heild sinni, bæði aðalskipulagið og deiliskipulagstillögur.

Virðulegi forseti. Síðan er rétt að koma inn á 6. gr. frv. þar sem stendur í b-lið:

,,Þar sem sveitarstjórn annast reglulega gerð aðalskipulags og endurskoðun þess án sérstaks samnings skal helmingur innheimtra skipulagsgjalda í sveitarfélaginu yfirfærður árlega til sveitarsjóðs úr Skipulagssjóði.``

Það er mikil gjafmildi af hálfu ríkisvaldsins að láta það til sveitarfélaganna. Þessu var breytt, minnir mig árið 1992 eða 1993, en þá var skipulagsgjaldið sem rann allt til sveitarfélaganna áður minnkað um helming hjá sveitarfélögunum hér á höfuðborgarsvæðinu og notað sem jöfnunaraðgerð fyrir aðrar skipulagsstofur úti á landi. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu voru ekki mjög ánægð með að þurfa að fara að greiða niður skipulagsvinnu úti á landi. En það er engin breyting á þessu og er einungis hert á þessu hér.

Varðandi 7. gr., eins og frsm. minntist á, fellur b-liður brott.

Síðan kemur hér í 10. gr. frv. sem bætist við 7. mgr. 43. gr. laganna, með leyfi forseta:

,,Heimilt er skipulagsnefnd að stytta tímabil grenndarkynningar ef þeir sem hagsmuna eiga að gæta hafa lýst skriflega yfir því með áritun á uppdrátt að þeir geri ekki athugasemdir við fyrirhugaða framkvæmd eða breytingu á deiliskipulagi, áður en fjórar vikur eru liðnar.``

Þetta er til verulegra bóta og styttir þann tíma sem grenndarkynning þarf að taka. Það er hægt að fá uppáskrifað og afgreiða málið strax þannig að þetta er til verulegra bóta að mínu mati.

Þá kemur að 12. gr. frv., um 47. gr. laganna, sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Hönnuður, einstaklingur eða fyrirtæki þar sem löggiltur hönnuður starfar sem leggur uppdrætti fyrir byggingarnefnd eða byggingarfulltrúa skal hafa fullnægjandi ábyrgðartryggingu.``

Þetta er ákvæði um að hvort sem það er einstaklingur eða verkfræðistofa eða fyrirtæki hafi ábyrgðartryggingu ef upp koma hönnunargallar eða annað slíkt sem hægt er að rekja til fúsks í vinnubrögðum eða mistaka.

Varðandi 15. gr. þar sem 1. töluliðurinn fellur út þá hef ég a.m.k. þann sama skilning á því og hv. frsm.

Þá kemur hér í 16. gr. frv. að 2. málsl. 2. mgr. 52. gr. laganna orðist svo, með leyfi forseta: ,,Iðnmeistarar, sem hafa meistarabréf og hafa lokið prófi frá meistaraskóla eða hafa a.m.k. sambærilega menntun á hlutaðeigandi sviði, geta hlotið slíka löggildingu, enda séu þeir starfandi sem meistarar í iðn sinni.``

Þetta er ákvæði sem við tókum inn sl. vor og er verið að endurorða og er nokkuð skýrt þar sem stendur að menn þurfi að hafa sambærilega menntun á hlutaðeigandi sviði og meistaraskólann og þeir þurfa líka að vera meistarar til að geta hlotið þessi réttindi.

Þá segir í 17. gr., með leyfi forseta, að 2. og 3. málsl. 53. gr. laganna orðist svo: ,,Jafnframt er þeim heimilt að innheimta gjöld fyrir útmælingu, eftirlit, úttektir, yfirferð hönnunargagna og vottorð sem byggingarfulltrúi lætur í té. Gjöld þessi mega ekki nema hærri upphæð en sem nemur kostnaði við útgáfu leyfa, útmælingu, eftirlit, úttektir, yfirferð hönnunargagna og vottorð sem byggingarfulltrúi lætur í té og skulu vera í samræmi við gjaldskrá sem sveitarstjórn setur og birtir í B-deild Stjórnartíðinda.``

[15:45]

Þetta er líka til verulegra bóta fyrir sveitarfélögin því að kostnaðurinn við að fara yfir hönnunargögn og annað sem lýtur að því er orðið gífurlegt verkefni miðað við þær kröfur sem eru gerðar í lögunum að öðru leyti. Það er því óhjákvæmilegt nema hafa möguleikann til að taka gjald fyrir þá vinnu alla og það gildir jafnt með þetta eins og hér í 5. gr. a í frv.

Um annað er svo sem ekki meira að segja. Það eru ekki stórar breytingar aðrar. Ég tel að þær séu allar til bóta fyrir sveitarfélögin og tek undir með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að auðvitað þarf að fara í endurskoðun á þessu í ró og næði og engum asa. Ég held að við ættum að byrja á því strax eftir áramótin.