Atvinnuleysistryggingar

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 10:46:41 (3415)

2000-12-15 10:46:41# 126. lþ. 50.7 fundur 347. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (fræðslusjóðir) frv. 182/2000, Frsm. ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[10:46]

Frsm. félmn. (Arnbjörg Sveinsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá félmn. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn Gissur Pétursson frá Vinnumálastofnun, Ara Edwald frá Samtökum atvinnulífsins, Rannveigu Sigurðardóttur frá ASÍ, Kristján Bragason frá Starfsgreinasambandi Íslands og Friðbert Traustason frá Sambandi íslenskra bankamanna.

Með frv. er lagt til að ákveðinni fjárhæð úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sem ákvarðist við afgreiðslu fjárlaga hvers árs, verði varið til þriggja ára átaks í fræðslumálum ófaglærðra. Er frv. í samræmi við samkomulag félmrh. og forvígismanna atvinnurekanda um fyrrnefnt fyrirkomulag í kjölfar samkomulags Samtaka atvinnulífsins og Flóabandalagsins annars vegar og Verkamannasambands Íslands og Landssambands iðnverkafólks (nú Starfsgreinasamband Íslands) hins vegar síðastliðið vor um fræðsluátakið.

Nefndin bendir á að eingöngu er um tímabundið átak að ræða sem ekki er fordæmisgefandi og leggur áherslu á að þessi leið verði ekki almennt farin í starfsmenntunarmálum, enda gilda sérstök lög um starfsmenntun í atvinnulífinu, nr. 19/1992. Þá vill nefndin benda á nauðsyn þess að komið verði á því kerfi sem samkomulag varð um til að tryggja að fjármunir séu vel nýttir og að í lok átaksins verði óháður aðili fenginn til að leggja mat á árangur verkefnisins og hvaða ávinningi það hafi skilað atvinnulífinu.

Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að verkefnið er þegar hafið og var m.a. nefnd til sögunnar íslenskukennsla fyrir útlendinga og lýsir nefndin ánægju sinni með það verðuga verkefni.

Loks vill nefndin benda á að huga þarf að stöðu fleiri hópa launamanna, ekkí síst bankastarfsmanna, vegna breytts starfsumhverfis.

Leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu að 1. gr. orðist svo:

Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Á árunum 2001--2003 skal verja ákveðinni fjárhæð úr Atvinnuleysistryggingasjóði í samræmi við fjárlög hvers árs til átaks í fræðslumálum ófaglærðra samkvæmt samkomulagi milli Samtaka atvinnulífsins og Flóabandalagsins annars vegar og Verkamannasambands Íslands og Landssambands iðnverkafólks, sem mynda nú Starfsgreinasamband Íslands, hins vegar.

Undir nál. rita Arnbjörg Sveinsdóttir, Kristján Pálsson, Drífa Hjartardóttir, Jónas Hallgrímsson, Jónína Bjartmarz, Pétur H. Blöndal, Ásta R. Jóhannesdóttir með fyrirvara, Guðrún Ögmundsdóttir með fyrirvara og Steingrímur J. Sigfússon með fyrirvara.