Atvinnuleysistryggingar

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 11:05:05 (3421)

2000-12-15 11:05:05# 126. lþ. 50.7 fundur 347. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (fræðslusjóðir) frv. 182/2000, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[11:05]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta finnst mér skemmtileg umræða. Hvar er hv. þm. að setja fingurinn? Hann setur fingurinn á ákveðið mein í hinu pólitíska kerfi okkar og hvernig við finnum út vilja meiri hluta þjóðarinnar. Hv. þm. sagði: Stjórnarandstaðan kemur ekki með þessi mál. Stjórnarandstaðan hefur lagt þessi mál fram. Hún hefur ítrekað flutt mál við fjárlagaumræðuna um starfsmenntun í atvinnulífinu og óskað eftir auknu fjármagni til þess. Þetta er eitt af þeim málum sem hún hefur látið sig varða, eins og mörg þeirra mála sem koma svo endanlega hér inn í samskiptum ríkis og verkalýðshreyfingar.

Þegar við tölum hins vegar um meiri hlutann, vilja þjóðarinnar og úrlausn mála á Alþingi, þá skulum við athuga að niðurstaðan er ekki alltaf sú sem meiri hluti fólksins hefði viljað. Hér er aldrei einn flokkur í meiri hluta þannig að meiri hluti þjóðarinnar endurspegli vilja Alþingis. Það endurspeglar ekki vilja meiri hluta þjóðarinnar að hér hefur undanfarin fimm ár verið rekin fullkomin íhaldsstefna. Hún verður ofan á í öllum málum vegna þess að margir sem kusu Framsfl. töldu að hann mundi standa fyrir og verja félagslega þætti. Hann hefur hins vegar ekki staðið undir þeim væntingum. Hverjir eru hagsmunir þjóðarinnar og kemur vilji þjóðarinnar fram í kjarasamningum eða ekki? Það get ég ekki tjáð mig um né heldur hv. þm. Pétur H. Blöndal. Við skulum varast að fullyrða að ríkjandi meiri hluti hér á Alþingi hafi meiri hluta þjóðarinnar á bak við sig í þeim málum sem þeir knýja hér fram.