Tekjuskattur og eignarskattur

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 15:59:32 (3512)

2000-12-16 15:59:32# 126. lþ. 52.7 fundur 264. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa o.fl.) frv. 149/2000, Frsm. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 126. lþ.

[15:59]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ansi lítið sé við því að gera að ég og hv. þm. erum ekki sammála um skattalega meðferð á tekjum eftir uppruna þeirra. Ég tel að jafnræði eigi að ríkja þar á milli. Ég er ekki sammála ríkisstjórn hans og honum að á sama tíma og við erum að leggja aukna skattbyrði á almenning í landinu eða ríkisstjórnin stendur að, að þá eigi að lækka skatthlutfallið á forríka fjármagnseigendur úr 38% í 10%. Þetta eru ekki margir aðilar, þetta eru 636 aðilar á síðustu tveim árum.

[16:00]

Ríkisstjórnin stendur þannig að verki varðandi þá skattlagningu sem þeir hafa fengið frestun á að þeir þurfa nú að greiða af henni bara 10% en hefðu annars þurft að greiða af henni 38%. Svona er hæstv. ríkisstjórnin að mylja aftur og aftur undir fjármagnseigendur fyrir utan það að hún stendur að því að fresta gildistökuákvæði á þessu frv. sem við ræðum hér um eitt ár til þess að skapa þessa skattasniðgöngu áfram fyrir örfáa einstaklinga. Ég ætla að halda því til haga enn og aftur að ríkisskattstjóri er mjög andsnúinn því að halda þannig á málum að framlengja þetta ákvæði eins og ríkisstjórnin gerir. Hann telur að þetta ákvæði eigi að taka gildi strax til þess að loka fyrir þessa skattasmugu. Við erum bara ekki sammála um það, herra forseti, hvernig á að halda á skattamálum og hvernig á að skattleggja tekjur. Ég tel að það eigi að vera samræmi í því, það eigi ekki að skipta máli hvernig tekna er aflað. Þess vegna leiðir þetta til þessa mismunar og ójafnræðis. Ég tel að það jaðri við að þetta sé brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, þ.e. að veita örfáum forríkum einstaklingum slíka skattaívilnun eins og ríkisstjórnin stendur að og ætlar að framlengja eitthvað áfram ásamt því að hafa þessa frestunarheimild fyrir lögaðilana áfram.