Jólakveðjur

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 18:30:53 (3539)

2000-12-16 18:30:53# 126. lþ. 54.92 fundur 230#B jólakveðjur#, RG
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 126. lþ.

[18:30]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Fyrir hönd alþingismanna flyt ég forseta þakkir fyrir ágætt samstarf. Það er þýðingarmikið þegar forseti Alþingis leggur áherslu á góða samvinnu um framvindu þingstarfa og gang mála.

Við tökumst á hér á Alþingi á hverju þingi um vinnulag, um grundvallaratriði við lagasetningu. En við afgreiðum mjög mörg mál í fullri sátt. Þó um sinn hafi litið út fyrir að starfsáætlun raskaðist og við yrðum að störfum jafnframt í næstu viku, eins og svo oft hefur gerst, þá erum við nú að ljúka þingstörfum á tilsettum tíma fyrir jólahlé og það er afskaplega ánægjulegt. Breytt tímasetning fjárlagaumræðunnar á sinn þátt í að við höldum starfsáætlunina og ég vil lýsa sérstakri ánægju með þá þróun og treysti og styð að þannig verði haldið á málum framvegis.

Ég þakka forseta Alþingis hlý orð í garð þingmanna fyrir okkar hönd og óska forseta og fjölskyldu hans gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. Sérstakar þakkir til alls starfsfólks Alþingis fyrir framlag þess og lipurð við okkur þingmennina og óskir því til handa um gleðileg jól.

Ég bið hv. þm. að taka undir óskir til starfsfólks Alþingis og óskir til hæstv. forseta okkar og fjölskyldu hans með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]