Ferill 160. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 162  —  160. mál.




Frumvarp til laga



um ábyrgðarmenn.

Flm.: Lúðvík Bergvinsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Pétur H. Blöndal,


Einar Oddur Kristjánsson, Kristinn H. Gunnarsson, Jón Kristjánsson,


Steingrímur J. Sigfússon, Ögmundur Jónasson, Sverrir Hermannsson.



I. KAFLI

Gildissvið, skilgreiningar og framsal.

1. gr.

    Lög þessi gilda um:
     a.      samninga og viðskiptabréf, þar með talda tékka og víxla, þar sem einstaklingur hefur skuldbundið sig persónulega til að tryggja efndir peningakröfu á hendur aðalskuldara,
     b.      samninga og viðskiptabréf þar sem einstaklingar hafa veðsett eigur sínar til tryggingar efndum aðalskuldara.
    Lög þessi ganga framar ákvæðum annarra laga sem kveða á um ábyrgðarmenn eins og þeir eru skilgreindir í lögum þessum.
    Viðskiptaráðherra getur með reglugerð undanþegið samninga og viðskiptabréf ef nafnvirði fjárhæðar þeirra nær ekki 300.000 kr., auk þess sem lögin gilda ekki um framsal tékka við innlausn hans í fjármálastofnun.

2. gr.

    Í lögum þessum hafa eftirtalin orð merkingu sem hér segir:
    Ábyrgðarmaður: Einstaklingur sem skuldbindur sig persónulega eða með eigum sínum gagnvart öðrum til tryggingar efndum fjárskuldbindinga þriðja aðila.
    Aðalskuldari: Sá sem gengist er í ábyrgð fyrir.
     Kröfuhafi: Eigandi eða handhafi kröfu sem ábyrgðarmaður hefur ábyrgst.
    Framsalshafi: Sá er fær kröfu framselda til sín.

3. gr.

    Við framsal kröfu sem ábyrgðarmaður er í ábyrgð fyrir eða hefur veðsett eigur sínar til tryggingar efndum á gilda ákvæði þessara laga um samband framsalshafa og ábyrgðarmanns. Framsalshafi skal án tafar tilkynna ábyrgðarmanni um framsalið. Framsalshafi ber ábyrgð á því tjóni sem af því kann að hljótast að tilkynningarskyldu er ekki sinnt.

II. KAFLI

Stofnun, efni og form ábyrgðarsamninga.

4. gr.

    Ábyrgðarsamningur skal vera skriflegur.
    Ábyrgðarsamningur sem ekki kveður skýrt á um höfuðstól kröfu á hendur aðalskuldara er ógildur. Enn fremur er ábyrgðarsamningur ógildur ef hann kveður á um afhendingu viðskiptabréfs með ábyrgðarmönnum í því skyni að tryggja kröfu sem kann að stofnast í framtíðinni.
    Skilyrði sem ekki kemur fram í ábyrgðarsamningi er ekki bindandi fyrir ábyrgðarmann nema lög kveði á um annað.

5. gr.

    Áður en ábyrgðarmaður undirritar ábyrgðarsamning skal kröfuhafi upplýsa hann skriflega um hvers konar ábyrgð er að ræða og hversu víðtæk hún er. Kröfuhafi skal enn fremur upplýsa ábyrgðarmann um hverju það geti varðað falli ábyrgðin að öllu leyti eða að hluta á hann með tilliti til fjárhags ábyrgðarmanns.
    Auk þess skal kröfuhafi upplýsa ábyrgðarmann um:
     a.      kröfu þá sem ábyrgðarmaður vill ábyrgjast, auk upplýsinga um þann tíma sem ábyrgðinni er ætlað að gilda, fjárhæð kröfu, fyrningarreglur, hlutfall ábyrgðar eða hæstu fjárhæð sem ábyrgðarmanni er ætlað að ábyrgjast og kostnað sem ábyrgðarmanni er ætlað að ábyrgjast vegna vanefnda aðalskuldara,
     b.      veð og tryggingar sem auk ábyrgðarloforðs er ætlað að standa til tryggingar efndum kröfu, þar með talið virði eigna sem aðalskuldari hefur sett til tryggingar efndum,
     c.      aðrar skuldir aðalskuldara hjá viðkomandi lánveitanda og hvort þær eru í vanskilum enda liggi samþykki aðalskuldara fyrir um veitingu slíkra upplýsinga; hafni aðalskuldari því að ábyrgðarmanni verði veittar þessar upplýsingar skal ábyrgðarmanni tilkynnt um það áður en hann undirritar ábyrgðarsamning.
    Ábyrgðarmanni skal afhent eintak af lánssamningi og ábyrgðarsamningi auk annarra skriflegra upplýsinga sem skylt er að veita honum.

III. KAFLI

Réttarsamband kröfuhafa og ábyrgðarmanns.

6. gr.

    Kröfuhafi skal tilkynna ábyrgðarmanni skriflega um vanefndir aðalskuldara. Ábyrgðarmaður verður ekki krafinn um greiðslur á dráttarvöxtum eða öðrum kostnaði sem fellur til eftir gjalddaga nema liðnar séu tvær vikur frá því að ábyrgðarmanni var send tilkynning um vanefndir aðalskuldara. Þá skal kröfuhafi tilkynna ábyrgðarmanni ef veð eða aðrar tryggingaráðstafanir eru ekki lengur tiltækar. Jafnframt skal kröfuhafi tilkynna ábyrgðarmanni um lát aðalskuldara eða að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta.
    Kröfuhafi skal, fyrir hver áramót, tilkynna ábyrgðarmanni skriflega um hvaða kröfum hann er í ábyrgðum fyrir, hverjar eftirstöðvar þeirra eru, hvort þær eru í vanskilum og hversu mikil vanskil eru, ef um þau er að ræða.
    Vanefni kröfuhafi tilkynningarskyldu sína ber hann ábyrgð á því tjóni sem ábyrgðarmaður kann að verða fyrir vegna þess.

7. gr.

    Kröfuhafi getur ekki gert fyrirvara um það í ábyrgðarsamningi að hann geti einhliða breytt skilmálum samnings í óhag fyrir ábyrgðarmann. Breyting á upphaflegum lánssamningi kröfuhafa og aðalskuldara hefur engin áhrif á ábyrgðarsamning nema samhliða sé gerð á honum sams konar breyting. Ákvæði þetta gildir þó ekki um breytingar á vöxtum eða kostnaðarliðum sem lánveitandi hefur rétt til að breyta samkvæmt samningi við aðalskuldara.
    Ákvæði í samningi um að ábyrgðarmaður afsali sér rétti til að gera kröfur á hendur lánveitanda vegna vanefnda á skyldum hans gagnvart ábyrgðarmanni eru ógild.

8. gr.

    Vanefni aðalskuldari skyldur sínar þannig að kröfuhafi gjaldfellir kröfu ásamt vöxtum og kostnaði gildir sú gjaldfelling ekki gagnvart ábyrgðarmanni nema honum hafi áður verið tilkynnt um vanefnd aðalskuldara og jafnframt gefinn kostur á að greiða kröfuna. Ábyrgðarmaður verður ekki krafinn um dráttarvexti eða kostnað vegna innheimtu eða annarra fullnustuaðgerða nema honum hafi áður verið gefinn kostur á að greiða kröfuna. Ef ábyrgðarmaður ákveður að greiða kröfuna eða koma henni í skil skal hann tilkynna kröfuhafa og aðalskuldara um það um leið og greiðsla hefur átt sér stað.

9. gr.

    Ekki verður gerð aðför í fasteign þar sem ábyrgðarmaður býr eða fjölskylda hans ef krafa á rót sína að rekja til ábyrgðarloforðs enda hafi ábyrgðarmaður ekki haft hag af lánveitingunni eða stofnun kröfunnar.
    Kröfuhafi getur ekki krafist gjaldþrotaskipta á búi ábyrgðarmanns ef krafa hans á rót sína að rekja til ábyrgðarloforðs nema hann geri sennilegt að um sviksamlegt undanskot eigna ábyrgðarmanns hafi verið að ræða eða ábyrgðarmaður hafi haft ávinning af lánveitingunni eða stofnun kröfunnar.

IV. KAFLI

Takmarkanir á ábyrgð.

10. gr.

    Hafi kröfuhafi keypt tryggingu vegna hugsanlegs greiðslufalls aðalskuldara og greiðsluskylda fellur til samkvæmt skilmálum tryggingar takmarkar sú greiðsla ábyrgð ábyrgðarmanns sem nemur þeirri fjárhæð sem greidd er inn á kröfuna.
    Ef kröfuhafi vanrækir að lýsa kröfu í gjaldþrota- eða dánarbú aðalskuldara lækkar krafa á hendur ábyrgðarmanni sem nemur þeirri fjárhæð sem ella hefði fengist greidd úr þrota- eða dánarbúi aðalskuldara.
    Nauðasamningur eða önnur eftirgjöf sem kveður á um lækkun kröfu á hendur aðalskuldara hefur sömu áhrif til lækkunar kröfu á hendur ábyrgðarmanni.

V. KAFLI

Brottfall ábyrgðar eða annarra tryggingaráðstafana.

11. gr.

    Ábyrgðarmaður verður ekki skuldbundinn af ábyrgðaryfirlýsingu hafi aðalskuldari aldrei orðið skuldbundinn til að inna greiðslu af hendi samkvæmt samningi.
    Ef lánveitandi samþykkir að veð eða aðrar tryggingaráðstafanir sem gerðar voru til að tryggja efndir samnings skuli ekki lengur standa til tryggingar, og breytingin hefur í för með sér að staða ábyrgðarmanns er þá mun verri en hún var, er ábyrgðarmaður ekki lengur bundinn af samningi sínum.
    Ef kröfuhafi veitir aðalskuldara greiðslufrest er ábyrgðarmaður ekki bundinn af samningi sínum hvað varðar ábyrgð á efndum þeirrar greiðslu nema kröfuhafi geti sýnt fram á að gjaldfresturinn hafi ekki haft áhrif á greiðslugetu aðalskuldara.

VI. KAFLI

Reglugerðarheimild.

12. gr.

    Viðskiptaráðherra skal setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd I. og II. kafla laga þessara.

VII. KAFLI

Gildistaka.

13. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er nú flutt í fjórða sinn með nokkrum breytingum. Veigamest þeirra breytinga er að í 9. gr. frumvarpsins er kveðið á um að heimilt sé að gera fjárnám í fasteign sem ábyrgðarmaður á og býr í hafi hann haft persónulegan hag af lánveitingunni.
    Í núgildandi lögum er hvergi að finna almennar reglur um ábyrgðarmenn fjárskuldbindinga eða hvernig staðið skuli að slíkri samningsgerð. Bankar og aðrar fjármálastofnanir hafa því að mestu mótað eigin reglur um samskipti sín og ábyrgðarmanna fjárskuldbindinga. Í skýrslu nefndar frá því í nóvember 1996, sem viðskiptaráðherra skipaði til að fara yfir framkvæmd ábyrgðarveitinga, kemur fram að gera má ráð fyrir að um 90.000 einstaklingar yfir 18 ára aldri séu í ábyrgð fyrir fjárskuldbindingum þriðja aðila. Það eru um 47% allra Íslendinga á þessum aldri. Ekki hefur tekist að finna nýrri upplýsingar um stöðu þessara mála hér en fátt bendir til þess að verulegar breytingar hafi orðið á þessu sviði þrátt fyrir vilja fjármálastofnana til þess. Því bendir flest til þess að ábyrgðarskuldbindingar séu mun algengari hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum eða í Vestur-Evrópu. Þannig kemur fram í áðurnefndri skýrslu viðskiptaráðuneytisins, Ábyrgðarmenn fjárskuldbindinga, að höfundur norrænnar skýrslu um ábyrgðarveitingar telur að á 10% heimila á Norðurlöndum megi finna einstaklinga sem eru í ábyrgð fyrir fjárskuldbindingum annarra. Ef aðeins er tekið mið af upplýsingum sem fram koma í skýrslunni er ekki óvarlegt að ætla að á 60–80% heimila hér á landi megi finna einstaklinga yfir 18 ára aldri sem eru í persónulegri ábyrgð fyrir fjárskuldbindingum annarra. Því má fullyrða að þróun ábyrgðarskuldbindinga hér á landi hefur orðið önnur en annars staðar á Norðurlöndum.
    Markmiðið með framlagningu þessa frumvarps er að lögfesta almennar reglur um stofnun, form og efni ábyrgðarsamninga, samskipti ábyrgðarmanna og kröfuhafa, upplýsingaskyldu kröfuhafa og ógildingarástæður, auk samskiptareglna milli ábyrgðarmanna og lánveitanda. Reglunum er því ætlað að gilda um samninga þar sem einstaklingar takast á hendur persónulega ábyrgð eða ábyrgð fyrir hönd einkafirma síns og aðalskylda skuldara er greiðsla peninga.
    Frumvarpið byggist að miklu leyti á sjónarmiðum um neytendavernd. Nauðsyn hennar birtist m.a. í aðstöðumun sem jafnan er á stöðu ábyrgðarmanna annars vegar og viðsemjenda þeirra (lánastofnana) hins vegar. Í flestum tilvikum er öll sérfræðiþekking í lánsviðskiptum hjá lánveitanda (kröfuhafa), auk þess sem ábyrgðarmaður sjálfur hefur sjaldnast nokkurn hag af samningnum. Þá er þess að geta að ástæður einstaklinga fyrir því að gangast í ábyrgð eru oftar en ekki krafa lánastofnana eða annarra stórfyrirtækja um auknar tryggingar, auk þrýstings frá fjölskyldumeðlimum, vinum og kunningjum sem erfitt getur verið að standast þar sem afkoma og afdrif einstaklinga geta verið undir því komin að umbeðin fyrirgreiðsla fáist.
    Hér á landi virðist hafa verið lögð ríkari áhersla á að þriðji maður ábyrgist efndir aðalskuldara en þekkist í nágrannalöndunum. Minni áhersla hefur verið lögð á að lánveitandi láti fara fram faglegt mat á greiðslugetu lántakenda eins og skýrslan sem vitnað er til hér að framan ber með sér. Lánastofnanir virðast hafa lagt mun meiri áherslu á að reyna þess í stað að tryggja sér ábyrgð þriðja manns í því skyni að takmarka sína áhættu. Þessu er frumvarpinu, verði það að lögum, ætlað að breyta.
    Þá er það eitt af markmiðum frumvarpsins að tryggja að upplýsingar um áhættu ábyrgðarmanns liggi fyrir þegar ábyrgðarsamningur er undirritaður. Þessi upplýsingagjöf kröfuhafa er forsenda samningsins og liggi upplýsingar ekki nægjanlega skýrt fyrir við samningsgerð getur það leitt til þess að samning megi ógilda á grundvelli reglna frumvarpsins og almennra reglna um brostnar forsendur í samningum, sbr. III. kafla laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Finna má þess mörg dæmi úr íslensku viðskiptalífi að forsenda þess að samningar tókust var að þriðji aðili, einstaklingur, tókst á herðar ábyrgð á efndum. Mýmörg dæmi eru um tilvik þar sem samningsaðilum sjálfum hefur verið ljóst að aðalskuldari gæti aldrei efnt samning, en hann komist á þrátt fyrir það, án þess að ábyrgðarmanni væri þessi vitneskja tiltæk. Þetta hefur oft og tíðum leitt til þess að ábyrgðarmenn hafa misst heimili sín og þannig hefur verið kippt stoðum undan fjárhagslegu og félagslegu öryggi heilu fjölskyldnanna án þess að ábyrgðarmenn hafi nokkurn tíma haft af því hagsmuni að samningi væri komið á. Afleiðingarnar hafa oft verið mjög alvarlegar fyrir einstaklinga, fjölskyldur og samfélagið í heild.
    Róttækustu breytingarnar sem frumvarpið felur í sér er að finna í 4. gr. Þar er í fyrsta lagi kveðið á um að ábyrgðarsamningar skuli vera skriflegir. Það er formskilyrði fyrir gildi þeirra. Rökin fyrir þessari breytingu eru þau að sönnunaraðstaða um efni ábyrgðarsamnings væri annars mjög erfið. Í reynd eru flestir ábyrgðarsamningar skriflegir og því mun þetta ákvæði ekki hafa mikla praktíska breytingu í för með sér frá því sem nú er. Í 2. mgr. er kveðið á um að ábyrgðarsamningar þar sem ekki er kveðið skýrt á um höfuðstól kröfu á hendur aðalskuldara séu ógildir. Þá er þar kveðið á um að óheimilt sé að afhenda viðskiptabréf með ábyrgðarmönnum til að tryggja kröfu sem kann að stofnast síðar. Sú regla leiddi meðal annars til þess að afhending svokallaðra tryggingarvíxla, sem er séríslenskt fyrirbæri, yrði ekki lengur heimil.
    Enn fremur er að finna róttækar breytingar í 9. gr. frumvarpsins en þar er efni ábyrgðarloforðs þrengt frá því sem nú er. Finna má mörg dæmi úr íslensku viðskiptalífi um að forsenda þess að samningar tókust hafi verið að þriðji aðili, einstaklingur, gekkst í ábyrgð á efndum. Dæmi eru að samningur hafi komist á þrátt fyrir að samningsaðilum hafi verið ljóst að aðalskuldari gæti aldrei efnt samninginn. Þetta hefur leitt til þess að ábyrgðarmenn hafa misst heimili sín og þannig hefur verið kippt stoðum undan fjárhagslegu og félagslegu öryggi heilu fjölskyldnanna, án þess að ábyrgðarmenn hafi nokkurn tíma haft af því hagsmuni að samningi væri komið á. Afleiðingarnar hafa oft verið mjög alvarlegar fyrir einstaklinga, fjölskyldur og samfélagið í heild.
    Því er í 9. gr. kveðið á um að ekki verði gerð aðför í fasteign ábyrgðarmanns, sem hann býr í, ef krafa á rót sína að rekja til ábyrgðarloforðs, auk þess sem þar er að finna ákvæði þess efnis að krafa um gjaldþrotaskipti verði ekki höfð uppi vegna kröfu sem á rót sína að rekja til ábyrgðarsamnings. 9. gr. á sér sumpart fyrirmynd í reglu sem hefur verið lögfest víða í Bandaríkjunum, svokallaðri „Homestead exemption“-reglu (Homestead exemption for the house in which the debtor lives, þ.e. „homestead“ merkir heimili skuldara). Í öllum samanburði við þessa reglu er rétt að hafa í huga að bandaríska reglan á við um gjaldþrotaskipti, en hér er ætlunin að setja almennar reglur um ábyrgðarmenn. „Homestead exemption“-reglan kveður á um að heimili skuldara renni ekki inn í gjaldþrotabú við skipti. Rökin fyrir henni eru þau að það þjóni ekki hagsmunum samfélagsins að reka einstaklinga og fjölskyldur á dyr í kjölfar gjaldþrots heldur auki það aðeins á vandann í stað þess að leysa hann. Þá er og sagt að samfélagsleg vandamál vegna sundraðra heimila vegi þyngra en hagsmunir einstakra kröfuhafa af því að geta leitað efnda kröfu með því að selja hús ofan af skuldaranum. Tilvist reglunnar leiðir sjálfkrafa af sér að ríkar kröfur eru gerðar til samningsaðilanna sjálfra um fagleg vinnubrögð við samningsgerð. Sú staðreynd að gagnaðili eigi fasteign undanþiggur ekki viðsemjanda hans frá því að sýna ýtrustu aðgæslu við samningsgerð. Reglan sem er almenn tekur jafnt til aðalskuldara og ábyrgðarmanna og gengur því mjög langt í því að vernda fjölskylduna, mun lengra en hér er gert, enda gildir þetta frumvarp aðeins um ábyrgðarmenn. Þessa hugsun er ætlunin að færa inn í íslenskan rétt með lögfestingu frumvarpsins.
    Það er mat flutningsmanna að með framlagningu frumvarpsins, einkanlega 9. gr., sé á engan hátt vegið að eðlilegu samningsfrelsi í landinu enda er hér aðeins verið að standa gegn því að gert verði fjárnám í heimilum þeirra sem gangast í persónulega ábyrgð fyrir þriðja aðila, án þess að þeir hafi persónulegan hag af lánveitingunni. Eftir sem áður geta einstaklingar í frjálsum samningum veðsett eigur sínar að vild. Flutningsmenn telja að samningsfrelsi sé og verði ein af grundvallarreglum samfélagsins þótt eðlilegar undantekningar geti verið á þeirri reglu sem finna má ýmis dæmi um í löggjöfinni. Í frumvarpinu eru skýrar reglur um hvernig standa skuli að samningsgerð þegar þriðji maður gengst í ábyrgð á efndum aðalskuldara vegna fjárskuldbindinga, auk þess sem ábyrgðarkrafa er færð skör neðar, án þess að lagt sé bann við nokkru sem nú er heimilt.
    Rökin fyrir þeim reglum sem hér er lagt til að verði lögfestar eru markmiðið um vernd einstaklingsins sökum þeirrar yfirburðastöðu sem lánveitendur hafa jafnan við samningsgerð. Það er einnig mat flutningsmanna að sú þróun sem átt hefur sér stað hér á landi á fjölda ábyrgðarmanna sé óviðunandi, eins og áðurnefnd skýrsla viðskiptaráðherra ber með sér. Enn fremur er í frumvarpinu gerð sú krafa til kröfuhafa að þeir sendi um hver áramót tilkynningu til ábyrgðarmanna með upplýsingum um ábyrgðir sem þeir hafa gengist í og hvort þær séu í vanskilum og þá hversu mikil þau vanskil eru. Flutningsmenn telja nauðsynlegt að haldið sé vel utan um þetta því að eins og ábyrgðarmannakerfið hefur þróast hér á landi er óvíst að allir hafi nákvæmt yfirlit yfir það í hvaða ábyrgðum þeir eru. Má sem dæmi benda á Lánasjóð íslenskra námsmanna, en löngum hefur tíðkast að samstúdentar skrifi upp á lán hver fyrir annan án þess oft og tíðum að hafa næga yfirsýn yfir hvaða ábyrgðir þeir hafa skrifað upp á.
    Eins og áður hefur komið fram er frumvarp þetta lagt fram fjórða sinni þar sem það varð ekki útrætt á síðasta þingi.

Athugasemdir við einstakar greinar.

Um 1. gr.


    Samkvæmt greininni munu lögin gilda um samninga og skuldabréf þar sem einstaklingur hefur skuldbundið sig persónulega eða fyrir hönd einkafirma til að tryggja efndir peningakröfu. Enn fremur er þeim ætlað að gilda um sams konar samninga þar sem einstaklingar hafa veðsett eigur sínar til tryggingar efndum peningakröfu á hendur aðalskuldara. Lögin munu gilda um alla samninga einstaklinga þar sem þeir hafa ákveðið að gangast í ábyrgð gagnvart þriðja aðila og breytir engu hvort ábyrgðin er in solidum, pro rata, einföld eða annars konar ábyrgð. Aðalatriðið við mat á því hvort lögin taka til gerningsins er hvort einstaklingur gengst í ábyrgð þar sem aðalskylda aðalskuldara er greiðsla peninga. Lögin munu einnig taka til tilvika þegar einstaklingar taka á sig persónulega ábyrgð í gegnum einkafirma sitt. Aðalatriðið við mat á því hvort lögin eigi við er hvort einstaklingur verði persónulega ábyrgur falli niður greiðsla af hálfu aðalskuldara.
    Lögin munu taka til allra einstaklinga í tilvikum þar sem fleiri en einn hefur undirritað ábyrgðarsamning. Réttarsamband hvers og eins er því sjálfstætt gagnvart kröfuhafa.
    Ætlunin er að lögin gangi framar gildandi lögum sem fjalla um ábyrgðarmenn, þ.e. þeim er ætlað að taka til allra samskipta kröfuhafa og ábyrgðarmanna.
    Lögunum er ekki ætlað að gilda um ábyrgðir sem ekki ná tiltekinni fjárhæð. Viðskiptaráðherra setur nánari reglur um þá fjárhæð en hún má ekki vera hærri en 300.000 kr. Viðmiðunin er heildarfjárhæð sem ábyrgst er gagnvart ákveðnum kröfuhafa. Því verður ekki komist fram hjá þessum reglum með því að gera fleiri samninga en einn við sama lánveitanda. Meginástæða þess að flutningsmenn vilja takmarka ábyrgðir við ákveðna fjárhæð er að reglunum er ekki ætlað að hefta viðskipti. Það væri þó hugsanleg niðurstaða ef reglunum væri ætlað að taka til allra viðskipta, hversu smávægileg sem þau kynnu að vera.
    Lögunum er ekki ætlað að gilda um ábyrgðaryfirlýsingar vegna verk- og/eða vinnusamninga eða aðra samninga þar sem kveðið er á um aðra aðalskyldu aðalskuldara en greiðslu peninga. Aðalskuldari getur verið hvort heldur sem er einstaklingur eða lögaðili.
    Lögin munu taka til allra réttarsambanda þar sem þriðji maður hefur gengist í persónulega ábyrgð fyrir greiðslu peningakröfu. Þeim er ekki ætlað að vera afturvirk, en á hinn bóginn munu þau gilda um réttarsambönd sem þegar hefur verið komið á og hefur ekki verið lokið. Má þar nefna upplýsingaskyldu kröfuhafa gagnvart ábyrgðarmanni, réttarstöðu við lýsingu krafna í þrotabú og annað þótt lögin taki ekki til stofnunar ábyrgðarsamnings sem þegar hefur verið stofnað til.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 3. gr.


    Hér er kveðið á um að við framsal kröfu taki framsalshafi við réttindum og skyldum hins upphaflega kröfuhafa eins og þær eru. Framsalshafi ber ábyrgð á því tjóni sem kann að hljótast af því eða verður rekið til þess að ábyrgðarmanni var ekki tilkynnt um framsalið og gat því ekki af þeim sökum tryggt hagsmuni sína.

Um 4. gr.


    Í þessari grein kemur fram það formskilyrði fyrir gildi ábyrgðarsamnings að hann sé skriflegur. Í ábyrgðarsamningi á að koma fram hvaða upplýsingar lágu fyrir við samningsgerðina. Enn fremur skal koma fram hvaða réttindi kröfuhafi áskilur sér gagnvart ábyrgðarmanni umfram það sem leiðir af lögum og venjum, ef einhver eru, því að ábyrgðarmaður er ekki bundinn af öðrum skilyrðum en þeim sem fram koma í samningum nema lög eða venjur kveði á um annað. Ákvæðið nær einnig til handhafabréfa.
    Í 2. mgr. kemur fram að ábyrgðarsamningur er ógildur ef ekki kemur skýrt fram hver er höfuðstóll kröfu á hendur aðalskuldara. Jafnframt er óheimilt að kveða á um afhendingu viðskiptabréfs með ábyrgðarmönnum til tryggingar óákveðinni kröfu. Þetta ákvæði hefur í för með sér að óheimilt er að afhenda viðskiptabréf með ábyrgðarmönnum í því skyni að tryggja kröfu sem kann að stofnast á hendur aðalskuldara í óskilgreindri framtíð. Sem dæmi má nefna að bankar, lánastofnanir eða greiðslukortafyrirtæki gætu ekki lengur krafist þess að einstaklingur legði fram viðskiptabréf, t.d. tryggingarvíxil, með ábyrgðarmönnum áður en umbeðin fyrirgreiðsla fengist. Slíkur samningur væri ógildur.

Um 5. gr.


    Greinin kveður á um upplýsingaskyldu kröfuhafa við samningsgerð. Vanræksla kröfuhafa á því að upplýsa ábyrgðarmann um atriði sem talin eru upp í greininni geta leitt til þess að ábyrgðarmaður sé ekki bundinn við samning sinn, a.m.k. ekki ef vitneskja um atriði hefði getað haft áhrif á ákvörðun ábyrgðarmanns um að takast á hendur ábyrgð samkvæmt samningi. Í vafatilvikum hvílir sönnunarbyrðin um vanrækslu kröfuhafa á upplýsingagjöf á honum sjálfum. Markmiðið með þessu ákvæði er að ábyrgðarmanni sé ljós sú fjárhagslega áhætta sem hann tekur með undirritun ábyrgðarsamnings. Upptalningin er ekki tæmandi um hvaða upplýsingar þurfa að liggja fyrir við gerð ábyrgðarsamnings. Aðalatriðið við skýringu á því hvort kröfuhafi hafi uppfyllt upplýsingaskyldu sína lýtur að því hvort öll atriði sem gátu varpað ljósi á áhættu ábyrgðarmanns hafi legið fyrir við undirritun. Vanræksla kröfuhafa við samningsgerð getur leitt til þess að ábyrgðarloforðið sé ógildanlegt, sbr. III. kafla laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
    Samkvæmt a-lið 2. mgr. skal upplýsa ábyrgðarmann um kröfu sem hann ábyrgist, hvort tímamörk eru á ábyrgðinni, fyrningarreglur og hvernig henni verði slitið, höfuðstól kröfu, greiðslubyrði aðalskuldara, hlutfall ábyrgðar, kostnað sem ábyrgðarmanni er ætlað að ábyrgjast vegna innheimtu og fullnustugerða o.s.frv.
    Í b-lið 2. mgr. kemur fram að upplýsa skuli ábyrgðarmann um hvaða tryggingar hafa verið settar til að tryggja efndir aðalskuldara og hvers virði þær séu. Þar þarf að liggja til grundvallar mat á markaðsvirði eigna.
    Rétt er að vekja sérstaka athygli á því að í c-lið 2. mgr. kemur fram að ábyrgðarmaður eigi rétt á því að fá að vita um aðrar skuldbindingar aðalskuldara hjá viðkomandi lánveitanda og stöðu þeirra. Þessar upplýsingar verða þó ekki veittar nema að fengnu samþykki aðalskuldara. Ef hann veitir ekki samþykki sitt á ábyrgðarmaður á hinn bóginn rétt á því að fá að vita um það áður en hann undirritar ábyrgðarsamning.
    Að lokum er kveðið á um að ábyrgðarmaður eigi rétt á því að fá afhent eintök af láns- og ábyrgðarsamningum sínum.

Um 6. gr.


    Hér er kveðið á um upplýsingaskyldu kröfuhafa vegna vanefnda aðalskuldara auk þess sem kveðið er á um skyldu kröfuhafa til að tilkynna ábyrgðarmanni sérstaklega ef veð eða aðrar tryggingar sem kunna að hafa áhrif á réttarstöðu hans eru ekki lengur tiltækar eða líklegt er að þær fari forgörðum á einhvern hátt. Þá skal kröfuhafi tilkynna ábyrgðarmanni um gjaldþrot eða andlát aðalskuldara verði hann þess vís.
    Hér er sú kvöð lögð á kröfuhafa að hann verði að tilkynna ábyrgðarmanni um vanefndir aðalskuldara ætli hann að innheimta dráttarvexti hjá ábyrgðarmanni eða annan kostnað vegna vanefndanna. Hér liggur að baki sú hugsun að ábyrgðarmaður geti alltaf gripið inn í og greitt gjaldfallna afborgun/greiðslu eins og hún var á gjalddaga.
    Í 2. mgr. er kröfuhafa gert skylt að tilkynna ábyrgðarmönnum um hver áramót um stöðu þeirra krafna sem þeir eru í ábyrgðum fyrir og ef vanskil eru, hversu mikil þau séu. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum telja flutningsmenn nauðsynlegt vegna þeirrar þróunar sem orðið hefur hér á landi að ábyrgðarmenn fái a.m.k. einu sinni á ári yfirlit yfir ábyrgðir sem þeir hafa gengist í. Vanræki kröfuhafi að sinna þessari tilkynningarskyldu ber hann ábyrgð á því tjóni sem ábyrgðarmaður kann að verða fyrir vegna þess. Kröfuhafi skal tryggja sér sönnur á því að hann hafi uppfyllt þessa tilkynningarskyldu. Þetta á, að breyttu breytanda, við um aðrar greinar frumvarpsins þar sem kveðið er á um tilkynningarskyldu kröfuhafa.

Um 7. gr.


    Í greininni kemur fram að kröfuhafi geti ekki svo gilt sé áskilið sér rétt til einhliða breytinga á ábyrgðarsamningi ef þær breytingar leiða til tjóns fyrir ábyrgðarmann. Þetta á þó ekki við um eðlilegar breytingar sem leiðir af upphaflega samningnum milli aðalskuldara og kröfuhafa, eins og breytingar á vöxtum, vísitölu eða öðrum kostnaði sem kröfuhafi hafði í upphaflegum samningi við aðalskuldara áskilið sér rétt til að breyta. Hér er enn fremur hnykkt á sjálfstæði réttarsambands ábyrgðarmanns og kröfuhafa og tekið fram að breyting á upphaflegum samningi kröfuhafa og aðalskuldara hefur ekki sjálfkrafa áhrif á ábyrgðarsamning. Þá er kröfuhafa óheimilt að fara fram á yfirlýsingu þess efnis að ábyrgðarmaður afsali sér til frambúðar rétti á því að krefjast bóta vegna vanrækslu kröfuhafa á að uppfylla kröfur sem ákvæði laga þessa gera til hans. Slík ákvæði eru ógild.

Um 8. gr.


    Hér er kveðið á um réttarstöðu ábyrgðarmanns þegar kröfuhafi hefur gjaldfellt kröfu. Gjaldfelling kröfunnar hefur ekki áhrif gagnvart ábyrgðarmanni nema honum hafi áður verið gefinn kostur á því að koma kröfunni í skil eða greiða hana upp. Í tilkynningunni skal greina skilmerkilega frá fjárhæðum sem ábyrgðarmaður þarf að greiða hyggist hann koma kröfunni í skil eða greiða hana upp. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 9. gr.


    Í þessari grein er að finna reglur sem þrengja efni ábyrgðarloforðs frá því sem nú er. Í fyrsta lagi verður ekki gerð aðför í fasteign ábyrgðarmanns sem hann býr í eða fjölskylda hans ef krafa á rót sína að rekja til ábyrgðarloforðs. Undantekning er þó frá þessari reglu í þeim tilvikum þegar ábyrgðarmaður hefur haft persónulegan hag af lánveitingunni.
    Markmiðið með þessu ákvæði er að undanskilja heimili ábyrgðarmanns aðför vegna krafna sem eiga rætur að rekja til ábyrgðarsamnings. Engu breytir hvort einn eða fleiri eru í ábyrgð, reglan gildir um alla.
    Heimili ábyrgðarmanns og fjölskyldu hans telst sá staður þar sem fjölskyldan hefur að jafnaði bækistöð. Í því felst að heimilið er sá staður þar sem viðkomandi einstaklingur geymir þá hluti sem honum eru nauðsynlegir í dagsins önn og eru til þess fallnir að halda eðlilegt heimili. Það má orða þessa skilgreiningu svo að heimili manns sé sá staður hvaðan viðkomandi gerir út sína tilveru. Við skilgreiningu á orðinu heimili þarf að sjálfsögðu að athuga hvar viðkomandi einstaklingur hefur skráð lögheimili, en það þarf þó ekki að vera úrslitaatriði. Á hinn bóginn takmarkar reglan ekki að aðför verði gerð í öðrum fasteignum eða eignum ábyrgðarmanns sem ekki eru undanskildar aðför, sbr. lög nr. 90/1989, þó svo að aðfararheimild eigi rót sína að rekja til ábyrgðarloforðs. Ef ábyrgðarmaður heldur tvö heimili skal ekki gerð aðför í þeirri fasteign sem vegur þyngra í heimilishaldi fjölskyldunnar.
    Til að því markmiði verði náð að undanþiggja heimili aðför telja flutningsmenn nauðsynlegt að lögfesta reglu um að gjaldþrotaskipta verði ekki krafist á búi ábyrgðarmanns vegna kröfu sem á rót að rekja til ábyrgðarsamnings. Hins vegar, ef til gjaldþrotaskipta kemur á búi ábyrgðarmanns, njóta ábyrgðarkröfur stöðu samkvæmt ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti. Reglan takmarkar ekki möguleika kröfuhafa á að ganga að veði ef ábyrgðarsamningur er í formi veðsetningar á eign ábyrgðarmanns.
    Markmiðið með þessari reglu er að sporna gegn þeirri þróun að einstaklingar missi algerlega fótanna í sinni efnahagslegu tilveru vegna þess eins að þeir hafi ábyrgst skuldbindingar annarra sem síðar hafi fallið á þá.
    Hér er ekki að mati flutningsmanna verið að vega að meginreglunni um samningsfrelsi enda geta einstaklingar áfram sem hingað til veðsett eigur sínar eins og samningar takast um. Kjarninn í þessari grein er sá að ekki verður gert fjárnám í fasteign þar sem ábyrgðarmaður býr ef krafa á rót sína að rekja til ábyrgðarloforðs. Í núgildandi aðfararlögum, nr. 90/1989, er víða að finna ákvæði sama efnis, þ.e. að tiltekin verðmæti skuli undanþegin aðför, m.a. í VI. kafla. Þar kemur m.a. fram í 43. gr. að ekki skuli gert fjárnám í hlutum sem nauðsynlegir eru til að halda látlaust heimili.

Um 10. gr.


    Hér er skýrt kveðið á um að kröfuhafi eigi ekki að geta fengið kröfu sína tvígreidda vegna tilvistar ábyrgðarmanns. Hér er skírskotað til þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað annars staðar að kröfuhafar geta keypt sér greiðslufallstryggingu vegna hugsanlegra vanefnda aðalskuldara.
    Ábyrgð á því að kröfu sé lýst í bú þrotamanns er alfarið á herðum kröfuhafa og hann ber hallann af því vanræki hann að lýsa kröfu sinni í búið.
    Geri kröfuhafi samning við aðalskuldara um að hann greiði aðeins hluta kröfu hefur slíkur samningur sams konar áhrif gagnvart ábyrgðarmanni. Ábyrgðarmaður ábyrgist aðeins skuld aðalskuldara eins og hún er hverju sinni gagnvart kröfuhafa þannig að ábyrgðarmaður verður ekki sóttur sérstaklega vegna greiðslna sem felldar eru niður í samningi kröfuhafa og aðalskuldara.

Um 11. gr.


    Ljóst er að ábyrgðarmaður getur aldrei orðið ábyrgur hafi aðalskuldari aldrei orðið skuldbundinn samkvæmt samningnum. Sem dæmi um slíkt má nefna að geti aðalskuldari ekki skuldbundið sjálfan sig vegna lögræðisskorts verður ábyrgðarmaður ekki bundinn við efndir samningsins. Með öðrum orðum felst í yfirlýsingu ábyrgðarmanns að hann ábyrgist efndir aðalskuldara gagnvart kröfuhafa en ekki gildi samningsins sjálfs.
    Ef kröfuhafi samþykkir einhliða breytingar á öðrum tryggingaráðstöfunum sem gera stöðu ábyrgðarmanns verri en ella er hann ekki lengur bundinn af ábyrgðarsamningi. Við skýringu á þessu ákvæði verður þó að hafa til hliðsjónar reglur kröfuréttarins um brostnar forsendur.
    Veiti kröfuhafi aðalskuldara einhliða greiðslufrest á gjalddaga og hann reynist ógjaldfær þegar kemur að nýjum gjalddaga er ábyrgðarmaður ekki bundinn af ábyrgðarsamningi vegna þeirrar greiðslu nema kröfuhafi geti sýnt fram á að gjaldfresturinn hafi ekki haft áhrif á greiðslugetu aðalskuldara á upphaflegum gjalddaga.

Um 12. og 13. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa að öðru leyti en því að reglugerðarheimild viðskiptaráðherra nær aðeins til setningar nánari ákvæða og reglna að því er varðar I. og II. kafla laganna. Heimildin nær ekki til setningar reglna eða nánari ákvæða að því er varðar aðra kafla.