Ferill 250. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000-2001.
Þskj. 275  —  250. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um leiðir til að stemma stigu við útbreiðslu spilafíknar.

Flm.: Ögmundur Jónasson, Drífa Hjartardóttir, Gísli S. Einarsson,


Hjálmar Árnason, Sverrir Hermannsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd með fulltrúum allra þingflokka til að leita leiða til að stemma stigu við útbreiðslu spilafíknar.

Greinargerð.


    Ljóst er að um leið og spilasalir hafa verið opnaðir víðs vegar um land, alls kyns getraunaleikir sem gefa von um háar peningaupphæðir í vinning hafa orðið algengari og spilakassar leyfðir til fjáröflunar fyrir ýmis samtök hefur komið í ljós að margir ánetjast þeirri spennu sem leikjum af þessu tagi fylgir og verða henni háðir. Þannig hafa margir hætt aleigu sinni og afkomu fjölskyldna sinna í von um skjótfenginn gróða. Nú munu vera um 900 spilakassar á liðlega 370 stöðum á landinu.
    Spilafíkn og ásókn í fjárhættuspil fer ekki í manngreinarálit og spyr ekki um stétt eða stöðu þótt ljóst sé að margir sækja í spilakassa og getraunaleiki með þá hugmynd að leiðarljósi að reyna að bæta lélega fjárhagsstöðu sína. Auk þess er fullyrt að þeir sem hafa þörf fyrir að flýja raunveruleikann af einhverjum ástæðum sæki ekki síður í fjárhættuspil en vímuefni og að misnotkun áfengis og vímuefna og ásókn í fjárhættuspil af ýmsum toga fari oft saman.
    Samkvæmt upplýsingum sem fram komu á síðasta ári má ætla að um 12 þúsund Íslendingar eigi nú við sjúklega spilafíkn að stríða. Í þeim hópi má ætla að séu um 4–5 þúsund ungmenni á aldrinum 16–20 ára. Einnig liggja fyrir upplýsingar um að sífellt fleiri sjúklingar sem koma til meðferðar vegna áfengissýki eigi einnig við spilafíkn að stríða.
    Á undanförnum þingum hafa verið lögð fram ýmis þingmál sem tengjast þessu alvarlega þjóðfélagsmeini, spilafíkn og fjárhættuspilum. Má þar m.a. nefna frumvarp til laga um að banna spilakassa. Þessi þingmál hafa ekki hlotið afgreiðslu. Nú er leitað nýrra leiða til að stemma stigu við þessu alvarlega og vaxandi þjóðfélagsmeini. Um þær leiðir verður að nást almenn samstaða. Þess vegna er lagt til að Alþingi skipi nú þegar nefnd með fulltrúum allra þingflokka og feli henni að afla greinargóðra upplýsinga um útbreiðslu spilafíknar meðal Íslendinga og kanna umfang þeirra eigna og fjármuna sem viðkomandi hafa fórnað. Þá skal nefndinni falið að finna úrræði til að leysa vanda einstaklinga og fjölskyldna sem búa við þennan alvarlega sjúkdóm og leita leiða til að hefta útbreiðslu hans.