Ferill 324. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 409  —  324. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um Útflutningsráð Íslands, nr. 114/1990, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða í lögunum orðast svo:
    Verði ekki annað ákveðið með lögum fellur markaðsgjald skv. 1. tölul. 3. gr. laga þessara niður frá og með 1. janúar 2003, þó þannig að álagning gjaldsins fari fram árið 2003 vegna gjaldstofns ársins 2002.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samkvæmt bráðabirgðaákvæði við lög um Útflutningsráð Íslands, nr. 114/1990, bar að endurskoða lögin á árinu 1998 og var kveðið á um það að ella félli markaðsgjaldið, helsti tekjustofn ráðsins, niður í árslok 1998. Með lögum nr. 137/1998, um breyting á lögum um Útflutningsráð Íslands, með síðari breytingum, var kveðið á um ýmsar breytingar í starfi ráðsins, í ljósi niðurstöðu ráðherraskipaðrar nefndar um starfsemi Útflutningsráðs Íslands. Í lögunum var hins vegar að finna nýtt ákvæði til bráðabirgða sem kvað á um að markaðsgjaldið, eins og því var breytt með lögunum, félli niður í ársbyrjun 2001 nema annað væri ákveðið með lögum. Í frumvarpi því sem hér er lagt fram er lagt til að gjaldið verði framlengt óbreytt um tvö ár til viðbótar.
    Starfsemi Útflutningsráðs Íslands hefur verið afar mikilvæg fyrir útflutning vöru og þjónustu. Þær breytingar sem gerðar voru á starfi ráðsins með lagabreytingunni árið 1998 hafa styrkt starfsemi ráðsins enn frekar. Fækkað var í stjórn ráðsins en jafnframt komið á fót samráðsnefnd um starfsemi ráðsins þar sem fulltrúar allra hagsmunaaðila hafa átt færi á að koma að stjórn þess. Samstarf Útflutningsráðs og viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins hefur jafnframt aukist. Þá var með lagabreytingunni árið 1998 kveðið á um nánara samstarf Útflutningsráðs og Fjárfestingastofu og sérstakur tekjustofn markaður til sameiginlegra verkefna á þessu sviði. Að síðustu var helsta tekjustofni ráðsins, markaðsgjaldinu, breytt á þann veg að hætt var að leggja það á virðisaukaskattsskylda veltu en þess í stað er gjaldið tengt tryggingagjaldsstofni og innheimt með tryggingagjaldi.
    Þegar allt er virt hafa þær breytingar sem gerðar voru á skipulagi Útflutningsráðs árið 1998 skilað árangri. Samstaða er um mikilvægi þess starfs sem ráðið sinnir. Almenn sátt er nú um gjaldtökuna. Gjaldtaka af þessum toga er hins vegar háð reglulegu endurmati. Er því lagt til að gjaldið verði framlengt óbreytt um önnur tvö ár.
    Að síðustu er rétt að minna á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá maí 1999 er lýst því markmiði að áfram verði unnið að markaðssókn fyrir íslenskar vörur og þjónustu á erlendum mörkuðum og að efnt verði til samstarfs við erlend fyrirtæki og þjóðir og hvatt til fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi. Þá er kveðið á um að starfsemi þeirra opinberu aðila, sem sinna alþjóðlegu kynningar- og markaðsstarfi fyrir íslenskt atvinnulíf, verði einnig sameinuð eða samræmd í þeim tilgangi að bæta þjónustu og auka skilvirkni. Mikilvægt er að eðlilegt ráðrúm skapist til samráðs milli ráðuneyta og stofnana á þessum grunni, án þess að skapa óvissu um framtíðarfjármögnun Útflutningsráðs.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um Útflutningsráð Íslands,
nr. 114/1990, með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins er að framlengja bráðabirgðaákvæði laga um Útflutningsráð Íslands, nr. 114/1990, til 1. janúar 2003. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.