Ferill 345. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 484  —  345. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um tóbaksvarnir, nr. 74/1984, sbr. lög nr. 101/1996.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Markmið laga þessara er að draga úr heilsutjóni og dauðsföllum af völdum tóbaks með því að minnka tóbaksneyslu og vernda fólk fyrir áhrifum tóbaksreyks.
    Virða skal rétt hvers manns til að þurfa ekki að anda að sér lofti sem er mengað tóbaksreyk af völdum annarra.
    Þeir sem bera ábyrgð á barni skulu stuðla að því að það njóti réttar skv. 2. mgr., einnig þar sem reykingar eru ekki bannaðar skv. III. kafla þessara laga.

2. gr.

    2. gr. laganna orðast svo:
    Með tóbaki er í lögum þessum átt við tóbaksjurtir (nicotiana) og allan varning unninn að öllu eða einhverju leyti úr þeim til neyslu, svo sem sígarettur, vindla, reyktóbak, neftóbak og munntóbak.
    Með reykfærum er í lögum þessum átt við áhöld og búnað tengdan tóbaksreykingum, svo sem sígarettupappír, reykjarpípur og tæki til að vefja sígarettur, svo og annan slíkan varning.
    Með munntóbaki er í lögum þessum átt við allar vörur, unnar að öllu eða einhverju leyti úr tóbaki til töku í munn, að undanskildum þeim sem eru ætlaðar til reykinga.
    Með skrotóbaki er í lögum þessum átt við munntóbak í bitum eða ræmum, einkum ætlað til að tyggja.
    Með neftóbaki er í lögum þessum átt við duft eða mylsnu, gerða að öllu eða einhverju leyti úr tóbaki til töku í nef.

3. gr.

    3. gr. laganna orðast svo:
    Lög þessi gilda ekki um tóbak sem notað er sem lyf samkvæmt lyfjalögum eða sem eiturefni samkvæmt lögum um eiturefni og hættuleg efni.

4. gr.

    3. tölul. 2. mgr. 5. gr. laganna orðast svo: Að efna og hvetja til átaks í tóbaksvörnum og leitast við að samræma tóbaksvarnir í landinu.

5. gr.

    Á eftir 3. mgr. 6. gr. laganna kemur ný málsgrein og orðast svo:
    Sá sem framleiðir, flytur inn eða selur tóbak má ekki án samþykkis heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra gefa með orðum eða táknum sínar eigin upplýsingar á umbúðum vörunnar um heilsufarsleg áhrif af neyslu hennar.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum ,,þar á meðal“ í 1. tölul. 3. mgr. komi orðið: vörukynningar.
     b.      3. tölul. 3. mgr. orðast svo: hvers konar umfjöllun í fjölmiðlum um einstakar vörutegundir til annars en að vara sérstaklega við skaðsemi þeirra.
     c.      Við bætast þrjár nýjar málsgreinar sem orðast þannig:
                  Óheimilt er að setja á markað hér á landi tóbak undir vörumerkjum sem eru þekkt sem eða notuð sem merki fyrir aðra vöru eða þjónustu.
                  Hvers kyns framlög til viðburða eða starfsemi sem miðar að því eða hafa þau beinu eða óbeinu áhrif að kynna tóbak eru bönnuð.
                  Tóbaki skal komið þannig fyrir á útsölustöðum að það sé ekki sýnilegt viðskiptavinum.


7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna ,,neftóbak og munntóbak“ í 5. mgr. koma orðin: neftóbak og allt munntóbak.
     b.      Við bætast fjórar nýjar málsgreinar sem orðast svo:
                  Þeir einir sem orðnir eru 18 ára mega selja tóbak. Heilbrigðisnefnd á viðkomandi eftirlitssvæði getur veitt tímabundna undanþágu frá þessu ákvæði um aldurstakmark. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um undanþágur um aldurstakmark.
                  Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra ákveður í reglugerð, að höfðu samráði við tóbaksvarnanefnd og í samræmi við gildandi tilskipanir Evrópusambandsins, hver skuli vera hæstu leyfileg mörk skaðlegra efna í tóbaki og tóbaksreyk og hvernig háttað skuli mælingum og eftirliti með því að þessi mörk séu virt.
                  Til þess að selja tóbak í smásölu þarf sérstakt leyfi heilbrigðisnefndar á viðkomandi eftirlitssvæði. Skal leyfi veitt til fimm ára í senn og verður einungis veitt einstaklingum eða lögaðilum sem fullnægja almennum skilyrðum laga um verslunaratvinnu. Heimilt er sveitarfélögum að innheimta gjald fyrir leyfi og eftirlit með starfsemi leyfishafa að fenginni umsögn heilbrigðisnefnda. Um gjaldtöku fer skv. 3. mgr. 12. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra er heimilt í samráði við umhverfisráðherra að setja í reglugerð nánari ákvæði um leyfisveitingu samkvæmt grein þessari.
                  Þeim sem selur tóbak í heildsölu er óheimilt að selja eða afhenda tóbak öðrum en þeim sem hafa leyfi til að selja tóbak í smásölu samkvæmt lögum þessum.

8. gr.

    9. gr. laganna orðast svo:
    Tóbaksreykingar eru óheimilar í þjónusturými stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka, svo sem á veitinga- og skemmtistöðum og þar sem menningar- og félagsstarfsemi fer fram, þar með talið íþrótta- og tómstundastarf.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má leyfa reykingar á veitinga- og skemmtistöðum á afmörkuðum svæðum, en tryggja skal fullnægjandi loftræstingu, sbr. 4. mgr. Meiri hluti veitingarýmis skal þó ávallt vera reyklaus og tryggja skal að aðgangur að því liggi ekki um reykingasvæði.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má leyfa reykingar í tilteknum gistiherbergjum á hótelum og gistiheimilum. Í gistiskálum má hvorki leyfa reykingar í herbergjum né svefnskálum.
    Þar sem reykingar eru leyfðar samkvæmt grein þessari skal séð fyrir loftræstingu sem fullnægir kröfum heilbrigðiseftirlits og þess gætt að reykingarnar mengi ekki andrúmsloftið þar sem þær eru ekki leyfðar.
    Stjórnendur veitingastaða skulu af fremsta megni leitast við að vernda starfsfólk gegn tóbaksreyk.
    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra er heimilt að setja nánari reglur um reykingar á veitinga- og gististöðum í samráði við samgönguráðherra og umhverfisráðherra, þar á meðal um flokkun þessara staða með tilliti til reykinga og loftræstingar.
    Tóbaksreykingar eru bannaðar í öllu húsrými í sameign fjöleignarhúsa.
    Ráðherra skal í samráði við menntamálaráðherra og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands setja reglur um takmarkanir á tóbaksneyslu utan húss á íþróttasvæðum.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „grunnskólum“ í 1. tölul. 1. mgr. kemur: vinnuskólum sveitarfélaga.
     b.      Við 1. mgr. bætist nýr töluliður sem orðast svo: Í fangelsum. Leyfa má þó reykingar í fangaklefum.
     c.      Við bætist ný málsgrein sem verður 2. mgr. og orðast svo:
                  Öll önnur tóbaksneysla er jafnframt bönnuð í grunnskólum, vinnuskólum sveitarfélaga, leikskólum, hvers konar dagvistum barna og húsakynnum sem eru fyrst og fremst ætluð til félags-, íþrótta- og tómstundastarfa ungmenna. Sama gildir um allar samkomur sem einkum eru ætlaðar ungmennum.
     d.      2. mgr. verður 3. mgr. og síðari málsliður hennar fellur brott.

10. gr.

    Í stað orðanna ,,1. mgr. 17. gr.“ í 11. gr. laganna kemur: 1. mgr. 18. gr.

11. gr.

    12. gr. laganna orðast svo:
    Með þeirri undantekningu sem leiða kann af 2. og 3. mgr. 9. gr., sbr. þó 5. mgr. sömu greinar, skal hver maður eiga rétt á reyklausu andrúmslofti innan dyra á vinnustað sínum og vinnuveitandi sjá til þess að hann njóti þess réttar.
    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skal setja reglur í samráði við félagsmálaráðherra og samgönguráðherra um takmarkanir á reykingum á vinnustöðum, þar á meðal í skipum, í samræmi við 1. mgr. og með tilliti til 1. gr. laga þessara.

12. gr.

    2. og 3. mgr. 13. gr. laganna falla brott.

13. gr.

    Inngangsmálsliður 1. mgr. 14. gr. laganna orðast svo: Menntamálaráðuneytið skal í samráði við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og tóbaksvarnanefnd sjá til þess að fram fari reglubundin fræðsla í því skyni að draga úr tóbaksneyslu.

14. gr.

    1. mgr. 15. gr. orðast svo:
    Skylt er að verja a.m.k. 0,9% af brúttósölu tóbaks til tóbaksvarna.

15. gr.

    Í stað 2. mgr. 17. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar og orðast svo:
    Nú er brotið gegn ákvæðum II. kafla og ekki farið að fyrirmælum heilbrigðisnefndar og getur nefndin þá beitt sömu úrræðum og talin eru upp í 27. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum.
    Brjóti leyfishafi skv. 8. gr. gegn ákvæðum þeirrar greinar getur heilbrigðisnefnd á viðkomandi eftirlitssvæði að undangenginni áminningu svipt hann leyfinu. Við ítrekað brot ber heilbrigðisnefnd að svipta hann leyfinu og eins ef brot er stórfellt.
    Rísi ágreiningur um ákvarðanir heilbrigðisnefndar er heimilt að vísa málinu til úrskurðarnefndar sem starfar skv. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum.

16. gr.

    19. gr. laganna orðast svo:
    Brot gegn ákvæðum 6. og 7. gr. eða reglum sem settar eru á grundvelli þessara laga og tengjast þeim greinum varða sektum en fangelsi allt að tveimur árum séu sakir miklar eða brot ítrekað.
    Brot gegn ákvæðum 8. gr. eða reglum sem settar eru á grundvelli þessara laga og tengjast þeirri grein varða auk leyfissviptingar skv. 17. gr. sektum.
    Um tilraun til brots eða hlutdeild gilda ákvæði almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

17. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2001.
    Ákvæði 9. mgr. 8. gr. laganna um leyfisveitingar á tóbaki í smásölu og eftirlit með henni skal endurskoða innan fimm ára frá því að lög þessi öðlast gildi, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 27/1999, um opinberar eftirlitsreglur.
    Þegar lög þessi hafa öðlast gildi skal fella meginmál þeirra inn í lög nr. 74/1984, um tóbaksvarnir, sbr. breytingu á þeim lögum, nr. 101/1996, og gefa þau út svo breytt með samfelldri hefðbundinni greinatölu.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Heilbrigðisráðherra, Ingibjörg Pálmadóttir, fól tóbaksvarnanefnd að gera tillögur að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tóbaksvarnir. Í ljósi reynslunnar af síðustu breytingum á lögunum, aukinnar þekkingar á skaðsemi reykinga og harðari afstöðu almennings til þessa vágests, bæði hér á landi og í alþjóðasamfélaginu, er tímabært að leita frekari leiða til að draga úr reykingum. Íslendingar hafa verið í fararbroddi í tóbaksvörnum meðal þjóða heims og er það ætlun ráðherra og tóbaksvarnanefndar að svo verði áfram.
    Allmiklar breytingar voru gerðar á lögum um tóbaksvarnir, nr. 74/1984, með lögum nr. 101/1996, í því skyni að efla tóbaksvarnir í landinu. Í ljós hefur komið að enn þarf að bæta þessa löggjöf með nýjum og fyllri ákvæðum, einkum varðandi markaðssetningu og sölu tóbaks og vernd gegn tóbaksmengun andrúmslofts. Frumvarp þetta er byggt á tillögum nefndarinnar og unnið í samráði við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið. Í nefndinni eiga sæti læknarnir Þorsteinn Njálsson, sem er formaður hennar, Helgi Guðbergsson og Sveinn Magnússon.
    Alkunna er að tóbaksneysla veldur miklum og margvíslegum heilsuspjöllum. Okkur er því skylt að gera ráðstafanir til að hefta útbreiðslu þessa vágests í nútímasamfélagi og berum ábyrgð á því gagnvart komandi kynslóðum. Hafa ber í huga að þeir sem deyja í dag af völdum reykinga eru reykingamenn gærdagsins. Þeir sem deyja á morgun eru þeir sem reykja og byrja að reykja í dag.
    Undir forustu Gro Harlem Brundtland, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) sett baráttu gegn tóbaki og reykingum á oddinn og gefið þeim forgang umfram hefðbundna smitsjúkdóma sem stofnunin hefur barist við árum og áratugum saman. Reykingar valda heilsutjóni og dauðsföllum sem hægt er að koma í veg fyrir eða draga stórlega úr með því að fá börn og unglinga til að byrja ekki að reykja og reykingamenn til að hætta reykingum eða draga úr þeim. Um þessar mundir undirbýr Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) setningu reglna til að draga úr tóbaksnotkun og samhæfa aðgerðir á alþjóðavísu. Alþjóðabankinn hefur ítrekað bent á að reykingar skaði ekki bara einstaklingana heldur einnig efnahag þjóðfélaga eins og ríkja Austur-Evrópu og þriðja heimsins þar sem obbinn af vinnandi fólki reykir mikið og er líklegt til að deyja langt fyrir aldur fram þess vegna.
    Samkvæmt upplýsingum frá Hjartavernd deyja um 370 manns á ári á Íslandi af völdum reykinga eða einn Íslendingur á dag, alla daga ársins. Annað efni sem gæti hugsanlega valdið dauðsfalli yrði tekið af markaði eins og dæmin sanna. Fimmta hvert dauðsfall á Íslandi er af völdum reykinga. Þriðja hvert dauðsfall hjá fólki í blóma lífsins á Íslandi, 35–69 ára, má rekja til reykinga.
    Heilbrigðisáætlun til ársins 2010 hefur sett það meginmarkmið að ná hlutfalli daglegra reykinga meðal fullorðinna niður fyrir 20%. Til að ná þessu markmiði verður að taka til hendinni. Ná þarf til unglinga sem er helsti áhættuhópurinn, fá þá sem reykja til að draga úr reykingum og hætta helst þeim lífshættulega ávana. Árangur fólks, sem reynir að hætta að reykja, er ekki ávallt góður og margir þurfa aðstoð og hvatningu. Fækka þarf svæðum þar sem reykingar eru leyfðar því að rannsóknir sýna að með því að banna og takmarka reykingar sem víðast dregur úr reykingum og reykingamönnum veitist auðveldara að hætta.
    Skaðsemi reykinga er óumdeilanleg og hið sama á við óbeinar reykingar. Sé það val reykingamanns að reykja er það að sama skapi réttur þess sem ekki reykir að þurfa ekki að anda að sér tóbaksreyk reykingamanns. Börn eiga skilyrðislausan rétt á reyklausu umhverfi, bæði á heimilum sínum og annars staðar. Allir eru sammála um að vernda eigi börn fyrir tóbaksreyk og grípa verður til úrræða sem nauðsynleg eru í því skyni.
    Eftir að Bandaríkjamenn fóru að sækja skaðabótamál á hendur tóbaksfyrirtækjum hefur tekist að fá upplýsingar um aðferðir við framleiðslu tóbaks. Þær liggja fyrir hjá tóbaksvarnanefnd og eru fróðleg lesning. Vitað er að í tóbaki og tóbaksreyk er mikill fjöldi af eitruðum, hættulegum og krabbameinsvaldandi efnum sem nú væru ekki leyfð í nokkurri annarri vöru sem ætluð væri til innöndunar eða inntöku.
    Tóbaksiðnaðurinn hefur samkvæmt þeim upplýsingum, sem framleiðendurnir hafa sjálfir þurft að afhenda dómstólum í Bandaríkjunum, reynst vera þróaður efnaiðnaður. Efnum er bætt í tóbakið og önnur efni tekin út til að ná fram ,,réttum“ áhrifum. Við framleiðsluna er bætt í tóbakið aukaefnum sem draga úr ertingu í öndunarvegum, minnka ertingu af óbeinum reykingum, víkka út öndunarvegi, bæta bragð og tryggja fullkomið frásog á nikótíni út í blóðrás og inn í heila (yfir heilablóðþröskuld). Síðast en ekki síst er bætt í tóbakið efnum sem er sérstaklega ætlað að festa nýja og unga reykingamenn betur og fyrr við ávanann. Ammóníak er ,,bætiefni“ í tóbaki, þ.m.t. íslenska neftóbakinu, en er þess utan aðeins leyft sem hreinsiefni.
    Tóbaksframleiðendur hafa reynst mjög færir í áróðursstríðinu og eru iðulega skrefi á undan þeim sem sinna tóbaksvörnum. Iðnaðurinn hefur fundið rannsóknum, sem sýna fram á skaðsemi tóbaks, allt til foráttu en blæs á sama tíma út þýðingu fáeinna rannsókna sem draga skaðsemi þess í efa.
    Þeirrar tilhneigingar hefur gætt að taka varnir gegn ólöglegum fíkniefnum fram yfir tóbaksforvarnir. Vissulega eru vandamál af völdum þeirra efna stóralvarleg en á hitt ber að líta að útbreiðsla tóbaks er margfalt meiri og tóbaksvandamálið því síst veigaminna. Auk þess sýna rannsóknir að reykingar eru undanfari fíkniefnaneyslu og oft áfengisneyslu líka. Það heyrir raunar til algjörra undantekninga að þeir sem leita sér aðstoðar vegna áfengis- eða vímuefnaneyslu séu ekki reykingamenn. Með því að taka á tóbaksdraugnum strax í skólum er hægt að draga úr líkum á öðrum vandamálum sem iðulega koma í kjölfar tóbaksreykinga.
    Í frumvarpinu er lagt til að meira fé verði lagt til forvarna. Tóbaksvarnanefnd hefur þegar varið tugum milljóna króna í fræðsluefni handa skólum en telur að gera verði betur til að vernda kynslóðir framtíðarinnar. Hingað til hefur ekki verið hægt að tryggja að öll grunnskólabörn fái tóbaksvarnafræðslu þótt lög geri ráð fyrir að svo sé. Með auknu framlagi til forvarna og frekari samvinnu við sveitarstjórnir er unnt að leysa þann vanda.
    Rannsóknir staðfesta að það er fjárhagslega mjög hagkvæmt að fjárfesta í tóbaksvörnum, koma í veg fyrir að menn byrji að reykja, fá menn til að draga úr reykingum og sannfæra þá um að þeim beri að hætta að reykja. Algjört forgangsverkefni er að koma í veg fyrir að börn og unglingar fari að reykja því að rannsóknir sýna að átta af hverjum tíu reykingamönnum byrjuðu að reykja fyrir 18 ára aldur. Það er einnig afar mikilvægt að geta veitt reykingamönnum stuðning við að hætta að reykja. Um 80% þeirra vilja hætta en mörgum reynist það erfitt.
    Skoðum að lokum nokkrar staðreyndir:
          Helmings líkur eru á því að 35 ára karl sem hefur reykt í a.m.k. tíu ár látist á aldrinum 40–69 ára af völdum reykinga.
          Konur sem reykja eins og karlar deyja úr hjartaáföllum eins og karlar.
          Það eru 70–80% líkur á því að einstaklingur sem fær hjartaáfall á aldrinum 30–39 ára sé reykingamaður.
          Helmingur þeirra sem deyja á miðjum aldri deyr af völdum tóbaks og glatar að jafnaði 20 árum ævinnar.
          Reykingamaður á aldrinum 30–39 ára er með 6,3-faldar líkur á hjartaáfalli, 40–49 ára með 4,9-faldar líkur og 50–59 ára með 3,1-faldar líkur.


Nokkur helstu nýmæli frumvarpsins.

 —    Réttur fólks til reyklauss andrúmslofts er viðurkenndur og sérstaklega kveðið á um rétt barna (1. gr.).
          Óheimilt er að setja hér á markað tóbak undir vörumerkjum annarar vöru eða þjónustu (6. gr.).
          Bönnuð er ,,kostun“ viðburða eða starfsemi í því skyni eða með þeim áhrifum að kynna tóbak (6. gr.)
          Uppstilling á tóbaki á sölustöðum er bönnuð (6. gr.).
          Yngri en 18 ára mega ekki selja tóbak (7. gr.).
          Ákveðið skal hámark skaðlegra efna í tóbaki og tóbaksreyk (7. gr.).
          Sérstakt leyfi þarf til að selja tóbak í smásölu (7. gr.).
          Sveitarfélögum er heimilt að innheimta gjald vegna leyfisveitinga og eftirlits (7. gr).
          Heimildir til að leyfa reykingar á veitingastöðum eru þrengdar (8. gr.).
          Hótel og aðrir gististaðir skulu vera með reyklaus gistiherbergi (8. gr.).
          Skýrt er kveðið á um bann við reykingum í öllum húsakynnum sem almenningur hefur aðgang að vegna þátttöku í menningar- og félagsstarfsemi (8. gr. ).
          Reykingar eru bannaðar í sameignarhúsrými í fjölbýlishúsum (8. gr.).
          Setja skal reglur um takmarkanir á reykingum utan húss á íþróttasvæðum (8. gr.).
          Til viðbótar algeru reykingabanni er öll önnur tóbaksneysla bönnuð í grunnskólum, leikskólum og í húsakynnum og á samkomum sem einkum eru fyrir ungmenni (9. gr.).
          Staðfest er skylda vinnuveitenda til að sjá til þess að starfsfólk njóti réttar til að vinna í reyklausu umhverfi (11. gr.).
          Fjárveitingar til tóbaksvarna eru auknar (14. gr.).
          Heimilt er að svipta leyfishafa leyfi gerist hann brotlegur (15. gr.).
          Refsiviðurlög við brotum á ákvæðum laganna eru samræmd og viðurlög þyngd (16. gr.).

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Efnislega er 1. mgr. óbreytt frá 1. gr. gildandi laga. Með breyttu orðalagi er einkum vísað til þeirrar ógnvænlegu staðreyndar að tóbaksneysla veldur á hverju ári hundruðum dauðsfalla hér á landi svo sem rannsóknir Hjartaverndar hafa nú rækilega staðfest.
    Ákvæði 2. og 3. mgr. eru nýmæli. Réttur til hreins og ómengaðs andrúmslofts er meðal mikilvægustu og jafnframt sjálfsögðustu réttinda hvers manns. Hvar sem reykt er mengast loftið með þeim þúsundum efnasambanda sem eru í reyknum. Meðal þeirra eru fjölmörg eiturefni og hættuleg efni, bæði lofttegundir og fastar efnisagnir, þar á meðal ertandi efni og krabbameinsvaldar. Ákvæði 2. mgr. er eðlileg afleiðing þessara staðreynda og ákvæði III. kafla laganna, um takmörkun á tóbaksreykingum, byggjast á því.
    Í 3. mgr. er lögð sú skylda á hvern þann sem ber ábyrgð á barni að forða því svo sem frekast er kostur frá óbeinum reykingum. Börn eru sérlega viðkvæm fyrir tóbaksreyk og margar rannsóknir hafa sýnt að þeim er öðrum fremur hætt við sjúkdómum og lasleika af völdum óbeinna reykinga. Með ákvæðinu er stefnt að því að bægja þessari áhættu frá þeim.
    Sambærilegt ákvæði er í sóttvarnalögum, nr. 19/1997. Þar segir í 7. gr.: ,,Það er almenn skylda að gjalda sem mesta varúð við smitsjúkdómum og gera sér allt far um að sýkja hvorki sjálfan sig né aðra, að svo miklu leyti sem framkvæmanlegt er.“ Í 3. mgr. er varnaðarskylda lögð sérstaklega á ábyrgðarmenn barna enda mest um vert að þeir séu börnunum skjól í þessu sem öðru. Mikilvægt er þó að menn finni almennt til slíkrar skyldu gagnvart börnum, sbr. sóttvarnalög. Síðasta setning greinarinnar (,,einnig þar sem“ o.s.frv.) vísar einkum til þess að forðast beri að vera með börn í reykingarýmum í veitingahúsum. Skylda ábyrgðarmanns samkvæmt meginákvæði greinarinnar nær þó til alls umhverfis barns, ekki síst heimilis þess og annarra dvalarstaða.
    Þess má geta að könnun Hagvangs í janúar 1992 sýndi að 83% þeirra sem afstöðu tóku töldu æskilegt að staðfesta með lögum rétt barna til reyklauss umhverfis. Ólíklegt er að hlutfallstala þeirra sem þá afstöðu taka hafi lækkað síðan. Fremur má búast við hinu gagnstæða.


Um 2. gr.

    Breytingin á 1. mgr. (innskotsorðin: að öllu eða einhverju leyti) er til samræmingar og staðfestir þann skilning sem lagður hefur verið í ákvæðið.
    Þá er lagt til að 2. mgr. 2. gr. verði felld niður. Um er að ræða ákvæði um að lögin gildi einnig um varning sem ætlaður er til neyslu með sama hætti og tóbak þótt hann innihaldi ekki tóbak. Í athugasemd um ákvæði þetta í frumvarpi til laga um tóbaksvarnir, sem samþykkt var sem lög nr. 74/1984, voru svokallaðar gervisígarettur teknar sem dæmi um slíkan varning. Ekki hefur reynt á þetta ákvæði. Eftirlitsstofnun EFTA hefur bent á að það kunni að brjóta gegn 11. gr. EES-samningsins um frjálst vöruflæði innan Evrópska efnahagssvæðisins. Því er þetta ákvæði fellt niður.
    2. mgr. samkvæmt frumvarpinu er samhljóða 3. gr. í lögunum. Flutningur þessa ákvæðis milli greina miðar að því að allar orðskýringar séu í 2. gr. laganna en ákvæði um gildissvið í 3. gr. þeirra.
    Í 3.–5. mgr. í frumvarpinu er skýrð merking orðanna munntóbak, skrotóbak og neftóbak. Reyklausu tóbaki, þ.e. tóbaki sem ekki er ætlast til að sé reykt, má einkum skipta í þrjá flokka, í fyrsta lagi tóbak í ,,föstu“ formi (bitum, ræmum) sem er ætlað til að tyggja eða láta liggja í munni (enska: chewing tobacco, sænska: tuggtobak), í öðru lagi rakt smámulið tóbak, ýmist laust eða í smápokum, ætlað til að setja í munn (moist snuff, fuktsnus) og í þriðja lagi mun þurrara tóbaksduft eða mylsna, ætlað fyrst og fremst til töku í nef (dry snuff, torrt snus). Yfirleitt hefur mismunandi bragðefnum verið bætt í tóbakið. Fyrri flokkarnir tveir falla undir munntóbak eins og það er skýrt í 4. mgr. en þriðji flokkurinn er neftóbak samkvæmt skýrgreiningu orðsins í 5. mgr. Raki í því er venjulega undir 15%.

Um 3. gr.

    3. gr. samkvæmt frumvarpinu er samhljóða 3. mgr. 2. gr. í lögunum.

Um 4. gr.

    Ein breyting verður á ákvæðum 5. gr. laganna um hlutverk tóbaksvarnanefndar.     
    Í 3. tölul. 2. mgr. 5. gr. laganna er það talið meðal hlutverka tóbaksvarnanefndar að,,hvetja aðra aðila til átaks í reykingavörnum og leitast við að samræma störf þeirra“. Reyndin er sú, eins og alkunna er, að tóbaksvarnanefnd hefur jafnframt staðið sjálf fyrir slíkum átaksverkefnum, m.a. á reyklausum dögum, oft í samvinnu við aðra. Hefur það gefist vel. Þykir rétt að staðfesta þá tilhögun og jafnframt, í samræmi við hlutverk nefndarinnar að öðru leyti, að tala um tóbaksvarnir í þessu sambandi og um samræmingu þeirra í landinu.

Um 5. gr.

    Við 6. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 4. mgr. Af henni leiðir að það er á valdi heilbrigðisráðherra hvaða upplýsingar um skaðleg áhrif tóbaksneyslu framleiðendur eða innflytjendur setja á umbúðir vöru sinnar. Hliðstætt ákvæði er í norsku tóbaksvarnalögunum. Tilgangur þess er að tryggja að slíkar upplýsingar séu trúverðugar.
    

Um 6. gr.

    Um a-lið.
    Breytingin á 1. tölul. 3. mgr. 7. gr. er af gefnu tilefni til þess að staðfesta að kynningar á tóbaki í formi vörukynninga, t.d. í verslunum og á veitinga- og skemmtistöðum, séu auglýsingar í merkingu laganna og því bannaðar.
    Um b-lið.
    Breytingin á 3. tölul. 3. mgr. 7. gr. snýst um það af hvaða toga umfjöllun um einstakar tegundir tóbaks þurfi að vera til þess að vera ekki metin sem auglýsing fyrir viðkomandi tegundir. Lagt er til að orðin ,,til annars en að vara sérstaklega við skaðsemi þeirra“ komi í stað orðanna ,,nema ljóst sé að hún miði beinlínis að því að koma á framfæri upplýsingum sem draga úr skaðsemi tóbaksneyslu“. Það orðalag verður að skýra með vísan til athugasemda í nefndaráliti heilbrigðis- og trygginganefndar 9. maí 1996 um frumvarp til laga um breytingar á lögum um tóbaksvarnir. Þar segir: ,,Ef kæmu á markað tóbakstegundir sem hefðu sannanlega minna af skaðlegum efnum en þær sem fyrir eru væri heimilt að fjalla um það í fjölmiðlum.“ Svo óljós og teygjanleg undanþága frá banni við að fjalla í fjölmiðlum um einstakar tóbaksvörutegundir getur leitt til réttaróvissu. Hún virðist einnig vera með öllu óþörf og jafnvel andstæð þeim sjónarmiðum sem nú eru almennt viðurkennd, að t.d. sígarettur sem sagðar hafa verið hættuminni en aðrar séu engu síður mjög varhugaverðar.
     Um c-lið.
    Við 7. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar sem verða 4.–6. mgr. Í 4. mgr. er kveðið á um að ekki megi markaðssetja tóbak undir vörumerkjum sem þekkt eru sem merki fyrir aðra vöru eða þjónustu eða þannig notuð. Ákvæði þetta, sem á sér hliðstæðu í norsku tóbaksvarnalögunum, er sett til þess að girða fyrir að orðspor slíkra vörumerkja, t.d. fyrir vinsælan fatnað, tískuvörur, snyrtivörur, drykkjarvörur eða ökutæki, sé notað til að koma tóbaki á framfæri.
    Í 5. mgr. er sett bann við hvers konar framlögum til viðburða eða starfsemi sem miða að því eða hafa þau áhrif, beint eða óbeint, að kynna tóbak. Dæmi um slíka viðburði og starfsemi eru íþróttamót og annars konar keppni, tónleikar og sýningar af ýmsum toga, myndbanda- og kvikmyndagerð, íþróttafélög, söfn og margs kyns stofnanir aðrar sem tóbaksframleiðendur hafa kappkostað að tengja vörumerki sín við eða styrkt með leynd í auglýsinga- og útbreiðsluskyni.
    Í 6. mgr. er kveðið á um að tóbaki skuli komið þannig fyrir á sölustöðum að það blasi ekki við viðskiptavinum. Þótt leyft sé að selja tóbak er ekki þar með sagt að nauðsynlegt sé eða jafnvel réttlætanlegt að láta það bera fyrir augu manna á sölustöðum, enda vitað um sölustaði sem hafa sett það ,,undir lás og slá“. Það að hafa vöru sýnilega á sölustað minnir á hana og hefur því tvímælalaust auglýsingargildi. Að því er varðar tóbak getur slík uppstilling komið illa við þá sem eru að hætta tóbaksneyslu og gefið börnum og unglingum í skyn að tóbak sé eðlileg og jafnvel sjálfsögð neysluvara.

Um 7. gr.

    Um a-lið.
    Borið hefur á þeim skilningi á 5. mgr. 8. gr. laganna að orðið ,,fínkornótt“ eigi við hvort tveggja, neftóbak og munntóbak. Ákvæðið var sett með lögum nr. 101/1996, um breytingar á lögum nr. 74/1984. Ljóst er af meðferð málsins á þingi að umræddur skilningur fær ekki staðist, heldur nær bannákvæði 5. mgr. 8. gr. til fínkornótts neftóbaks og alls munntóbaks, annars en skrotóbaks, enda væri sú undantekning marklaus ef bannið ætti einungis við ,,fínkornótt“ munntóbak því að skrotóbak er í bitum en ekki kornótt. Nægir að vísa til fyrrnefnds álits heilbrigðis- og trygginganefndar þar sem segir: ,,Loks er lagt til að gildistöku ákvæðis um bann við innflutningi, framleiðslu og sölu á munntóbaki og fínkornóttu neftóbaki verði frestað …“ Bannið tekur því til allra tegunda af tóbaksdufti sem ætlað er til töku í munn, án tillits til kornastærðar og þess hvort það er selt í lausu formi eða í smápokum (grisjupokum ). Breyting sú sem hér er lögð til á að taka af allan vafa um þetta. Eftir breytinguna orðast 5. mgr. 8. gr. ,,Bannað er að flytja inn, framleiða og selja fínkornótt neftóbak og allt munntóbak, að undanskildu skrotóbaki.“
    Um b-lið.
    Við 8. gr. laganna bætast fjórar nýjar málsgreinar sem verða 7.–10. mgr. Í 7. mgr. er kveðið á um að þeir einir megi selja tóbak sem orðnir eru 18 ára. Ekki má selja eða afhenda mönnum tóbak nema þeir hafi náð þeim aldri og eðlilegast er að sama aldursmark gildi um heimild til að hafa tóbak með höndum til að selja það öðrum. Ein af ástæðum þess hve banni við tóbakssölu til ungmenna hefur verið slælega framfylgt er að líkindum sú að afgreiðslumenn yngri en 18 ára treysti sér ekki til að neita jafnöldrum sínum um að fá keypt tóbak. Ákvæðinu er ætlað að setja undir þann leka og þó ekki síður að forða ungmennum frá því að vera settir til að selja heilsuspillandi og ávanabindandi efni. Skv. 2. málsl. 7. mgr. er þó heimilt að veita tímabundna undanþágu frá ákvæðinu varðandi aldurstakmarkið þar sem erfitt getur verið að manna sölustaði.
    Vakin er athygli á að skv. 58. gr. barnaverndarlaga frá 1992 er börnum innan 18 ára aldurs óheimilt að starfa á stöðum sem hafa leyfi til áfengisveitinga nema það sé liður í viðurkenndu iðnnámi.
    Í 8. mgr. 8. gr. er ákvæði um hámark skaðlegra efna í tóbaki og tóbaksreyk. Með tilskipun nr. 90/239/EB var kveðið upp úr um það að sígarettur sem væru markaðssettar í aðildarríkjum EES eftir 31. desember 1992 mættu ekki gefa meiri tjöru (í aðalreyk) en 15 mg hver, og ekki meira en 12 mg eftir 31. desember 1997. Með ákvæðinu er verið að hrinda í framkvæmd tilskipun EB/90/239, en þar var kveðið upp úr um það að sígarettur sem væru markaðssettar í aðildarríkjum EES eftir 31. desember 1992 mættu ekki gefa meiri tjöru (í aðalreyk) en 15 mg hver, og ekki meira en 12 mg eftir 31. desember 1997. Með ákvæði þessu er verið að styrkja lagagrundvöll fyrir reglugerð, en farið hefur verið eftir þessu hér á landi, sbr. reglur nr. 529/1996, sbr. breytingu nr. 206/1997. Í 8. mgr. er ráðherra veitt almenn heimild til að ákveða í reglugerð hver skuli vera hæstu leyfileg mörk skaðlegra efna í tóbaki og tóbaksreyk. Að svo miklu leyti sem ráðherra nýtir þessa heimild ákveður hann hvernig mælingum og eftirliti skuli háttað.
    Í 9. mgr. er lagt til að sérstakt leyfi heilbrigðisnefnda þurfi til að selja tóbak í smásölu. Full ástæða er til að kveða á um það með lögum hverjir megi selja tóbak og binda smásölu þess við sérstakt leyfi.
    Skráning sú sem leiðir af leyfisskyldu ætti að auðvelda eftirlit með sölustöðum tóbaks og yfirsýn yfir söluna og vænta má að leyfisskylda verði til þess að sölustöðum fækki og við það dragi úr heildarsölu tóbaks.
    Heilbrigðisnefndir veita leyfi til fimm ára í senn að fullnægðum almennum skilyrðum laga um verslunaratvinnu. Sveitarfélögum er heimilað að fenginni umsögn heilbrigðisnefnda að innheimta gjald fyrir leyfin og vegna eftirlits. Heimilað er að setja reglugerð með nánari ákvæðum um leyfisveitingar.
    Enda þótt bannað sé að selja börnum og unglingum tóbak er það vel þekkt að unglingar eiga ekki í neinum erfiðleikum með að fá tóbak keypt. Brýnt er að leita leiða til að hindra þá sölu eða draga sem mest úr henni. Í því sambandi er einkum mikilvægt að fá heimild til leyfissviptingar eins og kveðið er á um í 15. gr. þessa frumvarps. Það ætti að veita seljendum aukið aðhald um að fylgja ákvæðum laganna.
    Samkvæmt könnun Hagvangs í maí 1992 voru 85% þeirra sem afstöðu tóku hlynnt þeirri hugmynd að binda tóbakssölu við sérstök leyfi sem sölustaðir gætu misst fyrir að selja börnum tóbak.
    Þess má geta að samkvæmt skýrslu bandarískra heilbrigðisyfirvalda um tóbaksvarnalöggjöf einstakra ríkja í Bandaríkjunum (State Laws on Tobacco Control) var í 30 þessara ríkja krafist leyfis til að selja tóbak í smásölu („over-the-counter“) í árslok 1998. Í öllum nema fjórum er tekið leyfisgjald. Í meira en helmingi varða endurtekin brot gegn banni við að selja ungmennum tóbak leyfissviptingu.
    10. mgr. tengist ákvæðinu hér á undan og þarfnast ekki skýringa.

Um 8. gr.

    Í 9. gr. laganna er kveðið á um bann við reykingum í húsnæði þar sem almenningur leitar aðgangs vegna afgreiðslu eða þjónustu.
    Þær efnislegu breytingar sem gerðar eru á grein þessari miða að því að tryggja betur rétt manna til reyklauss andrúmslofts. Er það í samræmi við síaukna þekkingu á skaðsemi óbeinna reykinga, breytt viðhorf til þeirra hér á landi og þróun víða um lönd.
     Um 1. mgr.
    Auk þess sem hnykkt er, með lítið eitt breyttu orðalagi, á hinni víðtæku meginreglu í 1. mgr. 9. gr. gildandi laga um bann við reykingum í þjónusturými stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka þar sem almenningur sækir sér afgreiðslu eða þjónustu er hér kveðið á um reykingabann innan húss í þeim húsakynnum sem almenningur hefur aðgang að vegna þátttöku í menningar- og félagsstarfsemi, þar með talið á veitingahúsum. Sumt af þeirri starfsemi hefur verið á mörkunum að geta fallið undir hugtökin afgreiðsla eða þjónusta. Undir þann leka er nú sett. Fer þar með ekki milli mála að bannið nær m.a. til hvers kyns menningar-, íþrótta- og tómstundahúsa sem almenningur á kost á að sækja, svo og sýninga og safna, auk almennra funda og samkoma. Geta má þess að í félags- og menningarmiðstöðvum (félagsheimilum) aldraðra eru reykingar alls ekki leyfðar eða sæta þar mjög miklum takmörkunum hvort sem þessar miðstöðvar (heimili) eru á vegum sveitarfélaga eða félaga eldri borgara.
     Um 2. mgr.
    Með lögum nr. 74/1984 voru ,,veitinga- og skemmtistaðir“ sérstaklega undanþegnir reykingabanni á afgreiðslu- og þjónustustöðum (sjá hér á undan) að öðru leyti en því að þeir skyldu hafa ,,afmarkaðan fjölda“ veitingaborða þannig merktan að reykingar við þau væru bannaðar. Með lögum nr. 101/1996 var nánar kveðið á um skyldu til að hafa ,,reyklaus svæði“ á þeim veitingastöðum sem legðu megináherslu á kaffiveitingar og matsölu. Þeirri skyldu hefur almennt verið slælega framfylgt og virðingarverð áform í því efni hafa ekki reynst nægilega haldgóð. Alger undanþága samkvæmt lögum nr. 101/1996 fyrir aðra veitingastaði, svo og skemmtistaði, bætir ekki úr skák. Hefur gætt æ meiri óánægju með alla þessa tilhögun í þeim vaxandi hópi fólks sem leggur mikið upp úr því að geta notið veitinga og skemmtana í reyklausu andrúmslofti en á þess sáralítinn kost hér á landi eins og nú er ástatt. Við þessar aðstæður er ekki heldur fýsilegt að fara með börn inn á veitingastaði, með fáeinum heiðarlegum undantekningum þó. Þá er mikil hætta á að ungt fólk ánetjist tóbaki með þrásetu á veitingastöðum þar sem reykingar eru almennar. Reykmettað andrúmsloft í veitingasölum setur og starfsfólkið þar í hættu, sbr. 5. mgr. 9. gr. og athugasemdir við hana. Allt ber að sama brunni, að þetta ástand er gjörsamlega óviðunandi. Er orðið fyllilega tímabært að snúa dæminu við og hafa réttinn til hreins lofts í fyrirrúmi á þessu sviði, eins og orðið er nánast alls staðar annars staðar á opinberum vettvangi í íslensku samfélagi, sbr. og 2. mgr. 1. gr. í frumvarpi þessu.
    Að því ráði er einmitt horfið í 9. gr. samkvæmt frumvarpinu. Er kveðið á um það í 2. mgr. hvar megi leyfa reykingar á veitingastöðum. Er aðalreglan sú samkvæmt frumvarpinu að reykingar eru bannaðar á veitinga- og skemmtistöðum, en heimilt er þó að leyfa reykingar á afmörkuðum svæðum. Heimildina til að leyfa reykingar ber að skoða með tilliti til 4. mgr. og skal loftræstingu þannig fyrir komið að ekki sé um að ræða reykmettun andrúmslofts frá svæðum þar sem reykingar eru leyfðar. Í hverju tilviki er það eigandi/ forráðamaður sem ákveður hvort heimildin til að leyfa reykingar er notuð. Þessar heimildir til að leyfa reykingar á afmörkuðu svæði í veitingarými byggjast einkum á því mati að óraunhæft sé að sinni að banna reykingar með öllu á veitinga- og skemmtistöðum.
    Allvíða erlendis gilda strangar reglur um takmarkanir eða bann við reykingum á veitingastöðum, ekki síst í Bandaríkjunum. Á það bæði við um ríki og einstakar borgir. Samkvæmt skýrslunni sem til er vitnað í athugasemdum við nýja 9. mgr. 8. gr. um tóbaksvarnalöggjöf einstakra ríkja (State Laws on Tobacco Control) í árslok 1998 voru reykingar alfarið bannaðar á veitingahúsum í tveimur ríkjum, Utah og Vermont, og sættu mjög miklum takmörkunum í Kaliforníu. Alls höfðu þrjátíu ríki lögfest meiri eða minni takmarkanir á þessu sviði. Samkvæmt nýjum heimildum (The Associated Press) hafa reykingar síðan verið bannaðar á veitingahúsum í Maryland og Maine. Fyrir skömmu var ár liðið síðan þetta bann tók gildi í Maine. Tóbaksframleiðendur og fylgismenn þeirra höfðu spáð því að bannið mundi stórskaða veitingahúsarekstur í ríkinu. Sú hefur ekki orðið raunin, heldur hið gagnstæða, og þrjár kannanir sem gerðar hafa verið þar síðan í fyrra sýna mikinn og vaxandi stuðning við lögin. Nýlegar kannanir frá öðrum stöðum í Bandaríkjunum sýna hið sama, að reykingabann dregur ekki úr aðsókn að veitingastöðum.
    Ástæða er til að minna á hve vel hefur tekist að gera allan tóbaksreyk útlægan úr kaffistofum og mötuneytum á vinnustöðum. Ber ekki á öðru en að reykingamenn hafi almennt sætt sig mjög vel við þá breytingu og þá væntanlega margir uppgötvað að ekki var nauðsynlegt að fá sér sígarettu með kaffinu. Vafalaust hafa vinnustaðareglurnar hjálpað ýmsum til að hætta eða draga úr reykingum og jafnvel dregið úr nýliðun í hópi reykingamanna. Við hinu sama má búast af ákvæðinu í 2. mgr. 9. gr. verði það lögfest.
    Í könnun sem gerð var fyrir tóbaksvarnanefnd á síðastliðnu ári sögðust 81% þeirra sem afstöðu tóku vilja eiga þess kost að geta setið á reyklausu svæði á kaffi- og veitingahúsum. Meðal þeirra sem reyktu daglega tóku 64% þessa afstöðu.
     Um 3. mgr.
    Eftirspurn eftir reyklausum gistiherbergjum á hótelum og öðrum gististöðum hefur farið ört vaxandi að undanförnu og víða á slíkum stöðum er nú, hér á landi sem erlendis, gefinn kostur á fleiri eða færri herbergjum þar sem reykingar eru ekki leyfðar. Dæmi eru um að það nái til allra gistiherbergja á staðnum. Hér er í fyrsta sinn kveðið á um þetta efni í íslenskum lögum. Er gerður greinarmunur á hótelum og gistiheimilum annars vegar, en þar má leyfa reykingar í tilteknum herbergjum, og gistiskálum hins vegar, en þar leyfist ekki að reykja.
     Um 4. mgr.
    Hætt er við að reykmettun andrúmslofts verði mikil á veitingastöðum þar sem reykingar eru leyfðar. Til þess að draga úr henni og þar með skaða af völdum óbeinna reykinga er þörf á mjög öflugri og stöðugri loftræstingu. Skal hún samkvæmt þessari málsgrein jafnan fullnægja kröfum heilbrigðiseftirlits. Einnig skal þess gætt í samræmi við markmið laganna að tóbaksreykur mengi ekki loftið utan reykrýma.
    Um 5. mgr.
    Rannsóknir benda til að vinna í reykmettuðu rými á veitingastöðum auki hættu á lungnakrabbameini og jafnvel fleiri reykingatengdum sjúkdómum. Með 5. mgr. 9. gr. er sérstaklega brýnt fyrir stjórnendum á stöðum þessum að gera allt sem unnt er til að hlífa starfsfólkinu við tóbaksreyk, sbr. og 4. mgr. sömu greinar. Minnt er á fyrirspurn sem lögð var fram á Alþingi í febrúar 1999 um þær aðstæður sem starfsfólk veitinga- og skemmtistaða ætti við að búa með því að staðir þessir væru undanþegnir reglum 9. gr. tóbaksvarnalaga um reykingabann.
     Um 6. mgr.
    Hér er heilbrigðisráðherra heimilað að setja nánari reglur um reykingar á veitinga- og gististöðum. Skal haft um þær reglur samráð við samgönguráðherra, en hann fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum um veitinga- og gististaði, og við umhverfisráðherra með tilliti til lykilhlutverks heilbrigðisnefnda í eftirliti með framkvæmd slíkra reglna. Slíkar reglur gætu m.a. kveðið á um flokkun veitinga og gististaða með tilliti til reykinga , merkingar til leiðbeiningar um hvar megi eða megi ekki reykja, tengsl milli reykherbergja og reyklauss húsrýmis á veitingastöðum o.s.frv.
     Um 7. mgr.
    Bann við reykingum í sameignarhúsrými í fjöleignarhúsum, sem hér er kveðið á um, er löngu tímabært. Má fullyrða að margir bíði þess með óþreyju. Rök fyrir því eru og nánast hin sömu og fyrir reykingabanni skv. 1. málsl. 1. mgr. 9. gr. laganna. Reykingar á göngum, í þvottahúsum og í öðru sameignarhúsnæði eru mörgum til mikils ama og óþæginda og fara raunar í bág við þá skyldu sem lög um fjöleignarhús, nr. 26/1994, leggja á eigendur, að virða rétt og hagsmuni annarra eigenda við hagnýtingu sameignar.
     Um 8. mgr.
    Sterk rök eru fyrir því að takmarka reykingar og aðra tóbaksneyslu utan dyra á íþróttasvæðum með almennum reglum svo sem hér er kveðið á um. Er þar bæði litið til heilbrigðissjónarmiða og mikilvægis þess að sýna gott fordæmi. Reglurnar skulu settar í samráði við menntamálaráðherra og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands. Brýnast er að setja slíkar reglur um áhorfendasvæði þar sem eru bæði börn og fullorðnir og oft þröngt setinn bekkurinn. Einnig eiga slíkar reglur að ná til æfingarsvæða og mótssvæða. Óhætt er að segja að ákvæði 8. mgr. 9. gr. samræmist þeirri forvarnastefnu sem íþróttasamtökin hafa sett sér.

Um 9. gr.

    Um a-lið.
    Kveðið er á um að algert bann við reykingum skv. 1. tölul. 1. mgr. 10. gr. nái einnig til vinnuskóla sveitarfélaga. Þess má geta að sett var í starfsreglur Vinnuskóla Reykjavíkur árið 1995 ákvæði þess efnis að skólinn væri með öllu tóbakslaus vinnustaður.
     Um b-lið.
    Við 1. mgr. 10. gr. bætist nýr töluliður þar sem kveðið er á um algert bann við tóbaksreykingum í fangelsum utan fangaklefa en þar má leyfa að reykingar. Verður það ákvörðun stjórnenda í hverju tilviki hvort reykingar eru leyfðar. Með ákvæði þessu, sem sett er í samráði við Fangelsismálastofnun ríkisins, er stuðlað að betri líðan og heilsu fanga og fangavarða.
     Um c-lið.
    Við 10. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 2. mgr. Samkvæmt henni eru ekki einungis reykingar heldur og öll önnur tóbaksneysla bönnuð í grunnskólum, vinnuskólum sveitarfélaga, leikskólum, öðrum dagvistum barna, húsakynnum sem eru fyrst og fremst ætluð til félags-, íþrótta- og tómstundastarfsemi ungmenna og á öllum samkomum sem eru einkum ætlaðar ungmennum. Með ungmennum er hér átt við þá sem eru yngri en 18 ára. Bannið við neyslu reyklauss tóbaks er að því er varðar starfsfólk sett fyrst og fremst af ,,fordæmisástæðum“, sem reykingabannið á slíkum stöðum styðst líka við að nokkru, og þykir ekki fráleitt að skipa ákvæðinu í 10. gr. laganna þótt það snerti ekki varnir gegn tóbaksmengun andrúmslofts.
     Um d-lið.
    Með lögum nr. 101/1996 voru forstöðumenn opinberra stofnana sem lög mæla ekki fyrir um að séu með öllu reyklausar skyldaðir til að gera í samráði við starfsfólk áætlun um bann við reykingum innan viðkomandi stofnunar er kæmi til framkvæmda eigi síðar en fyrir árslok 2000. Heimilt er að gera ráð fyrir afdrepi þar sem reykingar eru leyfðar. Hér er kveðið á um að sú heimild falli niður og allar opinberar stofnanir, jafnt ríkis sem sveitarfélaga, verði því orðnar reyklausar við upphaf nýrrar aldar. Með því gefur ,,hið opinbera“ ótvírætt fordæmi um hvernig draga má úr mikilvægu heilbrigðis- og umhverfisvandamáli. Verulegur undirbúningur hefur farið fram í opinberum stofnunum vegna umrædds ákvæðis laga nr. 101/1996 og margar þeirra hafa orðið reyklausar eftir að þau voru sett.

Um 10. gr.

    Leiðrétt er númer lagagreinar þeirrar sem vísað er til í síðari málslið 11. gr. laganna.

Um 11. gr.

    Reglur um tóbaksvarnir á vinnustöðum, nr. 487/1985, voru fyrst settar í árslok 1985. Síðan þá hafa viðhorf til reykinga á vinnustöðum breyst mjög og þær mjög víða verið takmarkaðar meira en skylt var samkvæmt þeim reglum og jafnvel bannaðar með öllu . Í samræmi við þessa þróun voru á síðasta ári settar nýjar reglur um tóbaksvarnir á vinnustöðum, nr. 88/1999, þar sem reykingar sæta mun meiri takmörkunum en samkvæmt fyrri reglum. Þessi stefna er jafnt í hag starfsmönnum sem vinnuveitendum. Má fullyrða að skorður við tóbaksreykingum á vinnustöðum séu mikilvægur þáttur vinnu- og umhverfisverndar. Reglurnar frá 1999 voru settar eftir góða samvinnu við stjórn Vinnueftirlits ríkisins sem, eins og kunnugt er, er m.a. skipuð fulltrúum launþegasamtakanna og vinnuveitenda.
    Í þessu ljósi ber að skoða þá breytingu sem hér er gerð á 12. gr. laganna. Kveðið er á um það í 1. mgr. að hver maður skuli eiga rétt á reyklausu andrúmslofti innan dyra á vinnustað sínum og vinnuveitanda beri að tryggja starfsmanni þann rétt. Þeir sem starfa í „löglegum“ reykingarýmum á veitingastöðum njóta þó augljóslega ekki slíks réttar þar, svo sem vísað er til í greininni, en einnig við þær aðstæður ber yfirmanni að taka eins og unnt er mið af ákvæði 5. mgr. 9. gr. samkvæmt frumvarpinu, sbr. einnig 4. mgr. sömu greinar.
    Í 2. mgr. 12. gr. er mælt fyrir um að setja skuli, í samræmi við ákvæði 1. mgr. og með tilliti til 1. gr. laganna, reglur um takmarkanir á reykingum á vinnustöðum, þar á meðal í skipum, sjá athugasemdir við 12. gr. frumvarpsins. Skulu þær settar í samráði við félagsmálaráðherra og samgönguráðherra.

Um 12. gr.

    Þær breytingar verða á 13. gr. laganna að annars vegar er felld niður heimild skv. 2. mgr. til að leyfa reykingar í hluta farþegarýmis í atvinnuflugi milli landa og hins vegar er fellt niður ákvæði 3. mgr. um að setja skuli sérreglugerð um tóbaksreykingar um borð í skipum.
    Fyrri breytingin er í samræmi við reglugerð samgönguráðuneytisins nr. 86/1995 þar sem lagt var bann við reykingum í öllu atvinnuflugi með farþega milli Íslands og annarra landa frá og með 26. mars 1995. Var það bann sett af öryggisástæðum og átti sér rætur í samþykktum á alþjóðavettvangi flugmála.
    Seinni breytingin helst í hendur við það ákvæði í 8. gr. frumvarpsins að reglur um takmarkanir á reykingum á vinnustöðum skuli einnig taka til skipa. Þær reglur sem settar voru, skv. 3. mgr. 13. gr. laganna, um tóbaksreykingar um borð í skipum (nr. 124/1993) voru að mestu sniðnar eftir áður nefndum reglum nr. 487/1985 um tóbaksvarnir á vinnustöðum, enda tilgangurinn hinn sami. Ekki virðist þörf á að hafa sérreglur fyrir vinnustaði í skipum fremur en aðra vinnustaði sem tengst geta híbýlum starfsfólks. Sérreglur um skip verða þó í gildi þar til reglum um tóbaksvarnir á vinnustöðum hefur verið breytt með hliðsjón af framansögðu.

Um 13. gr.

    Sú breyting verður á 1. mgr. 14. gr. laganna að menntamálaráðuneytið skal nú hafa samráð við tóbaksvarnarnefnd og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti um fræðslu í því skyni að draga úr tóbaksneyslu.

Um 14. gr.

    Ríkisframlag til tóbaksvarna hækkar verulega við þá breytingu á 1. mgr. 15. gr. sem hér er kveðið á um. Skal verja 0,9% af brúttósölu tóbaks til þeirra mála í stað 0,7% samkvæmt gildandi lögum.

Um 15. gr.

    Bætt er við 2. mgr. 17. gr. laganna ákvæði þess efnis að brjóti sá sem leyfi hefur skv. 8. gr., þ.e. til smásölu tóbaks, gegn ákvæðum þeirrar greinar sé heibrigðisnefnd heimilt eða eftir atvikum skylt að svipta hann leyfinu, þó að undangenginni áminningu. Ágreiningi um ákvarðanir heilbrigðisnefnda má vísa til úrskurðanefndar sem starfar skv. 31. gr. laga, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Tilgangur þessa ákvæðis er, eins og minnt er á í athugasemdum við 9. mgr. 8. gr. samkvæmt frumvarpinu, að veita seljendum aðhald um að fylgja ákvæðum laganna og þá ekki síst ákvæði 1. mgr. 8. gr. um bann við að selja ungmennum tóbak. Bent skal í þessu sambandi á ákvæði í VII. kafla lyfjalaga, nr. 93/1994, um leyfi til lyfjasölu, leyfisgjald og heimild til leyfissviptingar.

Um 16. gr.

    Ákvæði um refsiviðurlög við brotum gegn ákvæðum 6., 7. og 8. gr. laganna eru hér samræmd og viðurlögin þyngd. Brot gegn 6. og 7. gr. varða nú sektum eða fangelsi í allt að tvö ár en brot gegn 8. gr. sektum og leyfissviptingu. Heimild til að fella niður refsingu fyrir að selja tóbak einstaklingum yngri en 18 ára ef málsbætur eru miklar er felld brott. Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 74/1984 segir að kveðið sé á um þessa heimild ,,þar sem oft er erfitt að henda reiður á aldri einstaklinga“. Heimildin virðist ástæðulaus eftir að krafist var með lögum nr. 101/1996 að kaupandi sannaði aldur sinn með skilríkjum ef með þyrfti.

Um 17. gr.

    Í 2. mgr. er kveðið á um endurskoðun eftirlitsákvæða laganna samkvæmt ákvæðum laga nr. 27/1999, um opinberar eftirlitsreglur, en í 4. gr. þeirra laga er kveðið á um að eftirlitsreglur skuli hafa takmarkaðan gildistíma eða endurskoðunarákvæði sem að hámarki skuli vera fimm ár.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að fella skuli lögin inn í meginmál laga nr. 74/1984, með síðari breytingum. Þykir hagkvæmt þar sem um töluverðar breytingar á lögunum er að ræða að gefa þau út í heild sinni þannig að þeir sem með lögin vinna hafi lagatextann allan á einum stað. Jafnframt er gert ráð fyrir að greinatölusetning laganna verði færð í hefðbundið form, í samræmi við íslenska lagahefð, í stað þeirrar greina- og málsgreinamerkingar sem er í lögunum frá 1984.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tóbaksvarnir,
nr. 74/1984, sbr. lög nr. 101/1996.

    Með frumvarpi þessu er verið að leggja til breytingar á núgildandi lögum um tóbaksvarnir með nýjum og fyllri ákvæðum, einkum varðandi markaðssetningu og sölu tóbaks og vernd gegn tóbaksmengun andrúmslofts. Í frumvarpinu er lagt til að meira fé verði veitt til forvarna og að skylt verði að verja a.m.k. 0,9% af brúttósölu tóbaks til tóbaksvarna í stað 0,7% samkvæmt gildandi lögum. Verði frumvarpið að lögum mun ríkisframlag til tóbaksvarnastarfs aukast úr 40 m.kr. í rúmlega 52 m.kr. miðað við rauntölur af brúttósölu tóbaks árið 1999, útgjöld ríkisins hækki því um 12 m.kr. Áætluð brúttósala tóbaks árið 2000 er óbreytt frá fyrra ári samkvæmt spá Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins.