Ferill 190. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 515  —  190. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, með síðari breytingum.

Frá minni hluta umhverfisnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingimar Sigurðsson og Kristínu Lindu Árnadóttur frá umhverfisráðuneyti, Stefán Thors frá Skipulagsstofnun ríkisins og Ívar Pálsson frá Borgarskipulagi Reykjavíkur.
    Umsagnir um málið bárust nefndinni frá Hollustuvernd ríkisins, Veðurstofu Íslands, Orkustofnun, Almannavörnum ríkisins, Samtökum iðnaðarins, Akraneskaupstað, Skipulagsstofnun, Landgræðslu ríkisins, Vinnueftirliti ríkisins, Ísafjarðarbæ, Félagi húsgagna- og innanhússarkitekta, Meistarafélagi húsasmiða, Rafmagnsveitum ríkisins, Landsvirkjun, Hinu íslenska náttúrufræðifélagi, embætti borgarverkfræðings Reykjavíkurborgar, Samtökum atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði, Borgarskipulagi Reykjavíkur, Samtökum atvinnulífsins, Arkitektafélagi Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Tíu af þessum umsögnum höfðu borist að morgni 11. desember, þegar málið var tekið fyrir í nefndinni, níu bárust á meðan nefndin fundaði um málið og tvær eftir að nefndin hafði lokið við afgreiðslu málsins og sent það frá sér. Öll umfjöllun nefndarinnar fór fram á einum degi, 11. desember, sama dag og umsagnarfrestur um frumvarpið rann út.
    Það er mat minni hluta nefndarinnar að hér hafi umsagnaraðilum verið sýnd óvirðing þar sem ekki gafst færi á að lesa umsagnir allra áður en málið var afgreitt frá nefndinni. Segja má að engin umsagnanna hafi fengið verðuga umfjöllun en þó er það ámælisverðast að þegar þetta er skrifað má vel vera að enn séu einhverjar umsagnir ókomnar í hendur nefndarmanna. Ekki skal fjölyrt um þá óvirðingu sem nefndinni sjálfri er sýnd með vinnubrögðum af þessu tagi.
    Vegna þessa flýtis við afgreiðslu málsins telur minni hlutinn sér ekki fært að undirrita nefndarálit meiri hlutans og leggja það til að Alþingi afgreiði málið fyrir jólahlé. Miklum mun farsælla væri að slá öllu málinu á frest fram yfir áramót og vinna það þá á þann faglega máta sem málið á skilið, nefndin sjálf og allir umsagnaraðilar.
    Minni hlutinn leggur til að málið komi ekki til afgreiðslu.

Alþingi, 12. des. 2000.



Kolbrún Halldórsdóttir.