Ferill 264. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 593  —  264. mál.



Breytingartillögur



við frv. til l. um breyt. á l. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar (VE, EKG, DrH, GunnB, HjÁ).



     1.      Á eftir 6. gr. komi tvær nýjar greinar, svohljóðandi:
                  a.      (7. gr.)
                       Fyrirsögn 57. gr. B laganna verður svohljóðandi: Samsköttun félaga.
                  b.      (8. gr.)
                       Á eftir 4. mgr. 57. gr. B laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                       Nú er dótturfélag í eigu samvinnufélags og gilda þá ákvæði þessarar greinar, enda sé skilyrðum hennar fullnægt.
     2.      Við 11. gr. Í stað orðanna „Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein“ í a-lið komi: Álag samkvæmt þessari málsgrein skal þó fellt niður.
     3.      Við ákvæði til bráðabirgða bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Unnt er að fara fram á frestun á tekjufærslu söluhagnaðar vegna sölu hlutabréfa einstaklinga á árinu 2000 um ein áramót frá söludegi að svo miklu leyti sem fjárhæð söluhagnaðarins er umfram 3.230.672 kr. hjá einstaklingum og 6.461.344 kr. hjá hjónum. Séu önnur hlutabréf keypt í stað hinna seldu innan þess tíma færist söluhagnaðurinn til lækkunar á kaupverði hinna nýju bréfa. Nemi kaupverð hinna keyptu hlutabréfa lægri fjárhæð en söluhagnaðurinn telst mismunurinn til skattskyldra tekna á kaupári hinna keyptu bréfa. Ef hlutabréf eru ekki keypt innan tilskilins tíma telst hagnaðurinn með skattskyldum tekjum á því ári þegar hann myndast og skattleggst hann þá skv. 3. mgr. 67. gr. laganna. Ákvæði þessarar málsgreinar taka ekki til söluhagnaðar sem myndaðist í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi.
     4.      Við bætist þrjú ný ákvæði til bráðabirgða:
                  a.      (II.)
                       Á tekjuskattsstofn manna vegna tekna árið 2001 skal árið 2002 leggja sérstakan tekjuskatt eins og nánar greinir í ákvæði þessu.
                       Á tekjuskattsstofn einstaklinga umfram 3.359.899 kr. eða tekjuskattsstofn hjóna umfram 6.719.798 kr. skal reikna sérstakan 7% tekjuskatt.
                       Ef hjón hafa bæði tekjuskattsstofn umfram 3.359.899 kr. reiknast þeim sinn hlutinn hvoru hins sérstaka tekjuskatts. Sé tekjuskattsstofn annars hjóna lægri en 3.359.899 kr. reiknast hinu hjóna allur sérstaki tekjuskatturinn.
                       Sérstakur tekjuskattur samkvæmt ákvæði þessu skal ekki innheimtur með staðgreiðslu opinberra gjalda.
                  b.      (III.)
                       Fyrirframgreiðsla upp í væntanlega álagningu sérstaks tekjuskatts ársins 2002 skal fara fram með fimm jöfnum mánaðarlegum greiðslum mánuðina ágúst til desember 2001. Fyrirframgreiðslan skal vera 7% af tekjuskattsstofni samkvæmt skattframtali ársins 2001 vegna tekna á árinu 2000 umfram 3.359.899 kr. hjá einstaklingi og umfram 6.719.798 kr. hjá hjónum.
                       Gjalddagar fyrirframgreiðslu skv. 1. mgr. skulu vera fyrstu dagar mánaðanna ágúst til og með desember. Um framkvæmd fyrirframgreiðslunnar skal kveða nánar á í reglugerð.
                       Heimilt er gjaldanda að sækja um lækkun á fyrirframgreiðslu sem honum hefur verið gert að greiða skv. 1. mgr. Umsókn um slíka lækkun skal senda skattstjóra sem úrskurðar um lækkun greiðsluskyldunnar.
                       Skattstjóri skal að jafnaði ekki taka til greina umsókn gjaldanda nema hann geti sýnt fram á að veruleg tekjulækkun hafi orðið hjá honum milli ára. Ríkisskattstjóri setjur nánari reglur um þetta atriði.
                       Nú kemur í ljós við álagningu á sérstökum tekjuskatti að fyrirframgreiðsla samkvæmt þessu ákvæði hefur verið of há og skal bæta 2,5% álagi við mismuninn.
                  c.      (IV.)
                       Um sérstakan tekjuskatt samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II og III skulu ákvæði VIII.–XIII. kafla laganna gilda eftir því sem við á.