Ferill 333. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 599  —  333. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum, o.fl.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Maríönnu Jónasdóttur, Tómas N. Möller og Kjartan J. Bendtsen frá fjármálaráðuneyti, Tryggva Valdimarsson og Ragnar G. Þórhallsson, fulltrúa starfsmanna embættis ríkistollstjóra, og Hörð D. Harðarson frá Tollvarðafélagi Íslands. Gögn bárust frá fjármálaráðuneyti og umsagnir bárust um málið frá tollstjóranum í Reykjavík, Sýslumannafélagi Íslands, Tollvarðafélagi Íslands og ríkistollstjóra.
    Með frumvarpinu er lagt til að embætti ríkistollstjóra verði lagt niður frá og með áramótum og þeim verkefnum sem það hefur haft með höndum skipt niður á fjármálaráðuneyti og embætti tollstjórans í Reykjavík. Til fjármálaráðuneytis verða flutt verkefni varðandi almenna stefnumótun, eftirlit með tollstjórum, erlend samskipti, gerð starfsreglna og úrskurði í kærumálum, öðrum en þeim sem sæta kæru til ríkistollanefndar. Embætti tollstjórans í Reykjavík verður eflt, en þau auknu verkefni sem embættinu verða falin samkvæmt frumvarpinu eru helst samræming tollgæslu-, tollheimtu- og rannsóknarstarfa, gerð leiðbeininga, útgáfa kynningarefnis fyrir tollstjóra og almenning, þróun og rekstur tölvu- og upplýsingakerfis tollyfirvalda og fræðslumál starfsmanna. Frumvarpið miðar þannig að því að efla mjög hlutverk fjármálaráðuneytis við stefnumótun í tollamálum og skýra ábyrgð ráðherra á tollkerfinu og gera hlutverk hans í stefnumótun og uppbyggingu þess markvissara. Tollstjórinn í Reykjavík mun hins vegar frekar hafa samræmingarhlutverk með höndum og mun einnig stýra eftirlitsaðgerðum um allt land. Það skal þó gert í virku samráði við tollstjóra í hverju tollumdæmi. Stefnt er að því að slík hagræðing hafi m.a. í för með sér mjög hert eftirlit með fíkniefnum.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Kristinn H. Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 15. des. 2000.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Einar K. Guðfinnsson.


Sigríður A. Þórðardóttir.



Gunnar Birgisson.


Jón Kristjánsson.