Ferill 390. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 640  —  390. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 63/1969, um verslun með áfengi og tóbak, með síðari breytingum.

Flm.: Vilhjálmur Egilsson, Ásta Möller, Árni R. Árnason,


Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Pétur H. Blöndal.



1. gr.

    Við lögin bætist ný grein, sem verður 6. gr., svohljóðandi:
    Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins skal framselja einkaleyfi sitt til smásölu áfengis samkvæmt áfengislögum til matvöruverslana sem uppfylla eftirtalin skilyrði:
     1.      Rekstraraðili matvöruverslunar þarf að hafa fengið leyfi sveitarstjórnar til rekstrar áfengisútsölu samhliða annarri starfsemi sinni.
     2.      Það hillurými sem nýtt er undir áfengi skal að hámarki nema 5% af heildarhillurými viðkomandi verslunar og skulu áætlanir um hillurými fyrir áfengi og útreikningar þar að lútandi lagðir fyrir sveitarstjórn samhliða umsókn um leyfi til rekstrar áfengisútsölu.
    Matvöruverslun sem selur áfengi samkvæmt 1. mgr. skal óheimill aðgangur að innkaupakerfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2001.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að opnað verði fyrir smásöluverslun með áfenga drykki í almennum matvöruverslunum. Smásöluverslun með áfengi er nú alfarið í höndum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins sem hefur einkaleyfi á þessari starfsemi samkvæmt áfengislögum. Öll þróun íslensks samfélags á síðustu áratugum bendir til þess að núverandi fyrirkomulag smásöluverslunar með áfengi sé orðið tímaskekkja. Aukin krafa viðskiptavina um þjónustu hefur leitt til þess að einokun ríkisins á smásöluverslun með áfengi þjónar ekki lengur nema að mjög litlu leyti þeim tilgangi að takmarka aðgang viðskiptavina að áfengi. Á undanförnum árum hafa margar útsölur verið opnaðar og Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hefur neyðst til þess að koma til móts við viðskiptavini með ýmsum hætti. Lögum um verslun með áfengi var enn fremur breytt á vorþingi 1999 þar sem afgreiðslutími var rýmkaður og tekin af öll tvímæli um að heimilt væri að greiða fyrir vöruna með greiðslukortum.
    Nú er svo komið að viðskiptavinir gera sífellt harðari kröfu um eðlilegan aðgang að vörunni, enda er neysla áfengis fyllilega lögleg þegar tilskildum aldri er náð og innan þess ramma sem áfengislög eða önnur lög setja. Sífellt fleiri viðskiptavinir vilja ekki vera neyddir til viðskipta við Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og taka ekki undir þá skoðun að viðskipti þeirra séu slíkt vandamál að það þarfnist einokunar ríkisins á þeim.

Prentað upp.

    Markmiðið með rekstri einkasölu ríkisins á áfengi í smásölu hefur verið að draga úr neyslu þess með takmörkuðum aðgangi að því. Með sífellt fleiri útsölum og bættri þjónustu hefur þetta markmið vikið og fyrirkomulag starfseminnar líkist æ meira venjulegum einokunarrekstri þar sem leitast er við að uppfylla þarfir viðskiptavinanna án þess að kosta of miklu til. Aldrei verður þó möguleiki á að koma svo til móts við viðskiptavini að þeir njóti sambærilegs aðgangs að vörunni og almennt gildir um matvöru.
    Verði sú breyting að lögum sem lögð er til í frumvarpinu fá viðskiptavinir eðlilegan aðgang að þessari vöru. Sjálfsagt mun það hafa í för með sér meiri neyslu. Neysluaukningin mun þó væntanlega fyrst og fremst koma fram hjá þeim sem neyta áfengis í hófi því að þeir sem á annað borð stunda ofneyslu þess hafa hingað til ekki látið hinn takmarkaða aðgang aftra sér frá neyslu. Hófleg neysla áfengis er hins vegar almennt talin skaðlaus fyrir fullorðið fólk og í ýmsum tilvikum er hún til bóta fyrir heilsu og líðan.
    Frumvarp þetta er einfalt í sniðum og gerir ráð fyrir því að hin formlega breyting feli í sér að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins verði skylt að framselja einkaleyfi sitt til annarra aðila sem uppfylla þau skilyrði sem sett eru. Þeir sem þannig fengju leyfi til smásölu hefðu sjálfir fullar heimildir til þess að ákveða framboð og tegundir innan þess ramma sem settur yrði. Þeir munu væntanlega eiga bein viðskipti við framleiðendur og heildsöluaðila í innkaupum sínum á áfengi.
    Samkvæmt áfengislögum veita sveitarstjórnir leyfi fyrir áfengisútsölum og geta bundið leyfin ýmsum skilyrðum, svo sem um staðsetningu verslunar og afgreiðslutíma. Enn fremur eru gerðar kröfur til smásöluaðilans um að hann ábyrgist öryggis- og eftirlitsbúnað húsnæðisins og afmörkun og aðgreiningu frá öðrum rekstri. Dómsmálaráðherra getur kveðið nánar á um hámarksafgreiðslutíma og önnur skilyrði varðandi smásöluleyfi í reglugerð.
    Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir því að áfengi verði selt í matvöruverslunum eins og aðrar vörur. Í öllum venjulegum bókhaldskerfum er unnt að halda viðskiptum með þessa vöru aðgreindum frá öðrum rekstri og unnt er að setja skilyrði um frágang á hillum, kælum eða annarri söluaðstöðu sem mæla fyrir um takmarkaðri afgreiðslutíma en á öðrum vörum ef það þykir við hæfi.
    Smásöluaðilum yrði falið sjálfum að ákveða vöruframboð og þar sem hillurými sem undir vöruna fer er takmarkað má ætla að fyrst og fremst verði boðið fram léttvín og bjór. Það eru þær áfengistegundir sem fyrst og fremst henta í matvöruverslunum og í samræmi við það sem tíðkast erlendis. Smásöluaðilunum er óheimill aðgangur að innkaupakerfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins skv. 2. mgr. 1. gr., en með því er tryggt að þeim verði ekki mismunað.
    Í frumvarpi þessu er ekki gert ráð fyrir því að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins verði lögð niður. Ætla má að áfram verði rekstrargrundvöllur fyrir sérhæfðar áfengisverslanir þótt matvöruverslanir fái takmarkaða möguleika til að bjóða vöruna til sölu. Þetta á þó fyrst og fremst við um fjölmenn byggðarlög þar sem sérhæfðar áfengisverslanir eru. Í fámennari byggðarlögum munu viðskiptin væntanlega færast í matvöruverslanirnar og það bætir líka úr þeirri grófu mismunun á aðgengi sem íbúar fámennra byggðarlaga hafa mátt þola.