Ferill 448. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 716  —  448. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 22/1991, um samvinnufélög, með síðari breytingum (rekstrarumgjörð).

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    Við 1. mgr. 3. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Þó mega hlutafélög, sem stofnuð verða skv. XII. kafla laganna, halda orðinu kaupfélagi óstyttu í nafni sínu.

2. gr.

    Lokamálsliður 1. mgr. 25. gr. laganna orðast svo: Upplýsingaskyldan á einnig við um samband félagsins við félög sem það er eigandi að með þeim hætti að það getur haft úrslitaáhrif á töku ákvarðana í þeim.

3. gr.

    Við 38. gr. laganna bætast fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Samvinnufélögum er með ákvörðun félagsfundar heimilt að hækka séreignarhluti félagsaðila í A-deild stofnsjóðs félagsins á þann hátt að yfirfæra fjárhæðir sem eftir standa þegar félagið hefur ráðstafað hagnaði í samræmi við ákvæði 54. gr., um tillög í varasjóði og aðra sjóði samkvæmt samþykktum félagsins, eða fjárhæðir sem komið hafa fram vegna færslna í endurmatsreikning samkvæmt lögum um ársreikninga. Tillaga um hækkun þarf samþykki 2/ 3hluta greiddra atkvæða á félagsfundi. Sé tillagan samþykkt á félagsfundi skal boða hluthafa í B-deild félagsins á fund til að fjalla um tillöguna. Hluthafar sem ráða yfir meiri hluta atkvæða í B-deild geta þar hafnað ákvörðun félagsfundar í A-deild. Ákvörðunin skal jafnframt uppfylla frekari fyrirmæli samþykkta félagsins um breytingar á samþykktum þess. Heimilt er að ákveða í samþykktum að hækkun á séreignarhlutum skuli afhent félagsmönnum með samvinnuhlutabréfum í B-deild stofnsjóðs félagsins. Við hækkun á séreignarhlutum A og B-deildar skal gætt ákvæða um fjárhæð varasjóðs.
    Við ákvörðun um hækkun og afhendingu hluta í B-deild skal jafnframt kveða á um hvert skuli vera skiptahlutfall á hlutum í A-deild stofnsjóðs og hlutum í B-deild. Jafnframt skal kveðið á um hvernig innbyrðis skiptingu hækkunar milli félagsaðila í A-deild stofnsjóðs skuli háttað, þ.e. að hvaða marki skiptingin fylgi hlutfallsskiptingu og þróun stofnsjóðseignar eða skiptist með öðrum hætti.
    Ákvæði 7. mgr. 61. gr. og 2. og 3. mgr. 61. gr. a gilda um ákvörðun samkvæmt þessari grein.
    Heimilt er að ákveða í samþykktum að útborgun á séreignarhlutum skv. 1.–3. mgr. skuli afhent félagsmönnum með samvinnuhlutabréfum í B-deild stofnsjóðs félagsins eða skuldabréfum. Tilgreina skal í samþykktunum frá hvaða tímamörkum slík ákvæði geti fyrst komið til framkvæmda.

4. gr.

    52. gr. laganna orðast svo:
    Félagsfundur getur samkvæmt tillögu stjórnar ákveðið með 2/ 3hlutum greiddra atkvæða að lækka A-deild og/eða B-deild stofnsjóðs félagsins. Ef félagsfundur samþykkir slíka tillögu skal boða hluthafa í B-deild félagsins á fund til að fjalla um tillöguna. Hluthafar sem ráða yfir meiri hluta atkvæða í B-deild geta þar hafnað ákvörðun félagsfundar í A-deild. Í fundarboði fyrir félagsfund eða fund hluthafa í B-deild skal m.a. greina frá ástæðum lækkunarinnar og hvernig hún á að fara fram. Í ákvörðuninni skal taka fram þá fjárhæð, sem lækka skal stofnsjóðinn um, ásamt upplýsingum um hvernig skuli ráðstafa lækkunarfénu en því má ráðstafa þannig:
     1.      Til jöfnunar taps sem verður ekki jafnað á annan hátt. Eigi má þó lækka B-deild stofnsjóðs til jöfnunar taps fyrr en A-deild stofnsjóðs er tæmd.
     2.      Til greiðslu til félagsmanna.
     3.      Til greiðslu til hluthafa í B-deild stofnsjóðs.
     4.      Til afskriftar á greiðsluskyldu í stofnsjóði félagsins.
    Ef ráðstafa á lækkunarfjárhæðinni að nokkru eða öllu leyti í þeim tilgangi er greinir í 2., 3. og 4. tölul. 1. mgr. skal birta tvisvar í Lögbirtingablaðinu áskorun til kröfuhafa félagsins um að tilkynna kröfur sínar til félagsstjórnar innan tveggja mánaða frá fyrstu birtingu áskorunarinnar. Óheimilt er að framkvæma lækkun fyrr en lýstar kröfur hafa verið greiddar eða fullnægjandi tryggingar settar. Rísi ágreiningur milli félags og kröfuhafa um það hvort framboðin trygging sé nægileg geta hlutaðeigandi, innan tveggja vikna frá því að tryggingin er boðin fram, lagt málið fyrir héraðsdóm á heimilisvarnarþingi félagsins. Með tilkynningunni um lækkun skal, auk nauðsynlegra sönnunargagna, fylgja yfirlýsing, undirrituð af stjórn félags og endurskoðendum, um að skuldir félagsins séu því ekki til fyrirstöðu að lækkunin geti farið fram.
    Sanni félag að það eigi fyrir skuldum er ráðherra heimilt að veita því undanþágu frá innköllunarskyldu skv. 2. mgr. ef ljóst þykir að kröfuhafar félagsins bíði ekki tjón af því.
    Eftir lækkunina skulu vera fyrir hendi eignir er svara a.m.k. til stofnsjóðs félagsins og lögmæltra varasjóða.
    Ef ráðstafa á allri lækkunarfjárhæðinni til jöfnunar á tapi skal strax tilkynnt til samvinnufélagaskrár að lækkun hafi farið fram. Tilkynning um lækkun, ef ráðstafa á lækkunarfjárhæðinni að nokkru leyti eða öllu skv. 2., 3. og 4. tölul. 1. mgr., skal berast samvinnufélagaskrá innan árs frá því ákvörðun var tekin, ella fellur hún úr gildi.

5. gr.

    Á undan 61. gr. laganna koma þrjár nýjar greinar, svohljóðandi:

    a. (61. gr.)
    Að tillögu félagsstjórnar getur félagsfundur með 2/ 3hlutum greiddra atkvæða samþykkt að breyta samvinnufélagi í hlutafélag. Boða skal til fundarins með minnst tveggja vikna fyrirvara og viku fyrir félagsfund skulu tillaga, áætlun um breytingu og fylgiskjöl liggja frammi á skrifstofu félagsins og send sérhverjum félagsmanni sem þess óskar.
    Þegar stjórn hefur samþykkt tillögu um breytinguna er óheimilt að veita nýjum félagsmönnum inngöngu í félagið og að greiða úr stofnsjóði til félagsmanna frá dagsetningu tillögunnar þar til hlutafélagið hefur verið skráð eða tillaga felld. Félagsfund skal halda innan mánaðar frá því að stjórn hefur tekið ákvörðun.
    Á fundinum skal lögð fram áætlun um breytingu samvinnufélags. Í áætluninni skal koma skýrlega fram hvort hlutafélagið skuli hafa einhver einkenni samvinnufélags að því er varðar rétt manna til inngöngu, atkvæðisrétt, arðgreiðslur og tengsl þeirra við viðskiptaþátttöku félagsmanns í félaginu, skilgreiningu á tilgangi og viðskiptaþátttöku í félaginu, rétt sem fylgi búsetu á félagssvæði eða öðrum skilgreiningum, réttindi við slit o.fl. Í áætluninni skal ávallt fjallað um neðangreind atriði:
     a.      Greinargerð stjórnar þar sem gerð er grein fyrir röksemdum og ástæðum fyrir breytingu á rekstrarformi.
     b.      Við hvaða tímamark skuli miða stofnun hlutafélagsins og slit samvinnufélagsins en það tímamark skal ekki vera síðar en mánuði eftir samþykki tillögu.
     c.      Fjárhæð hlutafjár sem verði gagngjald fyrir endurmetinn stofnsjóð A-deildar og samvinnuhlutabréf B-deildar og reglu um skiptingu þess á milli félagsmanna.
     d.      Hvort í félaginu skuli vera mismunandi flokkar hlutafjár.
     e.      Hvort eða hversu mikill atkvæðisréttur skuli fylgja hlutum í hverjum flokki og jafnframt hvort önnur réttindi, svo sem réttur til arðgreiðslna eða úthlutun eigna við slit, skuli vera mismunandi á milli flokka eða ekki.
     f.      Hvort einhverjir félagsmenn njóti sérstakra réttinda í hlutafélaginu.
     g.      Reglur um hækkun séreignarhluta félagsaðila í A-deild stofnsjóðs, sbr. 38. gr.
     h.      Hvenær hlutabréf skuli afhent í skiptum fyrir stofnsjóðsinneign eða samvinnuhlutabréf.
     i.      Hvort einhverjir stjórnarmenn, framkvæmdastjórar og fulltrúanefndarmenn, matsmenn eða eftirlitsaðilar njóti einhverra réttinda í hlutafélaginu.
    Staðfest félagaskrá félagsins þar sem séreignarhlutur hvers félagsmanns er skilgreindur, drög að samþykktum hlutafélagsins í samræmi við lög um hlutafélög og sérfræðiskýrsla ásamt gögnum skulu einnig fylgja áætluninni sem fylgiskjöl.
    Hafi verið gefin út samvinnuhlutabréf í félaginu sem ætlunin er að breyta í hlutafélag skal á fundinum enn fremur tekin afstaða til eftirfarandi:
     a.      Réttinda hluthafa í B-deild félagsins í hinu nýja hlutafélagi.
     b.      Hvernig hlutafé hins nýja félags skal skiptast á milli félagsmanna í A- deild og hluthafa í B-deild.
    Ef félagsfundur samþykkir tillögu um breytingu skulu eigendur hluta í B-deild stofnsjóðs boðaðir til sérstaks fundar til ákvörðunar um tillöguna. Hluthafar sem ráða yfir meiri hluta atkvæða í B-deild geta þar hafnað ákvörðun félagsfundar í A-deild.
    Gerð skal sérfræðiskýrsla skv. 6. og 7. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, þar sem fram kemur mat á fjárhæð hlutafjár samkvæmt áætluninni og eftir atvikum rökstutt álit á því hvort hækkun séreignarhluta félagsaðila í A-deild stofnsjóðs félagsins og skiptahlutfall á milli félagsmanna og hluthafa sé eðlilegt og sanngjarnt, svo og innbyrðis milli félaganna. Þegar skiptahlutfall milli A-deildar og B-deildar er metið skal taka mið af þeim réttindum, sem aðilar hafa í samvinnufélagi, og hvaða réttindi þeir fá í hinu nýstofnaða hlutafélagi. Sérfræðiskýrslunni skulu fylgja ársreikningar félagsins fyrir síðustu tvö reikningsár, efnahags- og rekstrarreikningur fyrir liðinn hluta yfirstandandi reikningsárs og að auki upphafsefnahagsreikningur hins nýja félags. Um hæfi og störf sérfræðinganna gilda að öðru leyti ákvæði laga um hlutafélög.

    b. (61. gr. a)
    Ef félagsmenn gera grein fyrir því á félagsfundi, áður en gengið er til atkvæða um tillögu, að þeir vilji ekki gerast hluthafar í hinu nýja hlutafélagi, og ef þeir greiða atkvæði gegn tillögunni, geta þeir krafist þess að greidd verði út fjárhæð séreignarhlutar í stofnsjóði félagsins eins og hann stendur fyrir breytinguna.
    Hluthafar í B-deild félags, er greitt hafa atkvæði gegn breytingartillögu, eiga kröfu á því að hlutabréf þeirra verði innleyst ef skrifleg krafa er gerð um það innan mánaðar frá því að fundurinn var haldinn. Ef þess hefur verið farið á leit við hluthafa fyrir atkvæðagreiðslu að þeir sem nota vilja innlausnarréttinn gæfu til kynna vilja sinn í því efni er innlausnarrétturinn bundinn því skilyrði að hlutaðeigendur hafi gefið yfirlýsingu þar um á fundinum. Félagið skal kaupa hlutina af þeim á verði sem svarar til verðmætis hlutanna. Sé ekki um samkomulag að ræða skal verðið ákveðið af matsmönnum, dómkvöddum á heimilisvarnarþingi félagsins. Hvor aðili um sig getur borið ákvörðun matsmanna undir dómstóla. Mál verður að höfða innan þriggja mánaða frá því að mat hefur farið fram.
    Félagsmenn og hluthafar í B-deild stofnsjóðs geta krafist skaðabóta af viðkomandi félagi ef þeir hafa gert fyrirvara um það á fundi sem fjallar um breytingartillöguna enda sé skiptahlutfall á milli félagsmanna og hluthafa hvorki sanngjarnt né efnislega rökstutt.

    c. (61. gr. b)
    Samvinnufélagi telst slitið og hlutafélagið stofnað þegar öll neðangreind skilyrði eru uppfyllt:
     a.      Breytingaráætlun hefur verið samþykkt.
     b.      Ný stjórn og endurskoðendur hafa verið kjörnir fyrir hið nýja félag nema ráð sé fyrir því gert í áætluninni að sömu aðilar og áður skipi þessar trúnaðarstöður til næsta aðalfundar.
     c.      Kröfur skv. 61. gr. a hafa verið útkljáðar eða fullnægjandi trygging sett fyrir þeim.
    Við breytingu á samvinnufélagi í hlutafélag renna öll réttindi samvinnufélagsins og skyldur til hlutafélagsins.
    Tilkynna skal samvinnufélagaskrá um félagsslitin og hlutafélagaskrá um stofnun hlutafélags innan mánaðar frá því að framangreind skilyrði eru uppfyllt.

6. gr.

    Við 61. gr. laganna, sem verður 62. gr. a, bætist nýr töluliður sem orðast svo: Ef endurskoðaðir og samþykktir ársreikningar hafa ekki verið sendir samvinnufélagaskrá fyrir þrjú síðustu reikningsár, sbr. þó ákvæði laga um ársreikninga um skil á ársreikningum.

7. gr.

    62. gr. laganna verður 62. gr. b.

8. gr.

    Fyrirsögn XII. kafla laganna verður: Breyting á rekstrarformi samvinnufélaga og slit samvinnufélaga.

9. gr.

    Svohljóðandi breytingar verða í lögunum á tilvísunum í endurskoðendur og skoðunarmenn, sbr. lög um endurskoðendur:
     a.      Í stað orðanna „löggilts endurskoðanda“ í 2. tölul. 2. mgr. 2. gr. a í lögunum kemur: endurskoðanda.
     b.      Í stað orðanna „varastjórnarmanna og skoðunarmanna (endurskoðenda)“ í 4. tölul. 5. gr. laganna kemur: varastjórnarmanna, endurskoðenda og skoðunarmanna.
     c.      Í stað orðanna „skoðunarmanna, endurskoðanda“ í 4. tölul. 1. mgr. 11. gr. laganna kemur: endurskoðenda, skoðunarmanna.
     d.      Í stað orðanna „stjórnar og skoðunarmanna (endurskoðanda)“ í c-lið 2. mgr. 21. gr. kemur: stjórnar, endurskoðenda og skoðunarmanna.
     e.      Í stað orðanna „stjórnar og skoðunarmanna“ í d-lið 2. mgr. 21. gr. laganna kemur: stjórnar, endurskoðenda og skoðunarmanna.
     f.      Í stað orðanna „stjórnarmanna og skoðunarmanna“ í 1. mgr. 35. gr. laganna kemur: stjórnarmanna, endurskoðenda og skoðunarmanna.
     g.      Í stað orðanna „löggilts endurskoðanda“ í 1. mgr. 47. gr. laganna kemur: endurskoðanda.
     h.      Í stað orðanna „skoðunarmönnum og endurskoðanda“ í 1. mgr. 55. gr. laganna kemur: endurskoðendum og skoðunarmönnum, og í stað orðanna „löggiltur endurskoðandi“ í sömu málsgrein kemur: endurskoðandi.
     i.      Í stað orðanna „löggilts endurskoðanda“ í 2. mgr. 62. gr. laganna, sem verður 62. gr. b, kemur: endurskoðanda.
     j.      Í stað orðanna „löggiltur endurskoðandi“ í 4. mgr. 62. gr. laganna, sem verður 62. gr. b, kemur: endurskoðandi.
     k.      Í stað orðanna „skoðunarmenn og endurskoðandi“ í 1. mgr. 74. gr. laganna kemur: endurskoðendur og skoðunarmenn.
     l.      Í stað orðanna „skoðunarmönnum og endurskoðanda“ í c-lið 1. mgr. 76. gr. laganna kemur: endurskoðendum og skoðunarmönnum.
     m.      Í stað orðanna „skoðunarmenn, endurskoðandi“ í 77. gr. laganna kemur: endurskoðendur, skoðunarmenn.

10. gr.

    Svohljóðandi breytingar verða á millivísunum í einstökum greinum laganna:
     a.      Í 56. gr. laganna: „92. gr.“ verður: 70. gr.
     b.      Í 57. gr. laganna: „87. gr.“ verður: 65. gr.
     c.      Í 59. gr. laganna: „78. gr. og 79. gr.“ verður: 56. og 57. gr.
     d.      Í 62. gr. laganna sem verður 62. gr. b: „83. gr.“ verður: 62. gr. a.
     e.      Í 64. gr. laganna: „83. gr.“ verður: 62. gr. a.
     f.      Í 65. gr. laganna: „86. gr.“ verður: 64. gr.
     g.      Í 67. gr. laganna: „86. gr.“ verður: 64. gr.
     h.      Í 69. gr. laganna: „89. gr.“ verður: 67. gr.
     a.      Í 70. gr. laganna: „93. gr.“ verður: 71. gr.
     j.      Í 75. gr. laganna: „96. gr.“ verður: 74. gr.
     k.      Í 76. gr. laganna: „97. gr.“ verður: 75. gr.
     l.      Í 79. gr. laganna: „100. gr.“ verður: 78. gr.

11. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Sértækt endurmat.

    Samvinnufélagi er heimilt að endurmeta séreignarhluti félagsaðila í A-deild stofnsjóðs þess fyrir árslok 2003. Endurmat þetta skal byggt á verðmæti hreinnar eignar félags í árslok 1996, samkvæmt lögum um ársreikninga, að teknu tilliti til opinberra gjalda, sem tengd eru því ári, og varasjóðs eða fjárfestingarsjóðs sem myndaður hefur verið samkvæmt eldri skattalögum og ekki verið leystur upp og tekjufærður fyrir þann tíma. Ákvæði 7. mgr. 61. gr. gildir um innbyrðis skiptingu félagsmanna.
    Ákvæði 4.–6. mgr. 38. gr. gilda um ákvörðun samkvæmt þessari grein.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Á vettvangi samvinnufélaga hefur að undanförnu farið fram mikil umræða um skipulagsþróun og framtíðarhæfni samvinnufélaganna. Þróun byggðar og atvinnurekstrar hefur sniðið samvinnufélögum þrengri stakk en áður og heimildir núgildandi laga til að afla fjármagns á markaði með útgáfu B-deildarhluta hefur ekki reynst samvinnufélögunum eins og ætlunin var. Nokkur samvinnufélög hafa þegar ákveðið að stofna hlutafélög um einstaka þætti í rekstri sínum til að bregðast við breyttum aðstæðum. Hafa Vinnumálasambandið og Samband íslenskra samvinnufélaga þrýst á það við stjórnvöld að þau taki lög um samvinnufélög til endurskoðunar með það í huga að færa samvinnufélögum auknar heimildir til þess að bregðast við þessum breyttu aðstæðum og auka samkeppnishæfni sína.
    Í ljósi þessarar umræðu skipaði viðskiptaráðherra nefnd til að gera tillögur að breytingum á lögum nr. 22/1991, um samvinnufélög, sem miðuðu að því að auka í lögum svigrúm til breytinga á rekstrarumgjörð samvinnufélaga. Nefndin var skipuð með bréfi, dags. 5. nóvember 1998. Í hana voru skipaðir Geir Geirsson, löggiltur endurskoðandi, Jóhannes Sigurðsson hæstaréttarlögmaður og Páll Gunnar Pálsson, þáverandi deildarstjóri viðskiptaráðuneytisins. Frumvarp þetta hefur að geyma tillögur nefndarinnar með nauðsynlegum breytingum vegna athugasemda fjármálaráðuneytisins, auk þess sem tækifærið hefur verið notað til að bæta við ákvæði um möguleika til slita á samvinnufélagi vegna vanskila á sendingu ársreikninga, leiðrétta millivísanir í lagagreinum og taka upp aðgreiningu laga um ársreikninga í endurskoðendur og skoðunarmenn.
    Vissar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu frá því sem var á síðasta þingi svo sem nánar verður gerð grein fyrir. Nefna má í því sambandi að breytt er ákvæðum um samþykki eigenda hlutafjár í B-deild vegna ákvarðana um hækkun hlutafjár, lækkun hlutafjár og breytingu samvinnufélags í hlutafélag. Auk þess hefur af hálfu ráðuneytisins verið bætt við í 3. gr. frumvarpsins heimild til handa samvinnufélögum til að kveða á um í samþykktum að útborgun á séreignarhlutum samkvæmt 1.–3. mgr. 38. gr. laganna um samvinnufélög skuli afhent félagsmönnum með samvinnuhlutabréfum í B-deild stofnsjóðs félagsins eða skuldabréfum en á þetta gæti t.d. reynt ef félagsmaður hættir þátttöku vegna aldurs.
    Kveðið er á um starfsemi samvinnufélaga með sérstökum lögum, nr. 22/1991, um samvinnufélög, með síðari breytingum. Lögin fólu í sér endurskoðun á fyrri löggjöf um samvinnufélög sem var að stofni til frá árinu 1921. Nýju lögunum var ætlað að treysta starfsgrundvöll samvinnufélaga. Meðal annars var kveðið á um heimild til útgáfu og sölu á svokölluðum B-deildarhlutum en með þeirri heimild var ætlunin að laða að aukið fjármagn sem lyti sambærilegum lögmálum og eignarhlutur í hlutafélagi. Nokkur samvinnufélög hafa nýtt sér þessa heimild en bréfin hafa ekki náð að vinna sér sess á markaði og hafa því ekki reynst samvinnufélögunum það tæki sem ætlunin var.
    Einn vandi samvinnufélaga er að ekki hefur tekist að viðhalda eða byggja upp eigendavitund á meðal félagsmanna sem talin er nauðsynlegur bakhjarl í rekstri fyrirtækja. Stofnsjóðir samvinnufélaga hafa rýrnað þannig að varla er lengur um að ræða raunverulegt eða eiginlegt eigendafjármagn í þessum fyrirtækjum. Aðeins brot af eigin fé félaganna er beint tengt félagsmönnum og eigendavitund skortir því. Árið 1996 var eigið fé kaupfélaganna um 30% af eignum en stofnsjóður að jafnaði aðeins um 3% af eignunum. Af þessu leiðir að ekki er unnt að leggja viðskiptalegt mat á fyrirtækin, en það er forsenda skipulagsþróunar, m.a. samruna og sérgreiningar, og félagsaðilar hafa almennt ekki skýra og beina hagsmuni af arði eða batnandi afkomu fyrirtækjanna. Markmið frumvarpsins er að leita leiða til að ná fram sanngjarnri leiðréttingu á fjárhagslegri aðild félagsmanna að viðkomandi félagi. Eitt einkenna samvinnufélaga er eignaraðild félagsmanna og þátttaka í arðsemi félagsins í tengslum við viðskipti sem félagsmenn eiga við félagið. Fyrrgreind þróun hefur leitt til þess að hlutur þeirra hefur ekki vaxið í takt við eignir félagsins.
    Til þess að bregðast við þessu hefur verið bent á að nauðsynlegt sé að auka heimildir samvinnufélaga til að gera breytingar á stofnsjóði til lækkunar eða hækkunar og jafnframt að gera þurfi breytingar á skattalögum til að gera þetta kleift, m.a. þannig að hækkun séreignarhluta félagsaðila teljist ekki til skattskyldra tekna. Með þessu er ekki litið svo á að verið sé að greiða félagsmönnum í samvinnufélögum eignir sem þeir eiga ekki tilkall til, enda félagsmenn einir sem í raun eiga tilkall til eigna félagsins samkvæmt núgildandi lögum. Enn fremur hefur verið bent á að eðlilegt sé að heimila samvinnufélögum að gera breytingar á rekstrarformi sínu og reka samvinnufélag í formi hlutafélags. Vakin hefur verið athygli á því í þessu sambandi að víða um lönd, þar sem samvinnufélög hafa starfað, gilda ekki um þau sérstök lög og má í því efni nefna Danmörku. Þar er rekstur samvinnufélaga ekki bundinn við tiltekið rekstrarform heldur er heimilt að velja um mismunandi form sem samsvara ýmist íslensku sameignarfélagi eða hlutafélagi. Mörg samvinnufyrirtæki Dana eru rekin í formi hlutafélaga, með samvinnueinkenni sem ákvörðuð eru í samþykktum fyrirtækjanna.
    Á grundvelli núgildandi hlutafélagalaga er unnt að varðveita ýmis þau einkenni sem samvinnufélög hafa. Má þar nefna eftirfarandi atriði:
          Í tilgangsákvæði samþykkta hlutafélags er unnt að setja félaginu starfsramma. Slíkt ákvæði gæti geymt svipuð markmið og núverandi samvinnufélög starfa eftir.
          Samkvæmt hlutafélagalögum er heimilt að mæla fyrir um að hlutir í hlutafélögum hafi mismunandi atkvæðisrétt og er raunar heimilt að hafa hluti í félaginu án atkvæðisréttar. Þannig væri unnt að láta hluti í einum flokki hafa atkvæðisrétt en hluti í öðrum vera án atkvæðisréttar.
          Þá má með flokkaskiptingu hluta mæla fyrir um mismunandi rétt til arðgreiðslna, úthlutun við slit o.fl. Þannig mætti ná fram svipaðri niðurstöðu og gildir nú um forgangsréttindi B-hluta í samvinnufélögum.
    Með þessum ákvæðum og ýmsum öðrum heimildum hlutafélagalaga, t.d. um innlausnarrétt að hlutum, er unnt að skipuleggja hlutafélag með þeim hætti að það hafi mörg einkenni samvinnufélaga.
    Með hliðsjón af framansögðu er frumvarp þetta samið. Markmið þess er að auka möguleika samvinnufélaga til þess að bregðast við breyttum aðstæðum.
    Rétt er að leggja áherslu á að ekki er með frumvarpinu gert ráð fyrir lögþvinguðum breytingum á rekstri einstakra samvinnufélaga heldur bent á færar leiðir sem opnar eru félagsmönnum til frjálsrar ákvörðunar. Í frumvarpinu er enn fremur mælt fyrir um hvernig staðið skuli að breytingum, hvernig ákvarðanir skuli teknar og hver réttindi einstakra aðila skuli vera.
    Meginefni frumvarpsins er eftirfarandi:
          Heimilað verði að hækka séreignarhluti félagsaðila til þess að stofnsjóðir samvinnufélags endurspegli betur eigið fé félags. Kveðið er á um hvernig að slíkri hækkun verði staðið.
          Heimilað verði að lækka A-deild eða B-deild stofnsjóðs samvinnufélags. Heimildinni er m.a. ætlað að opna fyrir möguleika til að greiða til félagsaðila og eigenda hluta í B- deild hluti þeirra í stofnsjóði ef ástæða þykir til, t.d. vegna þess að félagið hafi selt hluta af starfsemi sinni og hafi því ekki þörf fyrir það fjármagn sem er til í félaginu.
          Heimilað verði að breyta samvinnufélagi í hlutafélag. Kveðið er á um hvernig að breytingunni verði staðið, m.a. hvernig ákvörðun um breytinguna verði tekin. Þá er sérstaklega kveðið á um réttindi stofnsjóðsaðila sem lýst hafa sig andvíga breytingunum.
    Frumvarpi þessu fylgir jafnframt frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á skattalögum er m.a. fela í sér að hlutabréf, sem félagsaðilar eða eigendur samvinnuhlutabréfa í B-deild fá sem gagngjald fyrir séreignarhlut eða samvinnuhlutabréf, skuli ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur. Einnig er kveðið á um að hækkun séreignarhluta félagsaðila teljist ekki til skattskyldra tekna og hvernig reikna skuli kaupverð hlutabréfa sem aðili hefur eignast við breytingu á samvinnufélagi í hlutafélag.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með þessari breytingu á 3. gr. laganna er verið að gera þeim samvinnufélögum, sem hafa orðið kaupfélag óstytt í nafni sínu, kleift að halda því orði, skrifuðu fullum fetum, í nafni hlutafélags eftir breytingu samvinnufélagsins í hlutafélag skv. XII. kafla og varðveita þannig hugsanlega viðskiptavild er tengist starfsemi viðkomandi kaupfélags. Skammstöfunina kf. mætti samkvæmt þessu ekki nota eftir breytinguna.

Um 2. gr.

    Í þessari grein er tilvísun í lagagrein umskrifuð.

Um 3. gr.


    Með þessari viðbót við 38. gr. samvinnufélagalaga er lagt til að unnt verði að hækka séreignarhluta félagsaðila í A-deild stofnsjóðs. Eins og áður hefur komið fram hafa stofnsjóðsinneignir félagsaðila rýrnað mjög í gegnum árin þar sem ávöxtun þeirra hefur um langt skeið verið mun lægri en verðbreytingar í þjóðfélaginu. Stofnsjóðsinneignir félagsmanna eru í dag einungis lítill hluti af eigin fé samvinnufélaga. Með þessari heimild er stefnt að því að skerpa eignarvitund félagsaðila þannig að hlutdeild þeirra í stofnsjóði endurspegli a.m.k. að einhverju marki eigið fé félagsins. Við ákvörðun á því hversu mikið megi hækka A-deild stofnsjóðs verður að hafa í huga að hækkunarheimildin takmarkast samkvæmt ákvæðum 54. gr. og jafnframt verður að gæta þess að jafnvægi sé á milli A-deildar og B-deildar í félaginu.
    Til þess að samþykkja breytingu af þessu tagi þarf samþykki aukins meiri hluta á félagsfundi ( 2/ 3 hlutar greiddra atkvæða). Jafnframt er kveðið á um að kynna skuli ákvörðunina fyrir hluthöfum í B-deild og geta þeir hafnað henni ef hluthafar sem fara með meiri hluta alls hlutafjár í deildinni greiða atkvæði gegn henni á fundi. Nær ákvörðunin þá ekki fram að ganga. Samkvæmt núgildandi lögum um samvinnufélög er einungis heimilt að greiða út stofnsjóðsinneignir við tilteknar aðstæður, t.d. við andlát félagsaðila, við 70 ára aldur og þegar félagsaðili flytur af starfssvæði félagsins. Til þess að tryggja að eigið fé samvinnufélags verði ekki greitt út úr því eftir hækkun séreignarhluta er mælt fyrir um það í ákvæðinu að heimilt sé að ákveða í samþykktum að hækkun á séreignarhlutum skuli afhent félagsmönnum með samvinnuhlutabréfum í B-deild stofnsjóðs félagsins. Sé sú heimild nýtt er hækkun í A- deild stofnsjóðs færð í B-deild og fá félagsaðilar hluti í B-deild, samvinnuhlutabréf, sem svara til hækkunarinnar. Það ræðst síðan af markaðsverði samvinnuhlutabréfanna hvert endurgjald félagsaðili fær fyrir hlut sinn í stofnsjóði ef hann ákveður að selja hlutinn. Hækkun samkvæmt ákvæðum þessarar greinar telst ekki raska réttarsambandi á milli félagsmanna og eigenda hluta í B-deild.
    Þá mælir ákvæðið fyrir um það að við ákvörðun um hækkun þurfi að taka ákvörðun um hvert eigi að vera skiptahlutfall milli hluta í A-deild og B-deild. Um þá ákvörðun gilda sömu reglur og lagt er til að gildi um breytingu á samvinnufélagi í hlutafélag, þ.e. að gerð er svokölluð sérfræðiskýrsla til þess að meta hvort skiptahlutfallið sé eðlilegt og sanngjarnt. Nánar verður vikið að þessari sérfræðiskýrslu í umfjöllun um breytingu á samvinnufélagi í hlutafélag.
    Eitt einkenna samvinnufélaganna er það jafnræði sem ríkja skal milli félagsmanna og m.a. endurspeglast í jöfnum atkvæðisrétti þeirra. Við hækkun stofnsjóðsins kann því að þykja eðlilegt að nokkuð af hækkuninni skiptist jafnt milli allra sem félagsréttindi hafa en að öðru leyti sé hækkunin reiknuð í takt við einstakar stofnsjóðsfjárhæðir og að teknu tilliti til þess hve lengi þær hafa staðið inni hjá félaginu. Ekki er hægt að kveða nákvæmlega á um hvernig innbyrðis skiptingu milli félagsaðila skuli háttað, þar sem aðstæður samvinnufélaga eru mismunandi. Meðal annars fer eftir atvikum hvaða gögn er hægt að leggja til grundvallar skiptingunni. Fela verður hverju einstöku félagi að móta rökstudda tillögu sem endurspegli eðlilega skiptingu með tilliti til sanngirnis og jafnræðis.
    Hér eru lögð til sams konar ákvæði og í 43. gr. laga um hlutafélög um hækkun hlutafjár af útgreiðanlegu eigin fé hlutafélags. Hjá samvinnufélögum hefur ekki verið heimilt að greiða út tekjuafgang nema í formi tillags í hlutfalli við viðskipti til stofnsjóðs og með því að vaxtareikna og verðbæta stofnsjóðinn af óskiptum hagnaði. Er því skilgreint í þessari grein af hvaða fjárhæðum endurmeta megi stofnsjóði félagsmanna og greiða þeim út í formi B-deildar samvinnuhlutabréfa. Slík arðsúthlutun hlutafélaga hefur ekki í för með sér skattlagningu hjá hlutaðeigandi fyrr en við endursölu hlutarins. Er lagt til að sama verði leyft hjá samvinnufélögum.
    Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sem mælir fyrir um breytingar á skattalögum af þessu tilefni, er kveðið á um í 2. gr. að hækkun séreignarhluta skv. 38. gr. laga um samvinnufélög (3. gr. frumvarps þessa) teljist til skattskyldra tekna hjá eigendum stofnsjóðs við endursölu samvinnuhlutabréfa sem þeim hafa verið afhent samkvæmt þessari grein, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt.
    Í lok 3. gr. frumvarpsins er bætt við nýrri málsgrein sem kveður á um að samvinnufélögum sé heimilt að ákveða í samþykktum sínum að útborgun á séreignarhlutum samkvæmt 1.–3. mgr. 38. gr. laganna um samvinnufélög skuli afhent félagsmönnum með samvinnuhlutabréfum í B-deild stofnsjóðs félagsins eða skuldabréfum. Þá skal tilgreina í samþykktunum frá hvaða tímamörkum slík ákvæði geti fyrst komið til framkvæmda. Hér undir getur fallið t.d. það tilvik er félagsmaður óskar eftir að fá greidda stofnsjóðseign er hann hefur náð 70 ára aldri enda þótt hann haldi áfram þátttöku í félaginu. Þótt ólíklegt kunni að teljast að heimild þessi verði nýtt þar eð stofnfé er oft mjög lítill hluti af eigin fé þykir rétt að veita samvinnufélögum þessa heimild sem kynni að verða notuð ef aðstæður væru öðruvísi. Ef félögin nýta heimildina þarf að taka afstöðu til þess frá hvaða tímamörkum slík ákvæði geti fyrst komið til framkvæmda enda kann að þykja eðlilegt að veita aðilum aðlögunartíma vegna nýrra reglna.

Um 4. gr.


    Með þessu ákvæði er lagt til að heimilað verði að lækka stofnsjóði í samvinnufélögum með svipuðum hætti og heimilt er með hlutafé í hlutafélögum. Markmiðið með þessari heimild er að gefa samvinnufélögum kost á að greiða út til félagsaðila eða eigenda hluta í B-deild fjármuni sem félagsmenn telja ekki ástæðu til þess að nýta í rekstri félagsins. Getur þetta t.d. átt við þegar samvinnufélag hefur selt hluta af starfsemi sinni og ekki þykir ástæða til þess að nýta þá fjármuni sem fengist hafa við slíka sölu til annars rekstur félagsins. Með þessari heimild væri samvinnufélagi einnig unnt að greiða félagsaðilum og eigendum hluta í B-deild út hlutafé í dótturfélagi sem samvinnufélag hefði stofnað um einhvern þátt í starfsemi sinni í þeim tilgangi að treysta eignarvitund þessara aðila gagnvart þeirri starfsemi. Þá væri unnt að nýta þessa heimild til þess að fella niður B-deild stofnsjóðs með því að greiða út alla hluti í B-deild.
    Reglunum um lækkun stofnsjóðs svipar mjög til þeirra reglna sem gilda um sambærilegar heimildir í hlutafélagalögum og má um skýringu þeirra vísa til athugasemda við þau ákvæði. Af þeirri ástæðu þykir ekki tilefni til þess að skýra þetta ákvæði út frekar.
    Lækkun samkvæmt ákvæðum þessarar greinar telst ekki raska réttarsambandi á milli félagsmanna og eigenda hluta í B-deild.

Um 5. gr.


     Um a-lið (61. gr.).
    Með nýju ákvæði 61. gr. er mælt fyrir um heimild til þess að breyta samvinnufélagi í hlutafélag samkvæmt lögum nr. 2/1995, um hlutafélög. Til þessara breytinga þarf samþykki sama fjölda félagsmanna og almennt þarf til breytinga á samþykktum félags og slita á því. Þá er einnig í 6. mgr. ákvæðisins mælt fyrir um að afla þurfi samþykkis eigenda 2/ 3 hluta í B- deild stofnsjóðs svo að slík ákvörðun verði gild. Eðlilegt er að gera kröfu um aukinn meiri hluta við þessar kringumstæður en ekki krefjast samþykkis allra. Þótt um mjög veigamikla breytingu sé að ræða á félaginu er félagið hins vegar áfram starfandi en lýtur nokkuð öðrum reglum um skipulag, stjórnun og fjárhagslega uppbyggingu. Breyting samkvæmt ákvæðum þessarar greinar telst ekki raska réttarsambandi á milli félagsmanna og eigenda hluta í B- deild.
    Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins er gert ráð fyrir að félagaskrá verði lokað þegar stjórn samvinnufélags hefur samþykkt tillögu um breytingu af þessum toga. Er þetta einkum gert með það í huga að fyrir liggi hverjir séu félagsmenn þegar félagsfundur tekur ákvörðun um breytingu og jafnframt til þess að hindra að nýir félagsmenn gangi í félagið til þess að afla sér hagsmuna sem verða til við þessa breytingu. Þá kemur ákvæðið í veg fyrir að greiddir séu út séreignarhlutar í A-deild sem yrðu hugsanlega mun meira virði við þessa breytingu. Til þess að tryggja að óvissuástand, sem óhjákvæmilega fylgir stjórnarákvörðun um tillögu til breytingar, standi ekki lengi er mælt fyrir um að félagsfund þurfi að halda innan mánaðar frá því að stjórn hefur tekið ákvörðun.
    Þegar stjórnin tekur ákvörðun þarf hún jafnframt að samþykkja áætlun um breytingu félagsins. Í áætluninni skal koma skýrlega fram hvort hlutafélagið skuli hafa einhver einkenni samvinnufélags að því er varðar rétt manna til inngöngu, atkvæðisrétt, arðgreiðslur og tengsl þeirra við viðskiptaþátttöku félagsmanns í félaginu, skilgreiningu á tilgangi og viðskiptaþátttöku í félaginu, rétt sem fylgi búsetu á félagssvæði eða öðrum skilgreiningum, réttindi við slit o.fl.
    Í áætluninni þarf stjórnin að skýra út ástæður fyrir tillögunni og setja fram röksemdir um kosti hennar og galla, svo og þær breytingar sem hún hefur í för með sér varðandi réttindi félagsaðila og eigenda hluta í B-deild. Í 3. mgr. ákvæðisins eru talin upp þau atriði sem ávallt þarf að fjalla um í áætluninni. Þessi atriði lúta einkum að réttindum félagsaðila, eigenda hluta í B-deild og trúnaðarmanna í hinu breytta félagsformi, svo og tímamörkum áætlunarinnar um það hvenær félagið telst breytt. Áður er rakið að með flokkaskiptingu á hlutafé í félagi er unnt að mæla fyrir um mismunandi atkvæðisrétt, arðsrétt og réttindi til úthlutunar við slit á félagi. Gera má ráð fyrir að í a.m.k. einhverjum tilvikum þyki félagsmönnum eðlilegt að halda einkennum samvinnufélags í hlutafélaginu með slíkum flokkaskiptingum. Ef í samvinnufélagi er starfandi B-deild þarf sérstaklega að fjalla um réttindi hluthafa í B-deild og skiptahlutfall á milli félagsaðila og eigenda hluta í B-deild. Mikilvægt er að tillaga um innbyrðis skiptingu hlutafjár milli félagsmanna sé vel rökstudd með tilliti til almennra sjónarmiða um jafnræði auk sjónarmiða um réttindi í samvinnufélagi.
    Með c-lið 3. mgr. er verið að leggja til að hlutafé hlutafélagsins við stofnun þess verði eingöngu endurmetinn stofnsjóður A-deildar og samvinnuhlutabréf B-deildar. Ekki er átt við að nafnverð hlutafjár verði að vera jafnt samanlögðum A-deildar stofnsjóði og B-deildar samvinnuhlutabréfum. Hlutabréfin er t.d. hægt að afhenda á yfirverði. Stofnverð bréfanna við endursölu verður engu að síður miðað við endurmetið verðmæti A-deildar stofnsjóðs og B-deildar.
    Þá er mælt fyrir um það að með áætluninni þurfi að fylgja tiltekin gögn. Markmiðið með gerð áætlunarinnar og framlagningu hennar og gagna er að tryggja félagsaðilum og eigendum hluta í B-deild fullnægjandi upplýsingar um tillöguna til þess að þeir geti mótað sér skoðun á því hvort samþykkja beri hana.
    Til þess að tryggja að hlutlaust álit liggi fyrir um það hvort ákvörðun stjórnar um hlut og réttindi félagsaðila og eigenda hluta í B-deild í hinu nýja félagi sé sanngjörn og efnislega rökstudd er gert ráð fyrir að útbúin sé sérfræðiskýrsla um þetta efni. Þannig er tryggt að hlutaðeigandi fái ekki einungis skoðanir og álit trúnaðarmanna félagsins á þessu mikilvæga málefni heldur einnig álit hlutlauss utanaðkomandi aðila. Styrkir þetta mjög framkvæmd breytinga af þessum toga. Um gerð sérfræðiskýrslunnar og hæfi manna til þess starfa gilda ákvæði hlutafélagalaga, nr. 2/1995. Í ákvæðinu er einnig tekið fram til hvaða þátta eigi helst að líta við ákvörðun á skiptahlutfalli en þau atriði eru ekki tæmandi þar sem þau félög, sem falla undir samvinnufélagalögin, eru mjög mismunandi að gerð. Þá er í ákvæðinu mælt fyrir um þau gögn sem fylgja eiga sérfræðiskýrslunni. Þegar kemur að því að breyta samvinnufélagi í hlutafélag eftir að endurmat hefur farið fram og yfirfærsla stofnsjóðs A-deildar og samvinnuhlutabréfa B-deildar félagsaðila í stað hlutabréfa í hlutafélaginu kemur til kasta sérfræðinganna að meta gagngjald þessara B-hluta og stofnsjóðs fyrir hlutabréf.
    Í ákvörðun um breytingu á samvinnufélagi í hlutafélag felst jafnframt venjulega ákvörðun um hækkun séreignarhluta félagsaðila í A-deild stofnsjóðs. Slík ákvörðun er þá hluti af ákvörðun um breytingu í hlutafélag. Hafi hins vegar verið tekin sjálfstæð ákvörðun um hækkun séreignarhluta félagsaðila skv. 3. gr. þessa frumvarps er síðari ákvörðun um breytingu á samvinnufélagi í hlutafélag tekin á grundvelli réttarstöðu félagsaðila í A- og B-deild við síðari ákvörðunina.
     Um b-lið (61. gr. a).
    Í nýrri 61. gr. a eru ákvæði sem ætlað er að tryggja réttindi þeirra aðila sem ekki vilja vera hluthafar í félagi eftir að samvinnufélagi hefur verið breytt í hlutafélag. Ákvæðum þessum, sem mæla fyrir um innlausnarrétt og rétt til skaðabóta, svipar til ákvæða hlutafélagalaga um minnihlutavernd við samruna hlutafélaga.
    Til þess að öðlast rétt til innlausnar verður félagsaðili að hafa sett fram þá kröfu á fundi, sem fjallar um ákvörðunina, og jafnframt að greiða atkvæði gegn tillögunni. Gert er ráð fyrir því að þeir félagsaðilar, sem nýta sér þennan rétt, fái í sinn hlut verðmæti hlutar eins og hann var í samvinnufélaginu en ekki það verðmæti sem þeir hefðu fengið í hlutafélaginu. Þykir þetta eðlilegt í ljósi þess að viðkomandi aðili vill ekki una því að öðlast þau réttindi sem aðrir fá í hlutafélaginu. Um eigendur hluta í B-deild gilda að nokkru frábrugðnar reglur sem taka mið af því að einkenni þeirrar aðildar að félagi eru nær því sem gerist um hluti í hlutafélagi.
    Ákvæðið í 3. mgr. um skaðabótarétt á einungis við ef aðili telur að brotið hafi verið á honum við ákvörðun á skiptahlutfalli milli A-deildar og B-deildar. Til þess að öðlast rétt á skaðabótum verða aðilar að sanna að skiptahlutfallið hafi verið ósanngjarnt og ekki efnislega rökstutt.
    Um þessi ákvæði vísast að öðru leyti til athugasemda við sambærileg ákvæði í frumvarpi til laga um hlutafélög.
     Um c-lið (61. gr. b).
    Í nýju ákvæði sem yrði 61. gr. b er skilgreint með nánari hætti hvenær samvinnufélaginu telst slitið og hvenær hlutafélagið telst stofnað. Uppfylla þarf þrjú skilyrði áður en endanleg breyting verður, þ.e. samþykkt áætlunar bæði á félagsfundi og fundi eigenda í B-deild, að kosningu trúnaðarmanna sé lokið og að kröfur vegna minnihlutaverndar skv. 61. gr. a hafi verið útkljáðar eða a.m.k. sett trygging fyrir slíkum kröfum.
    Þar sem samvinnufélagið öðlast í raun nýtt líf í hlutafélagaforminu mælir ákvæðið fyrir um að öll réttindi og skyldur samvinnufélagsins renni til hlutafélagsins án þess að til sérstakra viðbótargerninga komi.
    Þá þarf að tilkynna um breytinguna til samvinnufélagaskrár og hlutafélagaskrár.

Um 6. gr.


    Þar eð ný ákvæði koma inn í samvinnufélagalögin samkvæmt frumvarpi þessu er lagt til að númeraröð gildandi 61. og 62. gr. í samvinnufélagalögum breytist í samræmi við þessa og næstu grein. Númeraröð greina í lögunum helst óbreytt að öðru leyti. Þá er í greininni lagt til að sambærileg heimild verði til slita á samvinnufélögum og á hluta- og einkahlutafélögum ef ársreikningar eru ekki sendir stjórnvöldum eins og kveðið er á um í lögum um ársreikninga.

Um 7. og 8. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 9. gr.


    Í greininni er gerð tillaga um notkun hugtakanna endurskoðandi og skoðunarmaður með sama hætti og gert er í lögum um ársreikninga. Hugtakið endurskoðandi var áður víðtækara og tók bæði til löggiltra endurskoðenda (nú endurskoðenda) og annarra endurskoðenda (nú skoðunarmanna).

Um 10. gr.


    Í greininni er gerð tillaga um að leiðrétta millivísanir í lagagreinum vegna fyrri breytinga á lögunum.

Um 11. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Í ákvæði til bráðabirgða er lagt til að heimilað verði sértækt endurmat sem er frábrugðið endurmati sem lagt er til í 3. gr. frumvarpsins. Endurmat þetta verður að fara fram fyrir árslok 2003 ef félagið vill nota sér heimildina. Þessi tillaga sækir að nokkru fyrirmynd sína til heimildar hlutafélaga og einkahlutafélaga til að gefa út jöfnunarhlutabréf og reikna út jöfnunarverðmæti útgefinna hluta og hlutabréfa í árslok 1996. En vegna eðlis samvinnufélaga var ekki horft til endurmats ársins 1978, eins og hjá hlutafélögum og einkahlutafélögum, og hlutfallslegri hækkun frá því mati á raunverulegu verðmæti hreinnar eignar félagsins í árslok 1996 sem takmarkast við almennar verðhækkanir sama tímabils. Langt er um liðið og því gæti verið vandkvæðum bundið að fá upplýsingar frá þeim tíma og reikna út hliðstætt endurmat fyrir samvinnufélög.
    Gert er ráð fyrir að sams konar reglur gildi um ráðstöfun hækkunarinnar í B-deild stofnsjóðs og skiptahlutfalls milli félagsaðila og fram koma í 3. gr. frumvarpsins. Samvinnufélögin eru mörg hver gömul félög, þau elstu hafa starfað í meira en eina öld, og núverandi félagsmenn eiga sumir stofnsjóðsinnstæður sem myndast hafa á löngum tíma, e.t.v. 60–70 árum. Stofnsjóðurinn er ekki fastur fjárstofn, líkt og hlutaféð, heldur breytist hann fyrir áhrif tilfallandi innborgana, svo sem þegar tekjuafgangur eða arður er greiddur í stofnsjóð í hlutfalli við viðskipti viðkomandi. Reiknaðir vextir hafa einnig einhver áhrif en yfirleitt hafa þeir verið lágir, svo sem rýrnun innstæðnanna gefur til kynna. Ekki eru gefin út skírteini um innstæðuna eins og gert er í hlutafélögum með útgáfu hlutabréfa heldur haldið utan um þær í bókhaldi samvinnufélagsins. Um geymslutíma fylgiskjala og reikninga gilda þá ákvæði bókhaldslaga þannig að í sumum tilvikum kann að verða erfitt að rekja nákvæmlega gamlar hreyfingar reikninga. Nokkur vandkvæði eru því fyrirsjáanleg á því að reikna út með mikilli nákvæmni framreiknað verðmæti einstakra stofnsjóðsinnstæðna. Því er ekki talið mögulegt að gera að skilyrði fyrir hækkuninni að allar innborganir hvers félagsmanns framreiknist frá raunverulegum innborgunardegi.
    Hér er eins og með breytingu á 38. gr. laganna um grundvallarbreytingu að ræða hjá samvinnufélögum um endurmat stofnsjóðs og afhendingu hækkunar í formi B-deildar samvinnuhlutabréfa til frjálsrar meðferðar hjá félagsaðilum og því rétt að ákvæði um það sé í lögum um samvinnufélög. Gert er ráð fyrir því að ákvæði verði í lögum um tekju- og eignarskatt um skattfrelsi afhendingarinnar til félagsaðila og jafnframt að verðmæti þannig metins stofnsjóðs félagsins verði jafnframt stofnverð B-deildar samvinnuhlutabréfanna og þannig stofnverð nýrra hlutabréfa ef samvinnufélagi verður breytt í hlutafélag.
Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 22/1991,
um samvinnufélög, með síðari breytingum (rekstrarumgjörð).

    Tilgangurinn með frumvarpinu er að auðvelda breytingu samvinnufélaga í hlutafélög og heimila að stofnsjóðseignir félagsmanna endurspegli betur eigið fé félaganna.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.