Ferill 284. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 752  — 284. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um eftirlit með útlendingum, nr. 45 12. maí 1965.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Bogason og Ólaf W. Stefánsson frá dómsmálaráðuneyti, Högna S. Kristjánsson frá utanríkisráðuneyti, Georg Kr. Lárusson frá Útlendingaeftirliti, Ragnar Aðalsteinsson og Bjarneyju Friðriksdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands og Jóhönnu K. Eyjólfsdóttur frá Íslandsdeild Amnesty International.
    Þá bárust umsagnir frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, ríkislögreglustjóra, lögreglustjóranum í Reykjavík, Alþýðusambandi Íslands og Útlendingaeftirlitinu.
    Þær breytingar sem gerðar eru í frumvarpinu eru tilkomnar vegna þátttöku Íslands í samstarfi á grundvelli Dyflinnarsamningsins frá 15. júní 1990 en það samstarf er forsenda fyrir aðild Íslands að Schengen-samstarfinu. Auk frumvarpsins hefur nú verið lögð fyrir Alþingi þingsályktunartillaga þar sem leitað er heimildar þingsins til fullgildingar samnings milli Evrópubandalagsins og lýðveldisins Íslands og konungsríkisins Noregs um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Samningurinn tekur á stofnanalegum þáttum samstarfs Íslands og Noregs við ESB á sviði Dyflinnarsamningsins. Hann felur í sér að ríkin tvö taki yfir og hrindi í framkvæmd öllum ákvæðum Dyflinnarsamningsins utan 16.–22. gr. en þau ákvæði fjalla einvörðungu um stofnanaleg atriði er varða samskipti aðildarríkja ESB.
    Dyflinnarsamningurinn hefur að geyma reglur um hvaða ríki beri ábyrgð á umfjöllun um beiðni um hæli sem lögð er fram í einhverju aðildarríkja Evrópubandalaganna. Er samningnum ætlað að bæta réttarstöðu þeirra sem sækja um hæli á samningssvæðinu með því að tryggja að umsóknir þeirra hljóti meðferð í einu aðildarríkjanna en verði ekki vísað milli aðildarríkjanna án þess að nokkurt þeirra telji sig bera ábyrgð á meðferð umsóknanna. Hann kemur þó ekki í veg fyrir að hvert aðildarríki geti tekið umsókn til meðferðar ef samþykki umsækjanda liggur fyrir, þótt því sé það ekki skylt.
    Breytingarnar eru eingöngu gerðar til samræmis við meginefni Dyflinnarsamningsins og hreyfa á engan veg við þeim reglum sem gilt hafa um rétt manna til að fá hæli hér á landi. Þá er með frumvarpinu bætt við heimild til að miðla til erlendra stjórnvalda þeim upplýsingum um útlendinga sem veita ber samkvæmt samningnum.
    Leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Jónína Bjartmarz var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 20. febr. 2001.



Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


form., frsm.


Ásta Möller.


Hjálmar Jónsson.



Katrín Fjeldsted.


Ólafur Örn Haraldsson.