Ferill 523. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 819  —  523. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    Við 8. mgr. 62. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja reglur um jöfnuð verðtryggðra eigna og skulda viðskiptabanka og sparisjóða.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi til laga um vexti og verðtryggingu, sem flutt er samhliða þessu frumvarpi, er lagt til að heimild Fjármálaeftirlitsins til að setja reglur um jöfnuð verðtryggðra eigna og skulda verði felld út úr vaxtalögum en sett þess í stað í lög um viðskiptabanka og sparisjóði. Þykir fara betur á því að þetta varúðarákvæði, sem lýtur að áhættu viðskiptabanka og sparisjóða, sé í þeim lögum. Reglur sem Fjármálaeftirlitið setur með stoð í þessu ákvæði gilda jafnframt um aðrar lánastofnanir, sbr. 11. gr. laga nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 113/1996,
um viðskiptabanka og sparisjóði, með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins er að heimila Fjármálaeftirlitinu að setja reglur um jöfnuð verðtryggðra eigna og skulda viðskiptabanka og sparisjóða og kemur í stað svipaðs ákvæðis sem fellt var úr vaxtalögum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki séð að það hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.