Ferill 481. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 942  —  481. mál.




Nefndarálit


um frv. til l. um breyt. á l. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Ögmund Þormóðsson frá viðskiptaráðuneyti, Ólaf Pál Gunnarsson frá fjármálaráðuneyti, Guðmund Guðbjarnason frá ríkisskattstjóra, Pál Gunnar Pálsson og Ragnar Hafliðason frá Fjármálaeftirlitinu, Birgi Ármannsson frá Verslunarráði Íslands, Jóhannes Sigurðsson hrl. og Geir Geirsson, löggiltan endurskoðanda. Þá bárust umsagnir um málið frá Fjármálaeftirlitinu, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, ríkisskattstjóra, Kaupfélagi Skagfirðinga, Verslunarráði Íslands og Félagi löggiltra endurskoðenda.
    Frumvarpið er endurflutt lítillega breytt frá 125. löggjafarþingi, en þá varð það ekki útrætt. Því er ætlað að laga ákvæði laga um tekjuskatt og eignarskatt að breytingum á lögum um samvinnufélög sem lagðar eru til í frumvarpi sem snýr að rekstrarumgjörð samvinnufélaga, 448. máli. Frumvarpið gerir ráð fyrir skattfrelsi við hækkun stofnsjóðs samvinnufélaga þannig að við hækkunina sem slíka stofnast ekki skattskylda, þó svo að síðar kunni að koma til skattlagningar við eigendaskipti. Þessi breyting er gerð til að samræma ákvæði um samvinnufélög núgildandi ákvæðum skattalaga um skattfrjálsa útgáfu jöfnunarhlutabréfa og er liður í því að bæta rekstrarumhverfi samvinnufélaga.
    Meiri hlutinn leggur til breytingu við frumvarpið þess efnis að tekið verði skýrt fram í 1. gr. að samvinnuhlutabréf sem félagsaðilum í samvinnufélagi eru afhent við hækkun séreignarhluta í því teljist ekki til arðs og séu því skattfrjáls. Þá er gerð tillaga um orðalagsbreytingu í 4. gr. til samræmis við önnur ákvæði 1. mgr. 56. gr. A laga um tekjuskatt og eignarskatt.
    Meiri hluti nefndarinnar mælir með því að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Kristinn H. Gunnarsson og Ögmundur Jónasson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 20. mars 2001.


Vilhjálmur Egilsson,

form., frsm.

Einar K. Guðfinnsson.

Sigríður A. Þórðardóttir.


Gunnar Birgisson.

Hjálmar Árnason.