Ferill 631. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1008  —  631. mál.




Beiðni um skýrslu



frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um umfang og rekstrarkostnað heilbrigðisþjónustunnar að undanskildum lyfjakostnaði á árunum 1990–2001.

Frá Bryndísi Hlöðversdóttur, Ástu R. Jóhannesdóttur, Einari Má Sigurðarsyni,


Gísla S. Einarssyni, Guðmundi Árna Stefánssyni, Guðrúnu Ögmundsdóttur,
Jóhanni Ársælssyni, Karli V. Matthíassyni, Kristjáni L. Möller,
Lúðvík Bergvinssyni, Margréti Frímannsdóttur, Merði Árnasyni,
Rannveigu Guðmundsdóttur, Sigríði Jóhannesdóttur, Svanfríði Jónasdóttur,
Þórunni Sveinbjarnardóttur og Össuri Skarphéðinssyni.


    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um umfang og rekstrarkostnað heilbrigðisþjónustunnar að undanskildum lyfjakostnaði á árunum 1990–2001.
    Óskað er eftir upplýsingum um eftirtalin atriði:
     1.      Hvaða breytingar hafa orðið á rekstrarformi heilbrigðisstofnana og viðfangsefnum í heilbrigðisþjónustu á árunum 1990–2001? Í hvaða tilvikum hefur rekstur verið að færast frá opinberum rekstri yfir í einkarekstur á tímabilinu? Hvaða ný viðfangsefni hafa einkarekin fyrirtæki tekið að sér með kostnaðarþátttöku ríkisins á tímabilinu? Hver hefur þróun útgjalda ríkisins vegna heilbrigðisþjónustu verið samhliða þessum breytingum sem hlutfall af þjóðarútgjöldum? Í hvaða tilvikum er starfsfólk í opinberum heilbrigðisstofnunum líka í einkarekstri? Hversu margt er það starfsfólk? Leggja opinberar heilbrigðisstofnanir til aðstöðu fyrir slíkan rekstur, þ.e. húsnæði, tæki eða starfsfólk, og ef svo er, hvernig er gjaldtöku fyrir slíka aðstöðu háttað? Svör við öllum spurningunum óskast sundurliðuð eftir eftirfarandi rekstrareiningum:
                  a.      sjúkrahúsum,
                  b.      hjúkrunar- og dvalarheimilum,
                  c.      sjálfstætt starfandi læknastofum,
                  d.      rannsóknarstofum,
                  e.      heilsugæslu.
     2.      Hvernig hefur þróunin verið á notkun þjónustunnar á árunum 1990–2001?
                  a.      Hvernig hefur fjöldi heimsókna til sjálfstætt starfandi sérfræðinga þróast á tímabilinu?
                  b.      Hvernig hafa komur í heilsugæslu þróast á tímabilinu?
                  c.      Hvernig hefur fjöldi aðgerða í einkageira þróast, greint á sérgreinar?
                  d.      Hvernig hefur fjöldi rannsókna þróast, greint á sérgreinar?
                  e.      Hvernig hefur fjöldi aðgerða á sjúkrahúsum þróast, greint á sérgreinar?
                  f.      Hvernig hefur fjöldi innlagna á sjúkrahúsin þróast á tímabilinu, greint á sérgreinar, annars vegar á stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík (Landspítali – háskólasjúkrahús) og hins vegar á öðrum sjúkrahúsum?
                  g.      Hvernig hefur fjöldi heimsókna á göngudeildir stóru sjúkrahúsanna þróast?
                  h.      Hvernig hefur fjöldi ferliverka þróast á tímabilinu, á sjúkrahúsum, á læknastofum og þeirra sem unnin eru af sjálfstætt starfandi sérfræðingum á sjúkrahúsum?
     3.      Hvernig hefur fjöldi koma á slysa- og bráðamóttökur þróast á tímabilinu 1990–2001? Hvernig hefur fjöldi innlagna á lyflæknisdeildir breyst á sama tímabili?
     4.      Hvernig hefur aldurssamsetning innlagna á sjúkrahúsum þróast á tímabilinu 1990–2001? Hvernig hefur aldurssamsetning þjóðarinnar þróast á sama tíma? Hefur hjúkrunarþyngd verið að breytast á tímabilinu? Ef svo er, þá hvernig?
     5.      Hvernig er aldurssamsetningu þeirra sem farið hafa í aðgerðir á árunum 1990–2001 háttað, flokkað eftir sérgreinum:
                  a.      inni á sjúkrahúsum,
                  b.      á sjálfstætt starfandi læknastofum,
                  c.      á rannsóknarstofum?
     6.      Hver er stefnumótun heilbrigðisráðuneytisins um frekari einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, einkum í sjúkrahúsþjónustu? Hvernig sér ráðuneytið stöðu Landspítala – háskólasjúkrahúss í þeirri stefnumótun?
     7.      Hvernig er samningum um kaup og kjör lækna háttað og hver fer með samningsumboð fyrir hönd heilbrigðisstofnana og Tryggingastofnunar? Hefur verið íhugað að hafa samningsumboð við alla lækna á einni hendi? Hvað kemur í veg fyrir að það sé gert?
     8.      Hvernig er uppbyggingu á launagreiðslum til lækna háttað fyrir þá þjónustu sem þeir veita? Óskað er eftir upplýsingum um það í hvaða tilvikum er um fastlaunagreiðslur að ræða, greiðslur fyrir einingar/læknisverk, hlunnindi o.s.frv.:
                  a.      á sjúkrahúsum,
                  b.      á sjálfstætt starfandi læknastofum,
                  c.      í heilsugæslu,
                  d.      á rannsóknarstofum.
     9.      Hvernig hefur þróunin verið í kaupum Tryggingastofnunar ríkisins á læknisþjónustu á árunum 1990–2001? Hversu stór hluti rekstarkostnaðar heilbrigðiskerfisins hefur þessi þáttur verið á sama tíma og hversu hátt hlutfall af þjóðarútgjöldum? Óskað er eftir að svar sé flokkað eftir sérgreinum.
     10.      Hvernig hefur þróun útgjalda til sjúkrahúsanna verið á tímabilinu 1990–2001, sem hlutfall af rekstrarkostnaði heilbrigðiskerfisins annars vegar og sem hlutfall af þjóðarútgjöldum hins vegar:
                  a.      stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík (Landspítala – háskólasjúkrahúss),
                  b.      Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri,
                  c.      annarra sjúkrahúsa á landsbyggðinni?
     11.      Hvaða samanburðarrannsóknir hafa verið gerðar á starfsemi og hlutverki sjúkrahúsa hér á landi og hyggst ráðherra endurskipuleggja hlutverk sjúkrahúsa á grundvelli slíkra rannsókna?
     12.      Hvernig hafa útgjöld til heilsugæslu þróast á tímabilinu 1990–2001 sem hlufall af rekstrarkostnaði heilbrigðiskerfisins í heild annars vegar og sem hlutfall af þjóðarútgjöldum hins vegar?
     13.      Hefur verið lögð í það einhver vinna af hálfu heilbrigðisyfirvalda að auka upplýsingaflæði („heilsunet“) innan heilbrigðiskerfisins? Hafa kröfur um virkt upplýsingaflæði til heilsugæslunnar verið settar sem skilyrði fyrir rekstri einkarekinnar/opinberrar heilbrigðisþjónustu? Hafa einhver önnur skilyrði verið sett fyrir rekstrarleyfi til slíkrar þjónustu?
     14.      Hefur verið lögð í það einhver vinna af hálfu heilbrigðisyfirvalda að auka samvinnu á milli frumheilsugæslu og sérfræðisþjónustu á borð við það sem reynt hefur verið annars staðar á Norðurlöndunum (Praksiskonsulentordningen)? Hefur Ísland tekið þátt í samnorrænum samstarfshópi um slíka samvinnu? Hafa aðrar leiðir verið reyndar á árunum 1990–2001 til aukinnar samnýtingar og samræmingar þeirrar þjónustu sem heilbrigðiskerfið hefur upp á að bjóða, og ef svo er, hverjar? Hefur náðst mælanlegur árangur í forgangsröðun heilbrigðisþjónustu á tímabilinu?
     15.      Hver er rekstrarkostnaður opinberrar heilsugæslu á tímabilinu (annars vegar sem hlutfall af útgjöldum ríkisins til heilbrigðiskerfisins og hins vegar sem hlutfall af þjóðarútgjöldum) og hvernig hafa útgjöld ríkisins vegna einkarekinnar heilsugæslu þróast á sama tíma (sem hlutfall af útgjöldum ríkisins til heilbrigðiskerfisins og sem hlutfall af þjóðarútgjöldum)?
     16.      Hvernig hefur fjármögnun heilbrigðisþjónustu verið háttað á tímabilinu 1990–2001? Hafa verði lögð drög að því að gera breytingar á fjármögnunarkerfinu? Ef svo er, hver og á hvaða stigi er sú vinna?