Ferill 524. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1092  —  524. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um rafrænar undirskriftir.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jónínu S. Lárusdóttur og Benedikt Árnason frá viðskiptaráðuneyti, Steven McDonnel frá VeriSign í London, Jóhann Kristjánsson, Sigurð Másson, Eirík Sæmundsson og Helga A. Nielsen frá Skýrr, Ársæl Þorsteinsson frá Löggildingarstofu, Birgi Ármannsson frá Verslunarráði, Sigrúnu Jóhannesdóttur og Hörð H. Helgason frá Persónuvernd, Skarphéðin Steinarsson og Ágúst Þór Jónsson frá ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur, Þórð Skúlason og Guðmund Tómasson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Karl Fr. Garðarsson frá tollstjóranum í Reykjavík, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Björk Sigurgísladóttur frá Neytendasamtökunum, Jón Steindór Valdimarsson frá Samtökum iðnaðarins og Stefán Jón Friðriksson frá Icepro, nefnd um rafræn viðskipti. Þá bárust umsagnir um málið frá Verslunarráði Íslands, tollstjóranum í Reykjavík, Icepro, nefnd um rafræn viðskipti, Neytendasamtökunum, Persónuvernd, Samtökum iðnaðarins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Skýrr hf., Auðkenni hf., Löggildingarstofu og Seðlabanka Íslands. Nefndinni bárust einnig gögn frá viðskiptaráðuneytinu.
    Í frumvarpinu er kveðið á um rafrænar undirskriftir og réttaráhrif þeirra, auk þess sem settar eru reglur um vottunaraðila slíkra undirskrifta og eftirlit með þeim. Ákvæðum frumvarpsins er ætlað að stuðla að öryggi í rafrænum viðskiptum og öðrum samskiptum í opnum kerfum, svo sem á netinu. Frumvarpið er lagt fram með hliðsjón af tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/93/EB frá 13. desember 1999 um ramma bandalagsins varðandi rafrænar undirskriftir til að fullnægja skyldum Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Með rafrænni undirskrift er átt við rafræn gögn sem koma út úr brenglunarferli sem felur í sér tætingu gagna og síðan dulritun þeirra. Sá sem sendir gögn með rafrænum hætti þarf að nota sérstakan dulritunarlykil til að dulrita gögnin og móttakandi gagnanna þarf síðan að dulráða þau með öðrum dulritunarlykli. Dulritunarlyklarnir geta því m.a. tryggt að einungis réttir móttakendur gagna geti fengið aðgang að þeim.
    Með setningu laga um rafrænar undirskriftir er stefnt að því að skapa nauðsynlegt öryggi í rafrænum viðskiptum. Þær kröfur sem gerðar eru í frumvarpinu miða allar að því að þetta öryggi verði sem mest, en frumvarpið fjallar að meginefni aðeins um fullgildar rafrænar undirskriftir, þ.e. þær sem fullnægja ströngum öryggiskröfum, og þjónustu sem þeim tengist. Nefndin lítur svo á að með frumvarpinu sé stuðlað að aukinni útbreiðslu rafrænna viðskipta og þar með auknu hagræði fyrir neytendur, fyrirtæki og stofnanir.
    Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
    1.    Lögð er til breyting á 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins til að gera orðalag hennar almennara og koma í veg fyrir misskilning.

          2.      Lagt er til að ákvæði 2. mgr. 18. gr. um eftirlitsgjald verði breytt, en við meðferð málsins í nefndinni var það mikið til umræðu. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að 200 kr. gjald skuli greitt til Löggildingarstofu vegna hvers fullgilds vottorðs og að eftirlitsgjald sem vottunaraðili greiði skuli aldrei vera lægra en 1.000.000 kr. á ári. Nefndin bendir m.a. á að gjald sem miðast við fjölda útgefinna vottorða er ekki til þess fallið að stuðla að útbreiðslu vottorða og notkun þeirra. Með hliðsjón af þessu leggur nefndin til að gjaldið miðist eingöngu við hina föstu fjárhæð á ári og að fellt verði brott ákvæði um 200 kr. gjald vegna hvers útgefins vottorðs. Jafnframt leggur nefndin til smávægilegar orðalagsbreytingar á greininni.
          3.      Lagt er til að röð 18. og 19. gr. frumvarpsins verði breytt, þannig að 19. gr. verði 18. gr. og öfugt. Þetta stafar af því að í 18. gr. er fjallað um eftirlitsaðila með vottunaraðilum án þess að það komi beinlínis fram hver eftirlitsaðilinn er. Það kemur hins vegar skýrt fram í 19. gr. Nefndin lítur svo á að sú breyting sem lögð er til sé til þess fallin að gera lagatextann skýrari.
          4.      Lögð er til orðalagsbreyting á d-lið 22. gr.
          5.      Loks leggur nefndin til að við frumvarpið verði bætt bráðabirgðaákvæði þess efnis að endurskoða skuli ákvæði VII. kafla laganna þegar tvö ár eru liðin frá gildistöku þeirra með hliðsjón af reynslu af eftirlitinu og umfangi þess. Sérstaklega skuli þá skoðað hvort rök séu til að endurskoða ákvæði um eftirlitsgjald. Þessi breyting stafar af því að það eftirlit sem koma skal á fót samkvæmt frumvarpinu er nýtt af nálinni og ekki unnt að áætla nákvæmlega hvaða kostnaður muni hljótast af eftirlitinu eða hversu umfangsmikið það muni verða. Því telur nefndin rétt að þau ákvæði sem lúta að eftirlitsgjaldinu verði endurskoðuð þegar reynsla er komin á framkvæmd laganna.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerðar eru tillögur um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 6. apríl 2001.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Sigríður A. Þórðardóttir.



Gunnar Birgisson.


Ragnheiður Hákonardóttir.


Daníel Árnason.



Margrét Frímannsdóttir.


Össur Skarphéðinsson.


Ögmundur Jónasson.