Ferill 589. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1228  —  589. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 93/1997, um Suðurlandsskóga.

Frá landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Níels Árna Lund frá landbúnaðarráðuneyti og Halldór Magnússon frá Skógræktarfélagi Suðurnesja. Með frumvarpinu er lagt til að Austur-Skaftafellssýslu og Gullbringusýslu verði bætt inn í verkefni Suðurlandsskóga sem taka samkvæmt lögum nr. 93/1997 til Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu.
    Á undanförnum árum hefur Alþingi sett ítarlega löggjöf um skógrækt, sbr. lög nr. 32/1991, um Héraðsskóga, lög nr. 93/1997, um Suðurlandsskóga, og lög nr. 56/1999, um landshlutabundin skógræktarverkefni. Með því má segja að landshlutabundin skógræktarverkefni nái til alls landsins nema Austur-Skaftafellssýslu og Gullbringusýslu.
    Þar sem engin lög hafa fjallað um skógrækt í Austur-Skaftafellssýslu og Gullbringusýslu er með frumvarpinu lagt til að þeim verði bætt inn í verkefni Suðurlandsskóga. Með þeirri breytingu ná landshlutabundin skógræktarverkefni jafnframt til alls landsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    
Guðjón A. Kristjánsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.


Alþingi, 7. maí 2001.



Hjálmar Jónsson,


form., frsm.


Sigríður Jóhannesdóttir,


með fyrirvara.


Drífa Hjartardóttir.



Jónína Bjartmarz.


Guðmundur Árni Stefánsson, með fyrirvara.


Guðjón Guðmundsson.


                                  

Þuríður Backman.


Einar Oddur Kristjánsson.


Kristinn H. Gunnarsson.