Ferill 389. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1271  —  389. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta landbúnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingimar Jóhannsson og Sigríði Norðmann frá landbúnaðarráðuneyti, Árna Ísaksson veiðimálastjóra, Óðin Sigþórsson frá Landssambandi veiðifélaga, Jónatan Þórðarson frá Landssambandi fiskeldis- og hafbeitarstöðva, Sveinbjörn Eyjólfsson, aðstoðarmann landbúnaðarráðherra, Orra Vigfússon og Helgu Óskarsdóttur frá Verndarsjóði villtra laxastofna, Sigurð Guðjónsson frá Veiðimálastofnun og Viðar Má Matthíasson lagaprófessor. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Arnarneshreppi, Borgarbyggð, Bændasamtökum Íslands, Dalabyggð, Djúpavogshreppi, Djúpárhreppi, Fjarðabyggð, Hafrannsóknastofnuninni, heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis, heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra, heilbrigðisnefnd Reykjavíkur, heilbrigðisnefnd Suðurlandssvæðis, heilbrigðisnefnd Vesturlandssvæðis, Hollustuvernd ríkisins, Húnaþingi vestra, Húsavíkurkaupstað, Landssambandi fiskeldis- og hafbeitarstöðva, Landssambandi stangaveiðifélaga, Landssambandi veiðifélaga, Landvernd, Mosfellsbæ, Náttúruvernd ríkisins, Orra Vigfússyni, formanni Verndarsjóðs villtra laxastofna, Óttari Yngvasyni hrl., Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Raufarhafnarhreppi, Reykjanesbæ, sjávarútvegsráðuneytinu, Sveitarfélaginu Hornafirði, Vatnsleysustrandarhreppi, veiðimálanefnd, veiðimálastjóra og Veiðimálastofnun. Þá barst nefndinni umsögn um málið frá umhverfisnefnd Alþingis.
    Markmið frumvarpsins er að setja skýrari og ítarlegri ákvæði um fiskeldi og hafbeit í IX. kafla laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum. Gildandi löggjöf um þennan málaflokk hefur þótt fábrotin og ekki gefið stjórnvöldum nægjanlegt svigrúm til að hafa afgerandi áhrif á mótun og starfsemi atvinnugreinarinnar. Er því með frumvarpinu leitast við að setja skýrari reglur um starfsemi fiskeldis og styrkja þau ákvæði laganna sem ætlað er að sporna við aukinni hættu á fisksjúkdómum, óæskilegri blöndun fiskstofna og öðrum vistfræðilegum vandamálum þar sem alltaf fylgir því einhver hætta að eldisfiskur sleppi úr kvíum. Í ljósi þeirrar hættu að eldisfiskur sleppi úr kvíum og valdi tjóni á t.d. villtum laxastofnum ræddi nefndin hvort ástæða væri til að lögfesta sérstaklega strangari bótaábyrgðarreglur en felast í almennum reglum skaðabótaréttarins, t.d. hlutlæga ábyrgð eða sakarlíkindareglu. Meiri hlutinn bendir á að á 122. löggjafarþingi lagði umhverfisráðherra fram frumvarp til laga um meginreglur umhverfisréttar, en frumvarpið náði ekki fram að ganga. Þar var í 1. mgr. 4. gr. að finna svonefnda mengunarbótareglu, PPP-reglu, er felur í sér hlutlæga ábyrgð vegna tiltekinna umhverfistjóna en reglan á sér stoð í 2. mgr. 73. gr. EES-samningsins. Greinin kveður m.a. á um að aðgerðir samningsaðila á sviði umhverfismála skuli vera grundvallaðar á þeim meginreglum að girt skuli fyrir umhverfisspjöll, áhersla lögð á úrbætur þar sem tjón á upphaf sitt og bótaskylda sé lögð á þann sem mengun veldur. Ísland hefur hins vegar ekki fylgt þeirri samningsskuldbindingu að setja lagareglur er samrýmast 2. mgr. 73. gr. EES-samningsins. Telur meiri hlutinn ekki rétt að svo stöddu að lögfesta sérstaklega ábyrgðarreglur í tengslum við efni frumvarpsins en leggur áherslu á að almenn umhverfisverndarlög verði sett sem samrýmist framangreindri samningsskuldbindingu Íslands skv. 2. mgr. 73. gr. EES-samningsins.
    Helstu breytingar sem meiri hlutinn leggur til á frumvarpinu eru eftirfarandi:
     1.      Lagt er til að í 1. gr. verði bætt skilgreiningum á hugtökunum kynbótum og erfðablöndun þar sem um er að ræða ný hugtök sem koma fyrir í frumvarpinu án nánari skilgreininga. Með kynbótum er átt við markvisst val með tilliti til ákveðinna arfgengra eiginleika. Slíkir eiginleikar geta verið mikill vaxtarhraði eða síðkynþroski. Til undaneldis eru valdir fiskar sem sýna ákjósanlega eiginleika umfram aðra fiska í stofninum. Slíku vali er viðhaldið og það aukið með vali í hverri kynslóð. Með erfðablöndun er átt við æxlun fiska milli stofna. Afkvæmi þeirra verða þá blönduð að erfðum. Til dæmis er æxlun fisks sem sloppið hefur úr eldi með náttúrulegum, villtum fiski. Jafnframt leggur meiri hlutinn til að bætt verði við skilgreiningu á villtum fiskstofni. Er þá átt við hóp fiska sömu tegundar sem hrygnir á sama stað og á sama tíma en hrygnir ekki í neinum mæli með öðrum slíkum hópum. Þá barst nefndinni ábending frá veiðimálastjóra um að villtir laxastofnar væru rangt skilgreindir í núgildandi lögum. Leggur meiri hlutinn til að villtir laxastofnar verði skilgreindir á sambærilegan hátt og villtir fiskstofnar, þ.e. sem hópur laxa sem hrygnir á sama stað og á sama tíma en hrygnir ekki í neinum mæli með öðrum slíkum hópum.
     2.      Í 1. efnismgr. 3. gr. frumvarpsins er kveðið á um að landbúnaðarráðherra veiti rekstrarleyfi til fiskeldis eða hafbeitar. Meiri hlutinn leggur til að veiting rekstrarleyfis til fiskeldis eða hafbeitar verði áfram í höndum veiðimálastjóra eins og núgildandi lög gera ráð fyrir. Með því er haldið opnu að hægt sé að koma athugasemdum við eða kæra veitingu einstakra rekstrarleyfa sem veiðimálastjóri veitir til ráðherra. Gerð er tillaga um nauðsynlegar breytingar á öðrum ákvæðum frumvarpsins með hliðsjón af því. Jafnframt telur meiri hlutinn eðlilegt að leyfisveitandi leiti ekki einungis umsagnar Veiðmálastofnunar um hvort náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu starfssvæði fiskeldis- eða hafbeitarstöðvar gefi tilefni til hættu á erfðablöndun heldur jafnframt að umsögnin lúti að hugsanlegum neikvæðum vistfræðilegum áhrifum.
     3.      Lagt er til að fiskeldisnefnd sem skipuð er fulltrúum tveggja ráðuneyta, þ.e. landbúnaðarráðuneytis og sjávarútvegsráðuneytis, verði ekki umsagnaraðili við veitingu rekstrarleyfis skv. 1. efnismgr. 3. gr. frumvarpsins. Skv. 6. gr. er fiskeldisnefnd meðal annarra landbúnaðarráðherra til aðstoðar um stjórn fiskeldismála og skv. 2. efnismgr. 7. gr. skal fiskeldisnefnd vera til ráðgjafar og stefnumótunar um fiskeldi bæði á landi og í sjó og fara með þau mál sem henni eru falin samkvæmt lögum. Því telur meiri hlutinn eðlilegt að fiskeldisnefnd sinni ekki bæði ráðgjöf, stefnumótun og stjórn fiskeldismála og sé auk þess í umsagnarhlutverki um hvort rekstrarleyfi skuli veitt. Með sömu röksemdum telur nefndin eðlilegt að fiskeldisnefnd verði ekki í umsagnarhlutverki þegar tekin er ákvörðun um hvort takmarka skuli eða banna fiskeldi, hafbeit eða ákveðnar eldisaðferðir í einstaka fjörðum, flóum eða landsvæðum skv. e-lið (78. gr.) 5. gr. frumvarpsins.
     4.      Samkvæmt 2. efnismgr. 3. gr. frumvarpsins skulu í umsókn um rekstrarleyfi m.a. koma fram upplýsingar um starfsleyfi samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Til að taka af tvímæli um að ekki sé nægjanlegt að sýna fram á að sótt hafi verið um starfsleyfi samkvæmt framangreindum lögum er lagt til að bætt verði við 4. efnismgr. 3. gr. frumvarpsins að óheimilt sé að gefa út rekstrarleyfi fyrr en starfsleyfi hefur verið gefið út.
     5.      Lagt er til að felld verði niður 8. efnismgr. 3. gr. sem kveður á um gjaldtöku fyrir útgáfu rekstrarleyfis og meðferð umsóknar samkvæmt gjaldskrá. Þar sem vinna við mótun gjaldskrár hefur ekki verið hafin og í ljósi þess að vandkvæðum er bundið að útfæra gjaldskrá á þann hátt að gjaldið sé í réttu hlutfalli við raunverulegan kostnað við meðferð umsóknar og útgáfu rekstrarleyfis er ákveðin hætta á duldri skattheimtu. Því þykir rétt að ákvörðun um gjald fyrir útgáfu rekstrarleyfis og meðferð umsóknar bíði þeirrar heildarendurskoðunar sem til stendur að gera á lögum um lax- og silungsveiði.
     6.      Lagt er til að 2. málsl. 9. efnismgr. falli brott þar sem kveðið er á um að heimilt sé að veita undanþágu til starfsemi og flutnings á eldisfiski og/eða seiðum í fiskeldis- eða hafbeitarstöð ef stöð hefur fengið starfsleyfi samkvæmt ákvæðum annarra laga sem varða slíkan atvinnurekstur. Hér er einkum átt við starfsleyfi samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Ljóst er að þegar eru starfandi fiskeldisstöðvar sem eingöngu hafa hlotið starfsleyfi en ekki rekstrarleyfi eins og núgildandi lög gera ráð fyrir. Telur meiri hlutinn rétt að halda fast í þá reglu sem kemur fram í 1. málsl. 9. efnismgr. um að fiskeldis- og hafbeitarstöðvum sé óheimilt að hefja starfsemi eða flytja eldisfisk eða seiði í eldisstöð fyrr en rekstrarleyfi er fengið og undanþágur frá því skuli ekki veittar. Með hliðsjón af því leggur meiri hlutinn jafnframt til nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið er á um að fiskeldis- og hafbeitarstöðvar sem starfað hafa samkvæmt starfsleyfi, sbr. lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, skuli sækja um rekstrarleyfi innan árs frá gildistöku laga þessara.
     7.      Lagt er til að ný málsgrein, sem verður 9. mgr., bætist við 3. gr. frumvarpsins sem lýtur að heimild veiðimálastjóra til afturköllunar rekstrarleyfis ef leyfishafi eða starfsmenn hans brjóta gegn ákvæðum laganna eða stjórnvaldsfyrirmælum sem sett eru á grundvelli þeirra, skilyrðum leyfis er ekki fullnægt, leyfishafi verður ófær um að reka fiskeldisstöð eða ef eldisfiskur sleppur ítrekað frá fiskeldisstöð. Brjóti leyfishafi gegn ákvæðum laganna eða hlíti ekki þeim skilyrðum sem sett eru í rekstrarleyfi skal veiðimálastjóri veita honum skriflega viðvörun og hæfilegan frest til úrbóta. Sinni leyfishafi ekki slíkri viðvörun skal afturkalla rekstrarleyfi. Sé um ásetning eða stórkostlegt gáleysi að ræða getur veiðimálastjóri afturkallað rekstrarleyfi án undanfarandi viðvörunar eða frests til úrbóta. Framangreind breyting hefur í för með sér að 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. frumvarpsins fellur brott en þar er kveðið á um heimild ráðherra til endurskoðunar eða niðurfellingar rekstrarleyfis vegna ítrekaðra slysasleppinga. Það ákvæði sem hér er lagt til er mun heildstæðara og samræmist betur vönduðum stjórnsýsluháttum.
     8.      Lagt er til að b-liður (75. gr.) 5. gr. frumvarpsins falli niður þar sem fjallað er um eftirlit veiðimálastjóra með fiskeldis- og hafbeitarstöðvum og í stað þess komi nýtt ákvæði í XIII. kafla laganna sem ber yfirskriftina „Stjórn veiðimála, Veiðimálastofnun og eftirlit“. Nefndin fékk tillögu frá landbúnaðarráðuneyti um breytingu á framangreindu eftirlitsákvæði frumvarpsins þar sem tekið er mið af athugasemdum ráðgjafarnefndar um opinberar eftirlitsreglur. Er þar m.a. tekið tillit til þeirra athugasemda að eftirlit skuli framkvæmt af faggiltum skoðunarstöðvum í eins ríkum mæli og unnt er. Jafnframt er tekið tillit til þeirra athugasemda að eftirlitsgjald skuli ekki fastsett í ákveðinni hlutfallstölu af brúttósöluverði heldur sé eðlilegra að rekstrarleyfishafar greiði raunkostnað af eftirlitinu. Ráðgjafarnefndin gerir ekki athugasemdir við það fyrirkomulag sem gerð er tillaga um hér, að eftirlitsgjald skuli miðast við raunkostnað við eftirlitið samkvæmt gjaldskrá sem landbúnaðarráðherra staðfesti.
     9.      Í 2. málsl. 1. efnismgr. c-liðar (76. gr.) 5. gr. frumvarpsins er kveðið á um að veiðimálastjóri geti veitt rannsóknaraðila undanþágu til sleppitilrauna í smáum stíl. Lagt er til að áður en veiðimálastjóri taki slíka ákvörðun skuli hann leita umsagnar Veiðimálastofnunar. Jafnframt er lagt til að þegar veiðimálastjóri leitar umsagnar Veiðimálastofnunar skv. 3. efnismgr. c-liðar 5. gr., varðandi undanþágu m.a. til flutnings á eldistegundum sem ekki eru tilgreindar í rekstrarleyfi milli fiskeldis- og hafbeitarstöðva, um hvort náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu starfssvæði fiskeldis- eða hafbeitarstöðvar gefi tilefni til aukinnar hættu á erfðablöndun skuli jafnframt huga að neikvæðum vistfræðilegum áhrifum.
     10.      Lagt er til að tekið verði upp í e-lið (78. gr.) 5. gr. efnisleg viðmið sem landbúnaðarráðherra skuli fara eftir þegar hann beitir heimild til að banna eða takmarka fiskeldi, hafbeit eða ákveðnar eldisaðferðir í einstökum fjörðum, flóum eða landsvæðum sem teljast sérlega viðkvæm fyrir slíkri starfsemi. Skal til grundvallar ákvörðun ráðherra taka mið af því að vernda og hlífa villtum laxastofnum við erfðablöndun, fisksjúkdómum og neikvæðum vistfræðiáhrifum. Skal þá m.a. tekið tillit til staðsetningar eldisstöðva, stærðar þeirra, fjarlægðar þeirra frá veiðiám og veiðiverðmæti innan svæðisins, þ.e. fjarðar, flóa eða landsvæðis. Jafnframt skal litið til þess hvort svæði til fiskeldis séu staðsett í farleiðum lax og silungs og hvort straumar geti leitt sleppifisk í veiðiá.
     11.      Í lokamálslið e-liðar (78. gr.) 5. gr. er kveðið á um að landbúnaðarráðherra geti ákvarðað svæðaskiptingu fiskeldis meðfram strönd landsins og heildarframleiðslu á hverju svæði. Lagt er til að ráðherra verði skylt að ákvarða svæðaskiptingu fiskeldis utan netlaga þannig að ljóst megi vera hvernig staðsetning og skipulag á fiskeldi utan þeirra marka verði háttað og úthlutun og afmörkun á svæðum verði ekki tilviljun háð. Ástæða þess að kveðið er á um svæðaskiptingu utan netlaga er sú að samkvæmt áliti félagsmálaráðuneytisins er lögsagnarumdæmi sveitarfélaga á haf út innan netlaga, þ.e. 115 metra frá stórstraumsfjöruborði, þannig að eingöngu innan þeirra marka er sveitarfélögum heimilt að veita framkvæmdaleyfi til sjókvíaeldis, að gættum ákvæðum skipulags- og byggingarlaga. Þegar komið er út fyrir mörk netlaga er það á forræði ríkisvaldsins í krafti fullveldisréttar síns að skipuleggja þá starfsemi sem fram getur farið á hafsvæðinu í kringum landið. Þar sem eldi ferskvatnsfiska fellur undir landbúnaðarráðherra samkvæmt frumvarpinu er það á forræði landbúnaðarráðherra að ákvarða skipulag eldis á ferskvatnsfiskum utan netlaga umhverfis landið.
     12.      Í 1. efnismgr. 6. gr. er kveðið á um að landbúnaðarráðherra fari með yfirstjórn allra fiskeldis- og veiðimála. Samhliða þessu frumvarpi hefur sjávarútvegsráðherra lagt fram frumvarp um eldi nytjastofna sjávar. Til að forðast skörun milli ráðuneyta er lagt til að skýrt sé kveðið á um að landbúnaðarráðherra fari með yfirstjórn allra fiskeldis- og veiðimála samkvæmt lögum þessum. Er þá ótvírætt að landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn eldis ferskvatnsfiska og sjávarútvegsráðherra fer með yfirstjórn eldis nytjastofna sjávar.
     13.      Lagt er til að Veiðimálastofnun tilnefni aðila í fiskeldisnefnd í stað veiðimálastjóra. Er þá gætt samræmis við tilnefningu Hafrannsóknastofnunarinnar í nefndina.
     14.      Lagt er til að auka hlut Landssambands fiskeldis- og hafbeitarstöðva í veiðimálanefnd þannig að þeir eigi þar tvo fulltrúa til mótvægis við Landssamband veiðifélaga sem á þar tvo fulltrúa fyrir. Með þeirri fjölgun verður nefndin skipuð sex mönnum í stað fimm áður og er því kveðið á um að ráðherra skipi formann nefndarinnar og skulu atkvæði hans ráða úrslitum ef atkvæði falla jöfn.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem tillaga er gerð um í sérstöku þingskjali. Guðjón A. Kristjánsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 8. maí 2001.



Hjálmar Jónsson,


form., frsm.


Drífa Hjartardóttir.


Jónína Bjartmarz.



Guðjón Guðmundsson.


Einar Oddur Kristjánsson.


Kristinn H. Gunnarsson.