Ferill 634. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1273  —  634. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi.

Frá meiri hluta samgöngunefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jóhann Guðmundsson og Kristínu Helgu Markúsdóttur frá samgönguráðuneytinu, Stefán Erlendsson, Gunnar Gunnarsson og Björn Ólafsson frá Vegagerðinni, Unni Sverrisdóttur frá Landssambandi vörubifreiðastjóra, Eyrúnu Ingadóttur frá Trausta, félagi sendibifreiðastjóra, og Ásgeir Þorsteinsson, Stein Hermann Sigurðsson, Kristin Ólafsson og Guðmund Bogason frá Bifreiðastjórafélaginu Frama.
    Þá bárust nefndinni umsagnir frá Bifreiðastjórafélaginu Frama, Samtökum iðnaðarins, Vegagerðinni, Landssambandi vörubifreiðastjóra, Trausta, félagi sendibifreiðastjóra, Landvara, félagi íslenskra vöruflytjenda, Félagi hópferðaleyfishafa, Ökukennarafélagi Íslands, Olíudreifingu ehf. og dómsmálaráðuneytinu.
    Með frumvarpinu er lagt til að lagaákvæði um skipulag fólksflutninga með hópferðabifreiðum, sbr. lög nr. 13/1999, og lagaákvæði um vöruflutninga á landi, sbr. lög nr. 47/1994, verði felld saman í einn lagabálk. Jafnframt er lagt til að gildissvið laganna nái til vörubifreiða og sendibifreiða sem notaðar eru til leiguaksturs, en um slíkar bifreiðar gilda nú lög um leigubifreiðar, nr. 61/1995. Fyrir þinginu liggur nú frumvarp til nýrra laga um leigubifreiðar og er gildissvið þeirra afmarkað í samræmi við þetta frumvarp. Við gerð frumvarpsins hefur verið tekið mið af reglum sem settar hafa verið á Evrópska efnahagssvæðinu eða eru væntanlegar á því svæði og rúmast innan gildissviðs EES-samningsins.
    Í frumvarpinu er lögð til sú meginbreyting að almennar kröfur sem lögfestar voru með lögum nr. 13/1999 gildi einnig um vöruflutninga og efnisflutninga.
    Í almennum athugasemdum við frumvarpið segir að lögin taki ekki til flutnings á hættulegum efnum þar sem um hann gildi reglugerð nr. 984/2000 sem sett er með stoð í 2. mgr. 50. gr., 1. mgr. 60. gr. og 73. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987. Samkvæmt ákvæðum frumvarpsins skulu vöru- og efnisflutningar í atvinnuskyni almennt vera háðir sérstöku starfsleyfi. Ekki eru rök til að álykta að flutningar á hættulegum farmi séu undanskildir enda engin heimild í umferðarlögum til að setja reglur um sérstök rekstrarleyfi fyrir slíka flutninga, enda er ekki kveðið á um slíkt í umræddri reglugerð. Nefndin leggur því áherslu á að þrátt fyrir að annað komi fram í athugasemdum við frumvarpið gildi lögin um flutninga á hættulegum efnum líkt og um aðra flutninga. Þetta hróflar ekki við gildi reglugerðar nr. 984/2000 þar sem um þessa flutninga sem og aðra munu eftir sem áður gilda almennar og sérstakar reglur eftir því sem við á.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Helstu breytingar eru eftirfarandi:


Prentað upp á ný.


     1.      Lagt er til nýtt orðalag i-liðar 1. gr. sem miðar að því að samræmi verði á milli i- og j- liðar.
     2.      Lagt er til að heimild Vegagerðarinnar til að gera mismunandi kröfur til útgáfu mismunandi leyfa eftir því sem við á, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins, verði takmörkuð þannig að kröfurnar verði að eiga sér stoð í reglugerð sem ráðherra setur. Verður að telja æskilegt að takmarka þessa heimild með einhverjum hætti. Takmörkun sem þessi er jafnframt æskileg til að tryggja að jafnræði ríki við útgáfu rekstrarleyfa.
     3.      Lagt er til að tilvísun í reglugerð nr. 411/1993 í 3. mgr. 12. gr. verði felld brott þar sem umrædd reglugerð hefur verið felld úr gildi, sbr. reglugerð nr. 915/2000.
     4.      Lögð er til breyting á 13. gr. frumvarpsins þess efnis að fast gjald vegna leyfis skv. 4. gr. lækki úr 5.000 kr. í 3.000 kr. en menn borgi síðan 1.000 kr. fyrir hvern bíl sem þeir reka á grundvelli leyfisins. Hvað varðar bíla sem uppfylla þurfa gæða- og tæknikröfur skv. 12. gr. er lagt til að fast gjald fyrir rekstrarleyfi verði 4.000 kr. og síðan 1.000 kr. fyrir hvern bíl sem rekinn er á grundvelli leyfisins.
     5.      Lagt er til að tekið verði fram í 14. gr. að atbeina lögreglu þurfi til að stöðva starfsemi samkvæmt greininni, enda er hér um lögregluaðgerð að ræða og ljóst að Vegagerðin fer ekki með lögregluvald.
     6.      Í 15. gr. frumvarpsins er kveðið á um að sektir allt að 100.000 kr. fyrir brot gegn lögunum og reglum settum samkvæmt þeim skuli ákveðnar í reglugerð sem ráðherra setur. Ákvæði þetta sækir fyrirmynd sína í 4. mgr. 100. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, sbr. lög nr. 57/1997, og er í athugasemdum við 15. gr. frumvarpsins vitnað til röksemda sem fylgdu frumvarpi til laga nr. 57/1997.
                  Ekki er hægt að skilja 15. gr. frumvarpsins öðruvísi en svo að með ráðherra sé átt við samgönguráðherra, enda fellur meginefni frumvarpsins undir valdsvið hans. Útgáfa reglugerðar um fjárhæð sekta fellur hins vegar tæplega undir verksvið samgönguráðherra eins og það hefur verið skilgreint. Nefndin telur fara betur á því að útgáfa þessarar reglugerðar verði í höndum dómsmálaráðherra sem fer með málefni er varða refsilöggjöf og réttarfar.
                  Lögregla fer með ákæruvald vegna brota á lögunum, sbr. 28. gr. laga um meðferð opinberra mála. Skv. 1. mgr. 115. gr. sömu laga er lögreglustjóra heimilt að ljúka máli með sektargerð fallist sakborningur á það í samræmi við leiðbeiningar ríkissaksóknara eða samkvæmt reglugerð sem dómsmálaráðherra setur að fenginni tillögu ríkissaksóknara. Í lögunum er með öðrum orðum ekki gert ráð fyrir að aðrir en dómsmálaráðherra setji slíkar reglugerðir, enda verður að telja að hann hafi besta þekkingu á því, ásamt ríkissaksóknara, hvað teljist hæfileg sekt fyrir einstök brot á lögunum.
                  Í samræmi við framangreint er lagt til að 15. gr. frumvarpsins verði breytt þannig að það verði í höndum dómsmálaráðherra en ekki samgönguráðherra að setja umrædda reglugerð og þá að fengnum tillögum ríkissaksóknara.
                  Jafnframt er lagt til að leyfissviptingu verði bætt við sem mögulegri refsingu vegna brota á lögunum. Í 2. mgr. 15. gr. er gert ráð fyrir að Vegagerðin geti svipt aðila leyfi         við alvarleg og ítrekuð brot og að sú svipting gildi þar til úrlausn hefur fengist skv. 1. mgr. Eðlilegt er að dómstólar hafi jafnframt heimild til að svipta menn leyfi ef brot telst það alvarlegt.

Alþingi, 11. maí 2001.



Árni Johnsen,


form., frsm.


Hjálmar Árnason.


Arnbjörg Sveinsdóttir.



Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


Guðmundur Hallvarðsson.


Magnús Stefánsson.



Jón Bjarnason,


með fyrirvara.