Ferill 707. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1313  —  707. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Frá 1. minni hluta samgöngunefndar.



Niðurstaða.
    Fyrsti minni hluti leggur fram eina mikilvæga breytingartillögu við frumvarpið þess efnis að grunnnetið verði undanskilið áður en til sölu hlutafjár ríkissjóðs í Landssíma Íslands hf. kemur.
    Það er mat 1. minni hluta að með því að selja fyrirtækið í einu lagi sé verið að skapa einu fyrirtæki yfirburðastöðu á markaðinum. Sú staða gerir alla samkeppni mjög erfiða og er ólíklegt að opinberar eftirlitsstofnanir geti tryggt að slíkt fyrirtæki misnoti ekki markaðsráðandi stöðu sína.
    Fyrsti minni hluti óttast að sala á fyrirtækinu í einu lagi leiði af sér mikinn mun á aðstöðu landsbyggðar og höfuðborgar til að nýta möguleika upplýsingabyltingarinnar. 1. minni hluti telur því nauðsynlegt að verð á leigulínum til fyrirtækja á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu verði jafnað en nú er verðlagningin þannig að landsbyggðarfyrirtæki borga allt að tíu sinnum hærri fjárhæð en fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu, eins og sjá má í meðfylgjandi töflu í álitinu.

Sala Landssímans.
    Þegar ákvörðun er tekin um að selja fyrirtæki eins og Landssíma Íslands, sem í rúm 90 ár naut einkaréttar til reksturs á fjarskiptaþjónustu hér á landi, er ljóst að verið er að taka ákvörðun um sölu fyrirtækis sem hefur yfirburðastöðu á fjarskiptamarkaði. Ákvörðun um sölu fyrirtækisins og hvernig staðið verði að henni er um leið ákvörðun um hvernig rekstrarumhverfi fjarskipta- og hugbúnaðariðnaðarins verði í nánustu framtíð. Það hefur komið fram við meðferð þessa frumvarps að þetta fyrirtækið hefur nú 85% hlutdeild í tekjum á fjarskiptamarkaði. Eftirfarandi upptalning gefur þessa stöðu e.t.v. betur til kynna:
          Landssíminn hefur sterka fjárhagslega stöðu, eigið fé fyrirtækisins er talið vera um 13 milljarðar kr.
          Áætluð velta á árinu 2001 er 17 milljarðar kr.
          Landssíminn hefur yfirburðastöðu á GSM-markaðinum.
          Landssíminn rekur eina NMT-farsímakerfið hér á landi.
          Landssíminn er í einokunaraðstöðu í rekstri talsímaþjónustu og hefur því viðskiptatengsl við nær öll heimili í landinu.
          Landssíminn hefur yfirburðastöðu í útlandasímtölum.
          Landssíminn og dótturfyrirtæki hans hafa markaðsráðandi stöðu á netmarkaðinum, en sá markaður er nátengdur fjarskiptamarkaðinum.

Prentað upp.

          Í skjóli einkaréttar í áratugi og margvíslegrar ríkisaðstoðar hefur Landssíminn byggt upp fjarskiptakerfi sem að mati fyrirtækisins sjálfs er í fremstu röð í heiminum í dag.
          Landssíminn hefur í áranna rás byggt upp víðtækt sölukerfi á þjónustu sinni.
          Landssíminn hefur fjárfest í mörgum fyrirtækjum á fjarskipta- og hugbúnaðarsviði þar sem fyrirtækið hefur veruleg áhrif á rekstur þeirra.
    Af þessari upptalningu um stöðu fyrirtækisins má ráða að Landssíminn mun alltaf verða stórt og öflugt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða, hvort heldur hann yrði seldur í einu lagi eða honum skipt upp á einhvern hátt. Meginrökin sem færð eru fyrir sölu fyrirtækisins eru tvenn. Í fyrsta lagi að fyrirtækið sé verðmætara í einu lagi en ef það yrði bútað niður. Í öðru lagi hafa verið færð rök að því að verulegur kostnaður hljótist af því fyrir neytendur ef grunnnetið verður aðskilið við söluna vegna ýmiss konar tæknibúnaðar sem yrði að koma upp og kostnaðar sem af því kynni að hljótast. Þá hefur verið á það bent að menn viti í dag hvað þeir hafi en ekki hvað þeir fái yrði fyrirtækinu skipt upp. Með öðrum orðum, ákveðin íhaldssemi um að viðhalda því ástandi sem nú er á fjarskiptamarkaði hefur einnig áhrif á niðurstöðuna að mati fulltrúa ríkisstjórnarinnar. Vegna mikillar gagnrýni þess efnis að núverandi ástand sé skaðlegt fyrir samkeppni og eðlilega þróun á þessum markaði hefur ríkisstjórnin, eða fulltrúar hennar, kynnt bókun þingflokks Framsóknarflokksins um að til að koma í veg fyrir að fyrirtækið misnoti einokunar- eða yfirburðastöðu sína í framtíðinni verði farin sú leið að Samkeppnisstofnun og Póst- og fjarskiptastofnun verði efldar, án þess að það sé skýrt frekar. Þetta eru helstu rökin sem fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa fært fyrir því að sú leið verði farin sem fram kemur í frumvarpinu.
    Þessu er 1. minni hluti ósammála. Í fyrsta lagi er ljóst að sagan hefur kennt að vilji menn tryggja samkeppni á markaði sé vænlegra til árangurs að gera breytingar á markaðsgerðinni, þ.e. haga sölunni þannig að sú staða skapist ekki að fyrirtæki geti misnotað markaðsráðandi stöðu sína, sem er mun vænlegri leið til árangurs en að setja eftirlitskerfi sem skuli bregðast við sé þessi staða misnotuð. Þess vegna leggur 1. minni hluti til að grunnnetið verði ekki selt með öðrum hlutum fyrirtækisins. Í þessum efnum má vissulega skoða fleiri leiðir en 1. minni hluti leggur til að þessi leið verði farin.
    Í öðru lagi er það skoðun 1. minni hluta að í framtíðinni muni neytendur og einkanlega landsbyggðin líða fyrir það að núverandi einokunarstaða sé seld í einu lagi með því að greiða hærra verð fyrir þjónustuna.
    Í þriðja lagi hefur komið fram á fundum nefndarinnar að líklegt sé að þessi sala leiði til þess að þróunar- og rannsóknarstarf þróist ekki sem skyldi því að eignarhald fyrirtækisins á grunnnetinu muni leiða til þess að þróun og fjárfesting í því taki aðeins mið af hagsmunum fyrirtækisins.
    Það er því mat 1. minni hluta að sú aðferðafræði sem meiri hlutinn ætlar að viðhafa við þessa sölu leiði ekki annað af sér en að fyrirtæki sem nú hefur ýmist yfirburða- eða einokunarstöðu færist úr höndum ríkisins yfir til einkaaðila, sem að öllu jöfnu yrði að telja jákvætt nema hvað reynslan hefur kennt að af tveimur slæmum kostum er einkaeinokun verri en ríkiseinokun. Það er því mat 1. minni hluta að þessi aðferð við söluna leiði til hægari uppbyggingar hugbúnaðar- og fjarskiptageirans hér á landi en ella hefði verið.

Skilgreining á grunnneti Landssíma Íslands.
    Áður en lengra er haldið er nauðsynlegt að skilgreina hvað 1. minni hluti á við þegar rætt er um grunnnet Landssíma Íslands. Skilgreining sú sem 1. minni hluti styðst við er þröng, þ.e. að í rekstrinum sé einungis sú starfsemi sem telst nauðsynleg til að reka grunnfjarskiptanet. Til grunnnets telst samkvæmt þessu:
          Allar jarðsímalagnir, niðurgrafin tengibox og götuskápar.
          Allir sæsímastrengir, merkistaurar og tengibúnaður þeirra.
          Alþjóðlegir sæsímastrengir, t.d. hlutur Landssímans í Cantat-3 sæstrengnum.
          Allar jarðstöðvar (gervihnattasambönd) og stoðbyggingar þeirra.
          Örbylgjusendar og -móttakarar, staura- og mastravirki, auk stoðbygginga.
          Tengigrindur jarðsímalagna þar sem þær eru í símstöðvarbyggingum.
          Ljósleiðarafjölsímar og stoðkerfi þeirra (SDH- og PDH-flutningsstýringar).
    Einnig er eðlilegt að rekstrinum fylgi fasteignir sem símstöðvar, tengigrindur og ljósleiðarafjölsímar eru í. Þetta tryggði aðkomu allra fjarskiptafyrirtækja að aðstöðu í þeim. Þá er einnig reiknað með því að einátta flutningur í lofti og kapli, t.d. dreifing útvarps- og sjónvarpsefnis gæti fallið að rekstri grunnnets og væri heimilt að reka slíka flutningsmiðla.

Eignarhald á grunnnetinu.
    Núverandi eignarhald Landssímans á grunnfjarskiptakerfinu veitir fyrirtækinu verulegt forskot á keppinautana. Þetta forskot mun haldast verði fyrirtækið selt í einu lagi. Verðmætamat fyrirtækisins tekur mið af þessari yfirburða- og einokunarstöðu og þau rök eru færð fram að í henni felist stór hluti verðmætis fyrirtækisins. Vegna hennar fáist hærra verð fyrir fyrirtækið en ef því væri skipt upp. Aðrir halda því á hinn bóginn fram að þetta sé rangt og að rétt hefði verið að selja fyrirtækið í einingum. Þannig fengist hærra verð fyrir fyrirtækið í heild því að þá vissu menn nákvæmlega hvaða starfsemi þeir væru að kaupa. Má í því sambandi benda á að France Telecom í Frakklandi eru nú að ganga frá sölu á Orange-fyrirtækinu sem er GSM-deild þess. Þá hefur British Telecom lýst yfir því að það muni skipta sér upp fyrir lok ársins og uppi eru hugmyndir um að skipta AT&T upp í allt að sex fyrirtæki. Reyndar skiptu samkeppnisyfirvöld því fyrirtæki upp snemma á níunda áratugnum þar sem m.a. grunnnetsþjónustan var skilin frá annarri starfsemi. Þessi umræða er einnig uppi um TeleDanmark. Það liggur því fyrir að ekkert er öruggt í þeim efnum að heildarverðmæti fyrirtækisins verði meira verði það selt í einu lagi í stað þess að skipta því upp, enda tækju forustumenn þessara stóru fyrirtækja líklega ekki slíkar ákvarðanir eða ræddu þessar hugmyndir nema þær væru fyrirtækjunum til hagsbóta.
    Vegna eignarhalds Landssímans á grunnnetinu eru keppinautar hans á öðrum sviðum óhjákvæmilega einnig viðskiptavinir hans, þ.e. fyrirtækið hefur tekjur af starfsemi keppinautanna. Með því að selja fyrirtækið þannig að eignarhaldið á grunnneti verði í höndum sömu aðila verður Landssímanum í sjálfsvald sett hvernig kerfið verður byggt upp og þarf ekki að taka mið af öðru en hagsmunum fyrirtækisins í þeim efnum. Í reynd leiðir þetta til þess að fyrirtækið getur ráðið því hvar og hvenær keppinautarnir geta boðið viðskiptavinum sínum þjónustu.
    Eignarhaldið leiðir til hættu á mismunun, að misfarið verði með trúnaðarupplýsingar og aðrar samkeppnishömlur vegna þeirrar stöðu Landssímans að vera helsti keppinautur þeirra sem bjóða þjónustu, en hinir sömu þurfa að kaupa sér aðgang að grunnnetsfjarskiptakerfi Landssímans til þess að geta selt þjónustu sína. Þetta er sérstaklega vandmeðfarið á landsbyggðinni því að þar er ólíklegt að upp rísi í einhverjum mæli samkeppni í grunnnetsþjónustu. Á höfuðborgarsvæðinu er kominn vísir að samkeppni í grunnnetsþjónustu þótt það eigi enn ekki við um heimtauga- eða notendalínukerfið og ólíklegt sé að á næstu árum fari önnur fyrirtæki að grafa heimtaugar í jörð inn á heimili manna í því skyni að fara í samkeppni við heimtaugakerfi Landssímans. A.m.k. er ljóst eins og staðan er að erfitt verður að keppa við heimtaugakerfi Landssímans um verð þar sem það hefur verið afskrifað að stórum hluta. Þá er það varla þjóðhagslega hagkvæmt að grafa skurði og leggja línur inn á heimili almennings meðan núverandi koparlínur ráða enn við kröfur markaðarins um fjarskiptaþjónustu að mestu leyti því að talið er að með öflugum endabúnaði geti koparlínurnar flutt 2 Mb/s.
    Komið hefur fram að tekjur Landssímans vegna grunnnetsins hafi numið 1.467 millj. kr. á síðasta ári.
    Kostir þess að skilja grunnnetið frá Landssímanum eru þessir:
          Stuðlað er að virkri samkeppni í fjarskiptaþjónustu sem rekin er á grunnkerfinu.
          Jafnræði keppinauta er tryggt og tortryggni eytt.
          Komið er í veg fyrir hagsmunaárekstra og hvers konar millifærslur á fjármunum milli reksturs á grunnkerfum og annarrar starfsemi Landssíma Íslands.
          Dregið er úr markaðsyfirráðum Landssímans.
          Stuðlað er að hóflegri gjaldtöku fyrir aðgang að grunnkerfinu.

Markaðsgerðin.

    Með því að selja Landssímann í einu lagi er í reynd verið að taka ákvörðun um rekstrarumhverfi fjarskipta- og hugbúnaðariðnaðarins næstu árin. Þar mun eitt fyrirtæki verða með 75–85% markaðshlutdeild. Núverandi staða Landssímans ein og sér hefur skaðleg áhrif á samkeppni á fjarskiptamarkaðinum. Sú staða mun ekki batna við það að fyrirtækið verði selt einkaaðilum. Það er mat 1. minni hluta að skynsamlegra hefði verið að breyta markaðsgerðinni með því að aðskilja grunnnetið frá fyrirtækinu. Það er almennt viðurkennt í samkeppnisrétti að vænlegra til árangurs sé að breyta markaðsgerðinni þegar stefnt er að því að skapa samkeppnisumhverfi í tiltekinni atvinnugrein í stað þess að fara þá leið að ætla eftirlitsstofnunum að grípa inn í þegar fyrirtæki með markaðsráðandi stöðu misnotar hana. Það þarf ekki að fara langt til að sjá að fyrirtæki sem hafa haft markaðsráðandi stöðu hafa oftar en ekki misnotað aðstöðu sína og hefur það leitt til þess að markaðurinn nýtist ekki sem verðmyndunartæki og því þarf almenningur að borga mismuninn.
    Samkeppnisstofnun telur nauðsynlegt að benda á að aðgerðir sem lúta að breytingu á gerð markaðarins eða uppskiptingu fyrirtækja eru þekktar í samkeppnisrétti til að eyða samkeppnishömlum og efla samkeppni og nefnir hún dæmi í því skyni. Framkvæmdastjórn ESB hefur lýst því yfir að í tilteknum tilvikum geti það verið eina leiðin til að skapa virka samkeppni að fjarskiptafyrirtækjum verði gert skylt að losa sig alfarið við kapalkerfi sín. Í Bandaríkjunum var AT&T-símafyrirtækinu skipt upp á áttunda áratugnum að kröfu samkeppnisyfirvalda og áfram má telja.
    Það er mat 1. minni hluta að sú leið sem meiri hlutinn vill fara sé til þess fallin að skapa umhverfi þar sem samkeppni muni vart þrífast að ráði. Fram hefur komið að ein meginröksemd British Telecom fyrir því að skipta fyrirtækinu upp sé sú staðreynd að vegna stærðar þess þurfi það að eyða miklum tíma og fyrirhöfn í viðræður við stjórnvöld um það hvernig það megi haga sér á markaði og því sé skynsamlegra að minnka fyrirtækið og gera það þannig meira spennandi fyrir fjárfesta. Hér er á hinn bóginn ætlunin að fara þá leið að setja eftirlitsstofnanir til höfuðs fyrirtækinu í stað þess að reyna að skapa þannig markaðsgerð að eðlileg samkeppni fái þrifist.

Landsbyggð í mono – höfuðborg í stereo.
    Mjög mikilvægt er að gerð sé grein fyrir stöðu landsbyggðarinnar í tengslum við sölu Landssímans. Óbreytt fyrirkomulag á sölu eins og fyrir liggur í frumvarpinu, þ.e. sala á samkeppnishlutanum ásamt grunnnetinu, mun vafalítið verða til tjóns fyrir landsbyggðina í fjölmörgum atriðum.
    Komið hafa fram mjög sterkar vísbendingar um að þjónustustig grunnnetsins í óskiptu félagi muni halda áfram að verða verulega lakara úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu.
    Í því sambandi er bent á burðargetu einstakra tenginga sem mælist m.a. í því að á höfuðborgarsvæðinu eru fáanlegar 100 Mbps og allt upp í 1 Gbps (1.000.000 kbps) tengingar í fjarskiptakerfinu en úti á landi er einungis búið að tryggja 128 kbps gagnaflutningsgetu á upphringisambandi undir kvöðum alþjónustu (fjarskiptalög). Sú flutningsgeta er raunar ekki uppfyllt enn, en reiknað er með að svo verði innan tveggja ára.
    Engin alþjónustukvöð er um sítengingu (ADSL). Þetta þýðir í stuttu máli að alþjónustukvöðin er innan við eitt prómill af því sem hægt er að bjóða á höfuðborgarsvæðinu.
    Það er því ljóst að að óbreyttu muni frekari þróun leiða til þess að alþjónustukvöðin úreldist mjög hratt og verði marklaus á skömmum tíma liðnum ef hún er ekki uppfærð reglulega.
    Því má með sanni segja að áform ríkisstjórnarinnar um sölu grunnnetsins með Landssímanum séu skýr skilaboð hennar um að alþjónustan eigi að vera annars flokks miðað við höfuðborgarsvæðið. Ríkisstjórnin ætlar landsbyggðarfólki að vera áfram í mono meðan höfuðborgarbúar verða í stereo.

Landsbyggðin borgar meira.
    Ljóst er að enn sem komið er er framboð á gagnaflutningsgetu til einstakra notenda á landsbyggðinni takmarkað miðað við það sem er á höfuðborgarsvæðinu.
    Tekur þetta einkum mið af því að burðargeta í grunnnetinu milli landshluta er enn meira en tvöfalt og jafnvel þrefalt dýrari en í nágrannalöndunum, auk þess sem hún er seld á kílómetragjaldi samkvæmt línuleiðum en ekki í loftlínu eins og í nágrannalöndunum sem í mörgum tilfellum tvöfaldar enn þann mun sem er á verði grunnflutningsgetu.
    Landsbyggðin hefur ávallt borgað miklu hærra gjald fyrir leigulínur, eins og sjá má í meðfylgjandi töflu sem m.a. sýnir þróun á verðskrá Landssímans frá 1. janúar 1998.
    Eins og sjá má í töflunni hafa fyrirtæki á landsbyggðinni ávallt borgað miklu hærri gjöld en fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu, enda kom það fram hjá nokkrum gestum samgöngunefndar að þeir skildu hreinlega ekki hvernig þessi fyrirtæki hefðu komist í gegnum þetta undanfarin ár og að starfsemi þeirra væri hreinlega enn við lýði.
    Þingflokkur Samfylkingarinnar gerir skýlausa kröfu um að þessi verðlagning verði jöfnuð fullkomlega og að Landssímanum verði gert skylt að breyta gjaldskránni til fulls jafnræðis milli fyrirtækja, án tillits til þess hvar þau eru á landinu, enda fylgi því enginn aukakostnaður.
    Það er ekki dýrara að flytja gögn um leigulínur frá Reykjavík til Raufarhafnar en milli húsa í Reykjavík, svo að dæmi er tekið.
    Rétt er að benda á að í töflunni sést að fyrirtæki sem vill hafa 2 Mb/s leigulínu á Raufarhöfn þarf að greiða 262.618 kr. en sams konar fyrirtæki í Reykjavík þarf aðeins að greiða 25.664 kr. Þetta er óþolandi misvægi og því má með sanni segja að núverandi gjaldskrá fyrir leigulínur skekki samkeppnishæfni fyrirtækja milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Ein gjaldskrá fyrir talsíma og ATM-línur hjá Landssímanum sýnir fram á að þetta er hægt.
    Verðskrá í nágrannalöndum okkar, t.d. í Danmörku, tekur mið af þessu og t.d. er hún miðuð þar við loftlínur og með 75 km hámarki. Slíkt er einnig gert í Noregi með 300 km hámarki. Eftirlitsstofnanir hafa ekki gert athugasemdir við þessi atriði svo að vitað sé.

Sérhagsmunahópar og pólitísk áhrif.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá 28. maí 1999 segir um einkavæðingu ríkisfyrirtækja m.a. um sölu Landssímans:


Breyting á verðskrá leigulína og ATM milli ára.
Samanburður fyrir 2 Mb/s sambönd innan ATM-svæðis og til Reykjavíkur, upphæðir í krónum án VSK.


Vegalengd frá Múlastöð

Næsti ATM- punktur
    1.1.1998     1.6.1999     1.11.1999     Tillögur     Breyting í % Mesta breyting
í % frá 1.1.1998
Staður Leigulínur ATM Leigulínur ATM Leigulínur* ATM Leigulínur Innan ATM- svæðis Utan ATM- svæðis Leigulínur ATM
Höfuðborgarsvæðið 0 0 31.615 Ekki í boði 31.615 264.776 35.458 32.129 25.664 32.129 48.193 -27,62 0,00 -18,82
Suðurnes
Grindavík 73 24 264.575 Ekki í boði 264.575 493.436 62.603 89.332 50.169 32.129 48.193 -19,86
Vesturland
Akranes 52 0 247.297 Ekki í boði 247.297 264.776 54.220 53.815 42.397 32.129 48.193 -21,81 -10,45 -82,86
Hvanneyri 107 19 256.015 Ekki í boði 256.015 489.322 76.178 106.613 62.188 32.129 48.193 -18,36 -54,80 -81,18
Stykkishólmur 283 0 437.351 Ekki í boði 437.351 264.776 146.434 113.735 125.700 32.129 48.193 -14,16 -57,63 -88,98
Grundarfjörður 292 34 444.756 Ekki í boði 444.756 501.663 150.027 153.243 128.938 32.129 48.193 -14,06 -68,55 -89,16
Vestfirðir
Ísafjörður 435 0 562.409 Ekki í boði 562.409 264.776 207.112 153.414 180.395 32.129 48.193 -12,90 -68,59 -91,43
Suðureyri 500 27 615.887 Ekki í boði 615.887 495.904 233.060 190.132 203.785 32.129 48.193 -12,56 -74,65 -92,18
Norðurland vestra
Sauðárkrókur 326 0 472.730 Ekki í boði 472.730 264.776 163.600 153.414 141.173 32.129 48.193 -13,71
Siglufjörður 393 0 527.850 Ekki í boði 527.850 264.776 190.346 153.414 165.282 32.129 48.193 -13,17
Norðurland eystra
Akureyri 444 0 569.814 Ekki í boði 569.814 264.776 210.705 153.414 183.634 32.129 48.193 -12,85 -68,59 -91,54
Hrísey 405 53 537.727 Ekki í boði 537.727 517.296 195.136 200.507 169.420 32.129 48.193 -13,18 -75,96 -91,04
Húsavík 530 0 640.570 Ekki í boði 640.570 264.776 245.036 153.414 214.580 32.129 48.193 -12,43 -68,59 -92,48
Raufarhöfn 664 0 750.818 Ekki í boði 750.818 517.296 298.528 153.414 262.618 32.129 48.193 -12,03 -68,59 -93,58
Austurland
Bakkafjörður 707 100 786.196 Ekki í boði 786.196 555.965 315.694 219.269 278.092 32.129 -11,91 -85,35 -95,91
Vopnafjörður 728 70 803.474 Ekki í boði 803.474 531.282 324.077 207.293 285.648 32.129 48.193 -11,86 -76,75 -94,00
Borgarfjörður eystri 741 74 818.570 Ekki í boði 818.570 534.573 329.268 208.890 290.434 32.129 48.193 -11,79 -76,93 -94,11
Egilsstaðir 667 0 753.286 Ekki í boði 753.286 264.776 299.726 153.414 263.878 32.129 48.193 -11,96 -68,59 -93,60
Seyðisfjörður 692 25 773.855 Ekki í boði 773.855 494.259 309.706 189.329 272.874 32.129 48.193 -11,89 -74,55 -93,77
Reyðarfjörður 635 0 726.958 Ekki í boði 726.958 264.776 286.952 153.414 252.291 32.129 48.193 -12,08 -68,59 -93,37
Eskifjörður 650 15 739.300 Ekki í boði 739.300 486.031 292.940 185.337 257.761 32.129 48.193 -12,01 -74,00 -93,48
Neskaupstaður 674 0 759.045 Ekki í boði 759.045 264.776 302.520 153.414 266.397 32.129 48.193 -11,94 -68,59 -93,65
Fáskrúðsfjörður 640 44 731.072 Ekki í boði 731.072 509.891 288.948 196.914 254.162 32.129 48.193 -12,04 -75,53 -93,41
Stöðvarfjörður 617 59 712.149 Ekki í boði 712.149 522.232 279.766 202.902 245.886 32.129 48.193 -12,11 -76,25 -93,23
Breiðdalsvík 581 56 682.530 Ekki í boði 682.530 519.764 265.395 201.704 232.932 32.129 48.193 -12,23 -76,11 -92,94
Höfn 462 0 584.623 Ekki í boði 584.623 264.776 217.891 153.414 190.111 32.129 48.193 -12,75 -68,59 -91,76
Suðurland
Selfoss 59 0 253.056 Ekki í boði 253.056 264.776 57.014 53.815 45.096 32.129 48.193 -20,90 -10,45 -82,18
Laugarvatn 172 69 346.026 Ekki í boði 346.026 530.460 102.124 107.295 85.757 32.129 48.193 -16,03 -55,08 -86,07
Kirkjubæjarklaustur 265 154 422.542 Ekki í boði 422.542 600.393 139.249 201.147 119.222 32.129 48.193 -14,38 -76,04 -88,59
Vestmannaeyjar 151 0 328.749 Ekki í boði 328.749 264.776 93.740 73.092 78.201 32.129 48.193 -16,58 -34,07 -85,34
*Ný verðskrá fyrir leigulínur tók gildi 1. október 1999 en nóvember fyrir ATM/FR. Í verðdæmi fyrir höfuðborgarsvæðið er gert ráð fyrir 5 km leigulínu.

    „Hafinn verði undirbúningur að sölu Landssímans. Við sölu hans verði þess gætt að tryggja góða þjónustu á sem hagstæðustu verði við byggðir landsins og einnig að tryggja virka samkeppni á fjarskiptamarkaði.“
    Enn fremur segir á bls. 14 í skýrslu einkavæðingarnefndar:
    „Auk þeirrar almennu stefnumörkunar sem fram kemur í þessari yfirlýsingu hafa í tengslum við einstök verkefni á sviði einkavæðingar verið sett viðbótarmarkmið. Hafa þau ýmist komið fram í sérstakri lagasetningu, umfjöllun á Alþingi, í ákvörðunum ríkisstjórnar eða einstakra ráðherra. Jafnframt hafa verið sett fram almenn markmið með einkavæðingarstarfinu af hálfu framkvæmdanefndar um einkavæðingu.“
    Fyrsti minni hluti vill vekja athygli á eftirtöldum liðum sem snerta landsbyggðina meira en aðra og segja kannski allt sem segja þarf um þá ætlun ríkisstjórnarinnar að selja grunnnetið með öðrum hlutum Landssímans.
    Í 4. lið segir:
               „Að bæta stöðu ríkissjóðs. Með sölu á hlutabréfum ríkisins er unnt að greiða niður umtalsvert af skuldum ríkissjóðs og minnka þannig vaxtabyrði í framtíðinni.“
    Ef grunnnetið væri skilið frá sölunni mundi verðgildi Landssímans fyrir söluna auðvitað skerðast og minni tekjur koma í ríkissjóð til „að greiða niður umtalsvert af skuldum ríkissjóðs, og minnka þannig vaxtabyrði í framtíðinni“, eins og þar segir.
    Í 2. lið segir:
               „Að draga úr pólitískum áhrifum í fyrirtækjum. Reynslan sýnir að meiri faglegar kröfur eru gerðar til stjórnenda og þeir fá meira aðhald frá eigendum eftir einkavæðingu.“
    Hér er e.t.v. verið að vitna til þess þegar samgönguráðherra þurfti að skipa stjórn Landssímans á aðalfundi hans árið 2000 að taka sig saman í andlitinu og drífa í verðlækkun og útbreiðslu á gagnaflutningsþjónustu á landsbyggðinni, sem sjá má m.a. í töflunni hér á undan.
    Tilskipun samgönguráðherra þurfti til að knýja fram umrædda verðlækkun.
    Salan á því að vera til „að draga úr pólitískum áhrifum“ á stjórn fyrirtækisins.
    Í 7. lið segir:
              „Að draga úr áhrifum sérhagsmunahópa. Einkavæðing dregur úr möguleikum ýmissa sérhagsmunahópa til að þrýsta á um framleiðslu eða framleiðsluhætti sem eru óhagkvæmir.“
    Hér er sennilega verið að vitna til þess að t.d. alþingismenn af landsbyggðinni sem hafa mikla og víðtæka þekkingu á þörfum einstakra landshluta og byggðarlaga hafa e.t.v. beitt sér fyrir ýmsum úrbótum á þessu sviði. Einkavæðingarnefnd lítur á þessi atriði sem „sérhagsmuni“.
    Þetta eru kaldar kveðjur frá einkavæðingarnefnd til landsbyggðarbúa og segir meira en mörg orð. Þetta skýrir sennilega best tillögur nefndarinnar um að selja grunnnetið með Landssímanum í stað þess að halda því eftir í eigu ríkisins og nota þá eignaraðild til að auka og byggja grunnnetið enn frekar upp á landsbyggðinni og gera landsbyggðinni kleift að taka þátt í þeirri byltingu sem fram undan er á þessu sviði, sbr. þjónustu sem höfuðborgarbúum stendur til boða í þjónustu Línu.nets.

Ónýtt burðargeta.
    Væri grunnnetið sérstakt félag gætu stjórnendur þess lagt verulega áherslu á að koma ónýttri burðargetu í verð. Sem dæmi má nefna að nú kostar meira samkvæmt gildandi gjaldskrá að flytja 17 sjónvarpsrásir (grunnpakka breiðbandsins) á ljósleiðaranum en að reisa og reka jafnmarga gervihnattadiska t.d. á Blönduósi til að veita dagskránum inn á breiðbandskapalkerfi bæjarins, sem raunar er ekki komið í gang frekar en á flestum öðrum stærri stöðum úti á landi.
    Þó er enginn vafi á að þjóðhagslega væri mun hagkvæmara að flytja allar þessar dagskrár eftir fyrirliggjandi leið sem enn er að miklu leyti vannýtt.
    Þá er líklegt að stjórnendur grunnnetsins mundu leggja áherslu á að halda áfram uppbyggingu breiðbandsins út um landið þar sem nú þegar liggja verulegar ónotaðar fjárfestingar í jarðstrengjum sem ætlaðir eru fyrir breiðbandið en hafa ekki verið teknir í notkun enn.

Aukið úrval.
    Aðskilnaður grunnnetsins frá Landssímanum gæti mjög líklega leitt til aukins þjónustuúrvals og lækkaðs kostnaðar fyrir notendur fjarskiptaþjónustu á landsbyggðinni án frekari afskipta eða fyrirmæla í þá átt af hálfu ríkisvaldsins.
    Þá hefur einnig verið á það bent að landsbyggðin hefur í gegnum tíðina greitt gríðarlega fjármuni til Landssímans í formi hárra langlínugjalda.
    Þetta er viðurkennt í skýrslu einkavæðingarnefndar þar sem segir (bls. 50): ,,Af ýmsum ástæðum hafa föst gjöld fyrir talsímaþjónustu ekki fylgt verðlagsþróun síðustu áratuga en það hefur verið látið viðgangast vegna mikils hagnaðar af langlínu- og útlandagjöldum.“
    Þess vegna telja íbúar landsbyggðarinnar eðlilegt að þeir fá að njóta þess að hafa tekið fullan þátt og e.t.v. meiri en aðrir í að byggja kerfið upp og vilja fá að njóta þess í framtíðinni í verðskrám.

Meginmarkmið gildandi byggðaáætlunar.
    Í þingsályktun um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999–2001 sem samþykkt var á Alþingi 3. mars 1999 segir:
    „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd stefnumótandi áætlunar um byggðamál fyrir árin 1999–2001 sem hafi að markmiði að treysta búsetu á landsbyggðinni. Stefnt verði að því að fólksfjölgun þar verði ekki undir landsmeðaltali og nemi 10% til ársins 2010.“
    Þetta er göfugt markmið, en því miður er ekki starfað eftir því. Heildarsala Landssímans, þ.e. með grunnnetinu, verður ekki til að auka líkur á að því verði náð. Hætta er á að landsbyggðin sitji eftir hvað varðar framþróun á sviði fjarskipta og annarra verkefna á þessu sviði, m.a. hvað varðar flutning og möguleika á sjónvarpsefni.

Byggðastofnun meti áhrif lagasetningar.
    Í gildandi byggðaáætlun segir enn fremur:
    „Byggðastofnun meti reglulega áhrif lagasetningar, fjárlagagerðar og einstakra stjórnvaldsaðgerða á byggðaþróunina í landinu.“
    Eftir því hefur verið gengið að þetta verði gert en að áliti meiri hluta nefndarinnar var ekki tími til þess. Æskilegt hefði verið að fá álit Byggðastofnunar á því hvaða áhrif það hefði á framtíðarþróun þessara mála og hvaða þýðingu það hefði fyrir byggðaþróun í landinu á næstu árum að selja grunnnetið með Landssímanum.

Alþingi, 11. maí 2001.



Lúðvík Bergvinsson,


frsm.


Kristján L. Möller.