Ferill 731. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1408  —  731. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Maríönnu Jónasdóttur og Jónu Björk Guðnadóttur frá fjármálaráðuneyti, Ólaf Friðriksson frá landbúnaðarráðuneyti, Guðmund Sigþórsson frá ráðgjafarnefnd um verð á búvörum, Kjartan Gunnarsson frá viðskiptaráðuneyti, Kristján Andra Stefánsson frá forsætisráðuneyti, Stefán S. Guðjónsson og Guðrúnu Ástu Sigurðardóttur frá Samtökum verslunarinnar Félagi íslenskra stórkaupmanna, Elínu Björgu Jónsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Emil B. Karlsson frá Samtökum verslunar og þjónustu, Birgi Ármannsson frá Verslunarráði Íslands, Jóhannes Gunnarsson frá Neytendasamtökunum, Sigurgeir Þorgeirsson frá Bændasamtökum Íslands, Kjartan Ólafsson frá Sambandi garðyrkjubænda, Halldór Grönvold frá Alþýðusambandi Íslands og Guðmund Sigurðsson og Guðlaug Stefánsson frá Samkeppnisstofnun. Umsagnir bárust um málið frá Samtökum verslunarinnar Félagi íslenskra stórkaupmanna, Alþýðusambandi Íslands, Neytendasamtökunum og Samtökum verslunar og þjónustu. Einnig bárust gögn frá ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara og Samkeppnisstofnun.
    Frumvarpinu er ætlað að veita landbúnaðarráðherra aukið svigrúm til fjölga þeim grænmetistegundum sem unnt er að flytja inn á lægri tollum eða án tolla. Gert er ráð fyrir að hugsanlegt tekjutap ríkisins, nýti ráðherra heimildir sínar samkvæmt frumvarpinu til fulls, nemi í mesta lagi 150 170 millj. kr.
    Við meðferð málsins í nefndinni var töluvert um það rætt hvort sú heimild sem frumvarpið gerir ráð fyrir að landbúnaðarráðherra hafi til að lækka tolla væri of opin. Í 2. málsl. 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, segir að ekki megi fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann. Með hliðsjón af því að með því fyrirkomulagi sem frumvarpið gerir ráð fyrir kynni ráðherra að vera framselt of víðtækt vald til að taka ákvörðun um skattamál leggur nefndin til að bætt verði við 3. mgr. 6. gr. A tollalaga ákvæði um að ákvörðun landbúnaðarráðherra um lækkun tolls í samræmi við þá hundraðshluta verð- og/eða magntolls, sem skilgreindir eru í greininni, skuli ráðast af því hvort nægilegt framboð af viðkomandi vörum á hæfilegu verði sé til staðar á innanlandsmarkaði. Hundraðshlutar tolls hverrar vöru skuli vera hærri eftir því sem framboð á innlendri framleiðslu er meira en lækka að sama skapi eftir því sem framboð á innlendri framleiðslu minnkar. Við ákvörðun um hundraðshluta tolls skuli landbúnaðarráðherra leitast við að jafnræði ríki milli innlendrar og innfluttrar framleiðslu í samkeppnislegu tilliti.
    Með lögfestingu framangreinds ákvæðis telur nefndin að ráðherra séu sett ákveðin efnisleg viðmið sem honum beri að hafa til hliðsjónar við mat á því hvort umræddum heimildum skuli beitt. Því lítur nefndin svo á að með breytingartillögunni sé frekar komið í veg fyrir framsal skattlagningarvalds til ráðherra.
    Nefndin vekur athygli á að starfshópur um framleiðslu- og markaðsmál gróðurhúsa og garðávaxta sem skipaður var af landbúnaðarráðherra stefnir á að ljúka heildarendurskoðun á verðmyndun á garð- og gróðurhúsaafurðum fyrir haustið og telur mikilvægt að það takist. Við meðferð málsins í nefndinni kom fram að með þeim breytingum sem gerðar eru með frumvarpinu er stigið fyrsta skrefið í breytingum á umgjörð þessa markaðar. Nefndin bendir einnig á að samhliða þeim aðgerðum sem lagðar eru til í frumvarpinu er rétt að skoða stöðu garðyrkjubænda hér á landi heildstætt og kanna hvaða leiðir eru færar til úrbóta hvað samkeppnisstöðu þeirra varðar. Jafnframt gengur nefndin út frá að ráðherra nýti að fullu þær heimildir sem honum eru veittar með frumvarpinu til hagsbóta fyrir neytendur.
    Nefndin bendir á að mismunandi álit eru á því hvort forræði á úthlutun tollkvóta fyrir landbúnaðarafurðir eigi að vera í höndum landbúnaðarráðherra, en ekki fjármálaráðherra eins og almennt gildir um tollamál. Nefndin bendir á að þar sem málið er allt áfram til umfjöllunar gefist betra tækifæri til þess að fjalla um hvaða ráðherra eigi að úthluta tollkvótum.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    Við 1. gr. Greinin orðist svo:
    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 6. gr. A laganna:
     a.      Í stað orðsins „tolli“ í 2. málsl. kemur: verð- og/eða magntolli.
     b.      Við bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Ákvörðun landbúnaðarráðherra um lækkun tolls í samræmi við framangreinda hundraðshluta verð- og/eða magntolls skal ráðast af því hvort nægilegt framboð af viðkomandi vörum á hæfilegu verði er til staðar á innanlandsmarkaði. Hundraðshlutar tolls hverrar vöru skulu vera hærri eftir því sem framboð á innlendri framleiðslu er meira en lækka að sama marki eftir því sem framboð á innlendri framleiðslu minnkar. Landbúnaðarráðherra skal við ákvörðun um hundraðshluta tolls leitast við að jafnræði ríki milli innlendrar og innfluttrar framleiðslu í samkeppnislegu tilliti.

    Kristinn H. Gunnarsson og Gunnar Birgisson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 17. maí 2001.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Sigríður A. Þórðardóttir.


Páll Magnússon.



Guðmundur Hallvarðsson.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Margrét Frímannsdóttir.



Ögmundur Jónasson.