Horfur í efnahagsmálum

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 13:37:11 (3409)

2002-01-22 13:37:11# 127. lþ. 57.94 fundur 261#B horfur í efnahagsmálum# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[13:37]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að óska öllum þingmönnum gleðilegs árs og þakka þeim fyrir gott samstarf á liðnum árum.

Var það ekki örugglega fyrir síðustu jól, herra forseti, sem ríkisstjórnin lýsti því hvernig verðbólgan mundi senn hníga hægt en örugglega og var það ekki fyrir jólin sem ríkisstjórnin talaði líka um svigrúmið sem var að myndast til að lækka vexti þegar krónan mundi styrkjast? Jú, herra forseti. Ef mig misminnir ekki, þá var það einmitt fyrir síðustu jól. En ríkisstjórnin eins og svo margir aðrir að því er þetta varðar fór því miður í jólaköttinn.

Verðbólgan hækkaði milli desember og janúar tvöfalt meira en ætlað var og verðbólga síðustu 12 mánaða er 9,4% á meðan hún er ekki nema 2% í samkeppnislöndunum. Munurinn er fjór- eða fimmfaldur. Þetta eru ákaflega uggvænleg tíðindi fyrir samkeppnisstöðu okkar Íslendinga og það er mjög erfitt líka, herra forseti, að við þessar aðstæður er ekkert svigrúm til þess að lækka vexti sem var þó bjargráðið sem mörg fyrirtæki biðu eftir, einkum hin smærri fyrirtæki sem ekki geta sótt sér ódýrt fjármagn á evrusvæðið.

Við slíkar aðstæður getur gamall vítahringur orðið til að nýju þar sem verðbólgan með aðstoð vaxtaokurs leggur til eldivið á sitt eigið bál. Það er hins vegar hægt að grípa inn í þessa þróun en til þess þarf agaða efnahagsstjórn, til þess þarf líka agaða stjórn á ríkisfjármálum og til þess þarf líka að geta lært af mistökum síðustu ára.

Árin 1998 og 1999 eru að verða klassísk í hagfræðinni sem dæmi um hvernig afskiptaleysi og rangur skilningur stjórnvalda á frelsi í efnahagsmálum leiddi til ófara. Frelsi þýðir nefnilega ekki að stjórnvöld eigi að láta efnahagsmálin afskiptalaus.

Í dag erum við öll sammála um að það voru slæm mistök, ákaflega slæm mistök, að grípa ekki í tíma til aðgerða gegn viðskiptahallanum. Við skulum læra af þessu. Verkalýðshreyfingin sýndi ábyrgð þegar hún kvaddi ríkisstjórnina með sér til baráttu gegn verðbólgunni og hún lagði á borð með sér frestun á uppsögn launaliða kjarasamninga. Ég segi það líka hiklaust, herra forseti, að það var ákaflega jákvætt hvernig ríkisstjórnin brást við því. Vonbrigðin voru hins vegar því meiri þegar kom í ljós að stærsti liðurinn í hækkun vísitölunnar voru verðhækkanir á opinberri þjónustu. Átti það að koma á óvart? Nei, herra forseti. Það átti ekki að koma á óvart. Fulltrúar Samfylkingarinnar höfðu lagt fram útreikninga frá Þjóðhagsstofnun þar sem sýnt var svart á hvítu að hækkanir ríkisins hefðu umtalsverð verðbólguáhrif. Því var hafnað, enda lifa menn í Stjórnarráðinu eftir því mottói að hafa beri það sem rangt reynist fremur en fylgja útreikningum Þjóðhagsstofnunar.

Það sem við þurfum núna er víðtæk samstaða um að endurheimta stöðugleikann. Hún þarf að ná til ríkis, hún þarf að ná til sveitarfélaga og hún þarf að ná til markaðarins. Ríkisstjórnin þarf að kalla aftur þær hækkanir sem ég ræddi um áðan eins og hæstv. forsrh. hefur gefið góð fyrirheit um. En sveitarfélögin verða líka að hafa hemil á hækkunum sínum. Ríkisstjórnin ætti að benda þeim sveitarfélögum á fordæmi Reykjavíkurlistans sem hefur lækkað bæði hita, rafmagn og ýmsa aðra skatta meðan önnur sveitarfélög þeim miklu skyldari hafa beitt ýtrustu hækkunum. En síðast en ekki síst þarf samstöðu markaðarins og ég vil segja það úr þessum ræðustóli að Húsasmiðjan, BYKO og Fjarðarkaup eiga hrós skilið.

Það er hins vegar Svarti-Pétur í stokknum. Stóru keðjurnar hafa í skjóli einokunar keyrt upp matarverð. Hreðjatak þeirra á markaðnum hefur kallað fáheyrða dýrtíð yfir neytendur. Ég tel að ríkisstjórninni beri skylda til þess að feta í fótspor verkalýðshreyfingarinnar og fara í viðræður við þá aðila, krefjast þess í nafni þjóðarheillar að þeir sýni ábyrgð og þeir lækki matarverð. Ég held reyndar, herra forseti, að það ættu að vera hæg heimatökin. Er ekki rétt munað hjá mér að helsti trúnaðarmaður ríkisstjórnarinnar, Hreinn Loftsson, formaður einkavæðingarnefndar, sé enn þá stjórnarformaður Baugs? Ef fortölur duga ekki til, herra forseti, þá er það skoðun okkar í Samfylkingunni að Samkeppnisstofnun eigi að fá í hendur þau tæki sem hún þarf til þess að skipa fyrir um breytingar, þar á meðal að skipta upp slíkum einokunarrisum ef hún telur þess þörf til þess að vernda hagsmuni neytenda.

Að lokum vil ég, herra forseti, leggja þrjár spurningar fyrir hæstv. forsrh.:

Getur hann staðfest að fyrrnefndar gjaldskrárhækkanir ríkisins verði teknar aftur?

Hvaða líkur telur hæstv. forsrh. á því að ekki komi til uppsagnar launaliðar kjarasamninga í maí?

Til hvaða ráða ætlar ríkisstjórnin að grípa til þess að styðja það?