Horfur í efnahagsmálum

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 13:47:00 (3411)

2002-01-22 13:47:00# 127. lþ. 57.94 fundur 261#B horfur í efnahagsmálum# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[13:47]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það er ágætt til þess að vita að hæstv. forsrh. skuli vera glaður og ánægður. Og það er vissulega ágætt að í landinu virðist menn vera að vakna til vitundar um mikilvægi þess að koma böndum á verðbólgu. Verðhækkanir rýra kaupmátt þeirra sem búa við föst laun en verstar eru verðhækkanir sem bitna sérstaklega á þeim sem ekki geta aflað tekna vegna sjúkdóma eða örorku. Hækkanir á sjúklingagjöldum og lyfjum nú um áramótin bitna illa á þessu fólki og ef ríkisstjórnin vildi sýna í senn raunsæi og sanngirni væru þessar verðhækkanir afturkallaðar þegar í stað. Og það mætti þessi glaði og ánægði hæstv. forsrh. gera. Þessar hækkanir eru nefnilega á ábyrgð hans og ríkisstjórnar hans en verðlagsskrúfan er einnig á ábyrgð hennar þegar málin eru skoðuð í víðara samhengi.

Ef við lítum til undangengins áratugar hefur efnahagsþróun hér verið beint inn í farveg einokunar og fákeppni á markaði. Í fyrsta lagi er á það að líta að í skjóli kvótakerfis hefur orðið geysileg samþjöppun á fjármagni í sjávarútvegi og háar fjárupphæðir hafa verið teknar út úr þeirri grein og beint annaðhvort út úr landinu eða í verslun og fjárfestingarbrask eða inn á hlutabréfamarkað. Í öðru lagi kunna menn að minnast þess að hér voru til staðar ýmsir sjóðir til uppbyggingar í atvinnulífi, Fiskveiðasjóður og Iðnlánasjóður, sem síðar voru sameinaðir í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins sem að lokum var einkavæddur. En áður en það var gert voru þessir fjármunir almennings notaðir til að stuðla að eignatilfærslu í atvinnurekstri í landi. Og þetta hefur leitt til meiri einokunar í allri almennri vörudreifingu en dæmi eru um áður nema þegar horft er til dönsku einokunarverslunarinnar.

Það er gott og góðra gjalda vert að reyna að koma böndum á verðbólguna en við skulum ekki aðeins fást við einkenni heldur einnig rætur vandans. Við verðum að sjá skóginn fyrir trjánum, ekki síst þegar skógurinn brennur.