Horfur í efnahagsmálum

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 13:52:24 (3413)

2002-01-22 13:52:24# 127. lþ. 57.94 fundur 261#B horfur í efnahagsmálum# (umræður utan dagskrár), SvH
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[13:52]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Á tveimur mánuðum eða svo hafa fulltrúar atvinnulífsins og alþýðustéttanna dregið hæstv. ríkisstjórn að fundarborði til að gera henni grein fyrir því sem hún virtist ekki hafa vitað, hvert stefndi í fjármálum okkar og verðþenslumálum, sem hæstv. ríkisstjórn ber fullkomna ábyrgð á.

Það er auðvitað þakkarvert að verslun í landinu virðist ætla að taka við sér með þeim hætti að lækka verð á vöru sinni. Þó stendur þar margt út af og stóru keðjurnar virðast ekki ætla að taka þátt í leiknum. En hæstv. forsrh. tilkynnti í viðtali við Morgunblaðið í dag að það yrði mjög þrýst á um þetta enda fengi enginn að vera stikkfrí. Það fær enginn að vera stikkfrí nema hæstv. ríkisstjórn í verðþenslumálunum. Hvað er undirstaða þess að draga úr verðþenslu? Hvaða ráðum beita menn? Það er auðvitað stjórn ríkisfjármálanna sem hefur úrslitaþýðingu í því efni. Hvernig hefur verið haldið á þeim síðustu missirin og árin? Tökum dæmi um hækkun útgjaldaliða fjárlaga frá árinu 2000 til 2001. Í fjárlögunum um 13,5% og síðan eyddu menn eins og óðir væru heimildalaust 14,9 milljörðum þannig að hækkunin á milli ára nam nærri 20%. Þetta er auðvitað gjörsamleg vitfirring en það er ekki von að ríkisstjórnin uggi að sér þar sem formaður hennar málar stöðugt góðærismyndir á vegginn, og mér sýndist og heyrðist að hæstv. landbrh. væri byrjaður að sveifla penslinum.