Horfur í efnahagsmálum

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 13:59:02 (3416)

2002-01-22 13:59:02# 127. lþ. 57.94 fundur 261#B horfur í efnahagsmálum# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[13:59]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Það er stefna ríkisstjórnarinnar sem ræður mestu um stöðu og horfur í efnahagsmálum á hverjum tíma og það er stefna ríkisstjórnarinnar sem ræður umgjörð atvinnulífsins um allt land. Það byggir á stefnu ríkisstjórnarinnar hvernig heppnast að halda þenslu í skefjum á góðæristímum og koma í veg fyrir samdrátt í niðursveiflu.

Herra forseti. Mistök ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar í góðæri undanfarinna ára eru öllum landslýð ljós. Þensla og verðbólga sem við glímum við í dag var fyrirsjáanleg öllum þeim sem sjá vildu. Ólíklegt er að ríkisstjórninni takist betur að ráða við þær aðstæður þegar kreppir að í efnahagslífinu.

[14:00]

Skuldasöfnun þjóðarbúsins erlendis hefur veikt stöðuna mjög, en eftir langvarandi viðskiptahalla eru erlendar skuldir nú um 100% af árlegri landsframleiðslu. Tekin eru erlend lán til að standa undir viðskiptahalla sem að meginhluta hefur verið varið til að standa undir uppbyggingu í þjónustugreinum og neyslu sem hvorki var innstæða fyrir né að það hafi skapað grundvöll fyrir aukinn framtíðarhagvöxt. Hugmyndir ríkisstjórnarinnar um auknar erlendar lántökur til að framlengja gervigóðærið sem með þeim hætti er búið til eru því afar hæpnar þegar til lengri tíma er litið. Þótt vöruskiptin kæmust í jafnvægi stendur eftir langur hali af erlendum vaxtagreiðslum sem mun nema tugum milljarða kr. á komandi árum og viðhalda gjaldeyrisflæði úr landi sem veikir gengið og dregur úr hagsæld hérlendis.

Herra forseti. Það er sjálfsagt að borin sé virðing fyrir einstökum rauðum strikum í verðbólgu- og vísitölumælingum og það er svo sem gott og blessað að fákeppnisaðilar auglýsi eftir jólavertíðina lækkun á verði á vöru og þjónustu á því tímabili ársins þegar eftirspurnin er minnst. En að efnahagsstefna heillar ríkisstjórnar skuli rekin áfram með því að knýja fram á þriggja mánaða fresti yfirlýsingar frá fákeppnisaðilum í verslun og þjónustu er fullkomlega óásættanlegt.

Herra forseti. Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar er vandinn í efnahagsmálum þjóðarinnar.