Horfur í efnahagsmálum

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 14:01:33 (3417)

2002-01-22 14:01:33# 127. lþ. 57.94 fundur 261#B horfur í efnahagsmálum# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[14:01]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Þegar spurt er um horfurnar í efnahagsmálum þarf að huga að ýmsum þáttum. Það sem við sjáum blasa við í atvinnumálum er að atvinnustig er hátt og ekki verður annað séð en svo verði áfram. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem leggja grunninn að stóriðjuáformum á næstu árum treysta undirstöður atvinnulífsins.

Kaupmáttur er sjáanlega hár og fyrirsjáanlegt er að hann verði svo áfram, m.a. vegna aðgerða sem stjórnarflokkarnir hafa gripið til með lækkun skatta. Viðskiptahalli sem var mikill um árabil fer mjög minnkandi og horfurnar í þeim efnum eru mjög góðar eins og fram hefur komið. Horfurnar varðandi verðbólguna hníga líka í þá átt, m.a. vegna þeirrar samstöðu sem tekist hefur milli allra aðila, ríkisstjórnar, verkalýðshreyfingar og atvinnulífs, um að lækka verðbólguna. Verður ekki annað séð en útlitið í þeim efnum sé gott á næsta eða þessu ári. Í kjölfarið á öllu þessu má búast við að vextir muni síðan lækka, sem mjög hefur verið beðið eftir. Ástæðan fyrir því að vextir hafa ekki lækkað meira en orðið er er m.a. vegna þess að snúningurinn í efnahagslífinu hefur verið það mikill að ekki hefur þótt ástæða til og rétt á þeim tímapunkti að lækka vexti.

Ég vil hins vegar taka undir sumt af því sem fram hefur komið hér hjá ræðumönnum. Ég hef m.a. áhyggjur af ýmsum einkennum í íslensku efnahagslífi sem benda til fákeppni og einokunar. Við sjáum það blasa við víða í atvinnulífi okkar, t.d. í bensín- og olíusölu, flutningum á sjó og landi og áætlunarflugi þar sem áður ríkti samkeppni en nú er farið að styrkja í ríkara mæli. Við sjáum merki um þetta í smásöluverslun, heildsöluverslun og fjarskiptaþjónustu svo að dæmi séu nefnd. Þarna er verk að vinna fyrir ríkisstjórnina.