Horfur í efnahagsmálum

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 14:10:08 (3421)

2002-01-22 14:10:08# 127. lþ. 57.94 fundur 261#B horfur í efnahagsmálum# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[14:10]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Þetta hefur verið gagnleg umræða vegna þess að þrátt fyrir orð hv. síðasta ræðumanns hefur skinið í gegnum umræðuna að menn átta sig á því að batnandi hagur er fram undan hjá okkur og þeir sem höfðu tekið vonleysiskast nú á haustmánuðum eru flestir úr því kasti komnir og sjá að fram undan eru mjög góð skilyrði fyrir íslenskan efnahag og íslenska þjóð. Það er að ganga eftir, sem kannski ekki allir höfðu trú á, að gengið mundi styrkjast. Við vitum að verðbólguskotið á liðnu ári átti mesta rót að rekja til lækkunar gengis krónunnar. Við erum innflutningsþjóð. Við lifum á innflutningi að verulegu leyti. Við komumst ekki hjá því og breyting á mati á verði krónunnar okkar hlýtur að leiða til hækkandi vöruverðs, þ.e. ef gengið lækkar. Nú þegar það hækkar á nýjan leik jafnt og þétt leiðir það með sama hætti, og a.m.k. á að leiða til þess með sama hætti, að verðlag fari lækkandi og hagur manna styrkist hvað það varðar. Auðvitað á að fylgja því eftir að stórir aðilar séu ekki að misnota aðstöðu sína. Auðvitað er 60% eignaraðild í matvælafyrirtækjum, verslunarfyrirtækjum í matvælaiðnaði, allt of há hlutdeild. Auðvitað er það uggvænlegt og sérstaklega þegar menn hafa á tilfinningunni að menn beiti ekki því mikla valdi sem þeir hafa þar af skynsemi. Auðvitað hlýtur að koma til greina af hálfu ríkisins og Alþingis að skipta upp slíkum eignum ef þær eru misnotaðar.