Barnaverndarlög

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 14:21:51 (3423)

2002-01-22 14:21:51# 127. lþ. 57.1 fundur 318. mál: #A barnaverndarlög# (heildarlög) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[14:21]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég fagna þessu frv. og því að í vændum sé lögfesting heildarendurskoðunar á barnaverndarlögum. Ég held að menn séu almennt sammála um að full þörf sé orðin á að uppfæra þá löggjöf einu sinni enn, sem mun fyrst hafa komið til sögunnar á fjórða áratugnum og hefur síðan að sjálfsögðu tekið miklum breytingum í tímans rás en núgildandi lög eru að stofni til frá 1992, væntanlega með einhverjum breytingum sem orðið hafa á þeim síðar, m.a. vegna hækkunar sjálfræðisaldurs og fleiri þátta.

Á því er enginn vafi að viðhorf manna til meðferðar mála af þessu tagi hafa breyst. Það eru gerðar allt aðrar og meiri kröfur um að vandað sé til verka en áður var, án þess að kastað sé rýrð á hið ágæta starf að þróun mála á þessu sviði hér hjá okkur. Til sögunnar hafa komið breytt viðhorf, alþjóðlegir sáttmálar og lögtaka mannréttindaákvæða, svo eitthvað sé nefnt, og breytt samfélagsviðhorf af ýmsu tagi þar sem mannréttindi og mannhelgi eru sett í annað samhengi en áður. Það er að sjálfsögðu vel þó líka sé hollt að minnast þess að eitt eru falleg orð á blaði og annað er veruleikinn, eins og hann blasir við okkur víða um þessar mundir því miður. Það fer ekki mikið fyrir réttindum barna í mörgum stríðshrjáðum löndum heimsins um þessar mundir. Þess er hollt að minnast þegar rætt er um þessi mál.

Hér er um mjög viðamikla löggjöf að ræða. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að hún hljóti að þurfa að vera það. Þótt það sé oft gott og göfugt markmið að reyna að einfalda löggjöf og búa til sem einfaldasta og skýrasta rammalöggjöf eru hér á ferðinni málefni og reglusetning af því tagi að ég held að óhjákvæmilegt sé að löggjafinn setji tiltölulega skýr og afdráttarlaus lög um málsmeðferð og leikreglur í öllum aðalatriðum. Reglugerðarsetning eða svigrúm framkvæmdaraðila til að beita túlkunum væri í þessu tilviki mjög varasöm, eins og reynslan sýnir. Það má velta því fyrir sér hvort ekki þurfi að fara varlega í að láta dómaþróun ráða of mikið ferðinni, hafa frekar löggjöfina tiltölulega ítarlega og skilja lítið svigrúm eftir til túlkunar, handahófskenndra framkvæmda eða dóma. Þetta segi ég ekki vegna þess að mér sé ekki vel ljóst að allir reyna að gera sitt besta sem að þessum málum koma. Staðreyndin er hins vegar að aðstæður eru oft mjög erfiðar í málum sem þessu tengjast og menn misjafnlega vel í stakk búnir til að takast á við þau. Í fámennu landi vilja koma upp nálægðarvandamál og vanhæfnisaðstæður af ýmsu tagi og þannig má áfram telja. Þá er að breyttu breytanda, þó að það kosti Alþingi vinnu og þó að það kosti viðamikla lagasetningu, betra að reyna að búa sæmilega rækilega um hnútana.

Ég veit að undirbúningur þessa máls hefur verið vandaður. Það kemur fram í greinargerð hvernig að þessu hefur verið unnið. Hæstv. ráðherra kom líka inn á það. Það gefur manni ástæðu til að ætla að nokkuð góð sátt ætti að geta tekist um afgreiðslu málsins enda er það afar mikilvægt. Það er vont að útkljá í miklum ágreiningi atriði sem þessa hluti varða. Öllum er fyrir bestu að gefa sér fremur tíma til að ræða málin til þrautar og komast að samkomulagi. Ég vona að Alþingi nái því á þessu þingi, í öllu falli á þessu kjörtímabili, að klára þetta mál þannig að það þing sem nú starfar og hefur áður fengist við þetta frv., þ.e. nánast óbreytta útgáfu þess, nái að ljúka því verki.

Það eru nokkur efnisatriði sem ég ætla að tæpa hér á í fyrstu umfjöllun málsins. Ég fer þar hratt fyrir sögu. Bæði er að ef ræða ætti einstök efnisatriði frv. almennt þá tæki það langan tíma. Eins á ég sæti í hv. félmn. sem kemur til með að fjalla um málið og hef þar aðstöðu til að koma sjónarmiðum mínum á framfæri. Sú nefnd hlýtur auðvitað að þurfa að fara mjög rækilega yfir þetta mál. Hún mætti gjarnan gera það í anda gamalla siða, lesa það frá orði til orðs og ræða í samhengi við skýringar á efni þess.

Í fyrsta lagi eru í fyrstu greinum frv. dregnar saman meginreglur barnaverndarstarfs. Það er sjálfsögðu eðlilegt upphaf málsins. Hér er ekki þörf á hugtakaskýringum með sama hætti og stundum er farið út í þegar um mjög tæknileg mál er að ræða. Ég hygg að flestöll hugtök hér séu mönnum sæmilega ljós og skýr. En það er að sjálfsögðu rétt að draga fram meginreglur barnaverndarstarfs og réttindi barna, skyldur foreldra og annarra sem að þessum málum koma.

Það sem hefur hvarflað að mér er að t.d. í 4. gr. frv. gæti verið ástæða til að vitna til eða vísa með beinum hætti í mannréttindaákvæði og ákvæði sáttmála, alþjóðsáttmála eins og mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Að vísu er komið inn á það í athugasemdum að að sjálfsögðu er orðalagið í frv. með hliðsjón af þessum samningum. Það er að sjálfsögðu rétt og skylt. Það kemur oft til álita við aðstæður af þessu tagi hvort ekki beri að vísa beint, í sjálfum lagatextanum, til þeirra grundvallarsjónarmiða, meginsjónarmiða í mannréttindaákvæðum, t.d. í stjórnarskrá og svo í alþjóðasamningum sem hafa ber til hliðsjónar og gengið er út frá.

[14:30]

Sem betur fer eru barnaverndarákvæði og mannréttinda\-ákvæði sem snúa að börnum sérstaklega tiltölulega óumdeild í heiminum. Og ég hygg að barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna sé sá sáttmáli Sameinuðu þjóðanna sem einna flestar þjóðir hafa undirritað. Það eru líklega ekki nema tvö lönd, sjálfstæð ríki, sem ekki hafa fullgilt þann samning. Annað er Afríkuríki en hitt eru Bandaríki Norður-Ameríku, svo dapurlegt sem það nú er að þannig skuli málum háttað.

Í öðru lagi, herra forseti, er í frv. fjallað um það breytta skipulag sem leiðir af tilkomu kærunefndar barnaverndarmála og þeirra breytinga sem í raun hafa fylgt breyttri málsmeðferð frá því að barnaverndarráð var við lýði og yfir í það sem nú er að verða niðurstaðan með málskotsrétti til kærunefndar og síðan með því hlutverki sem dómstólar fá þá þegar beita þarf forsjársviptingu og öðrum hliðstæðum aðgerðum sem fela í sér einhverja skerðingu á borgaralegum réttindum. Ég hygg að þetta sé eðlileg þróun og í samræmi við réttarfarsþróun okkar almennt að standa svona að málum. Í sjálfu sér er ekki meira um það að segja.

Í 9. gr. frv. eru atriði sem ég vil aðeins koma inn á. Þar er sömuleiðis um nýmæli að ræða. Það eru framkvæmdaáætlanir sveitarfélaga á sviði barnaverndarmála sem að sjálfsögðu eru góðra gjalda verðar en þá ber að skoða það samhengi að mjög fámennum sveitarfélögum er gert skylt að leita eftir samstarfi við nágranna sína um barnaverndarmál og skipan barnaverndarnefnda. Þetta er að sjálfsögðu gert af þeim skiljanlegu ástæðum að reyna að koma í veg fyrir að þessi mál séu unnin í of miklu návígi og fámenni. Ég held að reynslan hafi ótvírætt sýnt að þetta er til mikilla bóta. Það er til bóta að stækka starfssvæði barnaverndarnefnda og búa til þannig einingu að minni líkur séu á að stjórnkerfið sem slíkt eða framkvæmdaraðili í málinu geti meira og minna allur orðið vanhæfur vegna tengsla við mál í mjög litlu samfélagi.

Ef ég hef lesið rétt er hins vegar ekki gert ráð fyrir að starfssvæði slíkra barnaverndarnefnda eða framkvæmdasvæðis í þessum málum falli saman þegar kemur að gerð framkvæmdaáætlunar og þá er spurningin: Er meiningin eða er skynsemi í því að mörg lítil sveitarfélög sem hafa með sér samstarf um barnaverndarmál og skipa sameiginlega í barnaverndarnefnd í heilu héraði eða sýslu skuli eftir sem áður hvert fyrir sig gera framkvæmdaáætlun. Ég held að það ætti að athuga ef ég hef skilið eða lesið þetta rétt. Ég tek fram að þetta er bara lausleg athugun en mér sýnist að þarna gæti a.m.k. verið ástæða til að athuga hvort ekki væri þá réttara að menn gætu sömuleiðis sameinast um framkvæmdaáætlun fyrir slíkt svæði. Í reynd væri kannski verkefni sveitarfélaganna sem slíkra í aðalatriðum fært upp á þetta samstarfssvæði.

Ég tel sem sagt, herra forseti, að enginn vafi sé á því að efling og stækkun barnaverndarumdæmanna er til bóta. Það má lengi deila um viðmiðunarmörk í þessum efnum og hvort íbúatalan 1.500 sé rétt má sjálfsagt færa rök fyrir á báða bóga, en ég hygg þó að miðað við aðstæður í ýmsum af fámennari héruðum landsins sé þetta ekki fjarri lagi því það er náttúrlega líka sjónarmið að ýta þessum mörkum ekki svo mikið upp á við að til verði landfræðilega óhemjustór svæði sem erfitt sé að samræma starfið á.

Þá er einnig komið að ýmsu sem lýtur að upphafi barnaverndarmála og hvernig staðið skuli að. Í V. kafla frv. eru ákvæði sem ég held að séu mjög til bóta, að alltaf liggi ljóst fyrir með hvaða hætti skuli hefja athugun á máli og hvaða greinarmun skuli gera á annars vegar upphafinu þegar tilkynning kemur eða barnaverndaryfirvöld fá ástæðu til að ætla að einhvers staðar sé pottur brotinn og svo hinu þegar kemur að beinum aðgerðum og hvernig að slíkum ákvörðunum sé þá staðið.

Að síðustu, herra forseti, vil ég nefna aðeins af efnisatriðum í frv., ákvæði í kafla XVII. Þar er fjallað um ýmis almenn verndarákvæði og þar með talið þátttöku barna í fyrirsætu- og fegurðarsamkeppnum sem er svona --- það er með blendnum huga sem maður fer út í að ræða að það skuli yfirleitt vera þörf á því að setja í lög ákvæði sem taka til þátttöku barna, ósjálfráða barna í slíkum hlutum en veruleikinn er eins og hann er og höfundar frv. hafa að sjálfsögðu mikið til síns máls í því að menn verða að horfast í augu við hann og setja þá ákvæði í samræmi við hann. Þennan kafla, herra forseti, hefði ég gjarnan viljað sjá ítarlegri. Mér fyndist mega koma mjög vel til skoðunar að taka fleira undir þessi almennu verndarákvæði. Þarna er um að ræða í fyrsta lagi ákvæði um útivistartíma í 92. gr. Það er eftirlit með sýningum og skemmtunum og þar koma inn þessi ákvæði um fyrirsætustörf og fegurðarkeppnir og annað því um líkt og sérstaklega þegar þátttakendur eru yngri en 18 ára. Og svo sömuleiðis eftirlit með leiksýningum og hvers konar opinberum sýningum eða skemmtunum ætluðum börnum. Inn í þetta er svo væntanlega ákvæðum í sérlögum, t.d. um kvikmyndaeftirlit og annað slíkt, ætlað að fylla en mér fyndist, herra forseti, mega skoða hvort ekki ættu að koma þarna sömuleiðis almenn ákvæði til að vernda börn fyrir t.d. ofbeldisefni og þvílíku. Það mætti vísa í því sambandi til laga um kvikmyndaeftirlit, það mætti vísa í lög um samkeppnismál þar sem eru sérstök ákvæði um vernd barna og ungmenna fyrir innrætandi auglýsingum og annað í þeim dúr en inn í barnaverndarlögin sjálf kæmu líka einhver almenn ákvæði sem þarna væri við að styðjast þannig að barnaverndaryfirvöld gætu líka beitt sér í slíkum málum. Ég tel fulla ástæðu til að athuga það, herra forseti, og ég leyfi mér að minna á að ég hef flutt endurtekið á Alþingi, oftast með meðflutningsmönnum úr öllum flokkum, till. til þál. um að tekið verði sérstaklega á öllu sem lýtur að gríðarlegu framboði ofbeldisefnis í öllu umhverfi okkar og þar með og ekki síst barna og ungmenna. Þar er að sjálfsögðu við ramman reip að draga en menn gera ekki mikið gagn í þeim efnum ef menn hafa ekki einhverjar tilraunir og tilburði uppi til þess að glíma við þá ógn sem ég tel tvímælalaust að mönnum stafi af ofbeldisdýrkun og óheftu flæði ofbeldisefnis af nánast öllu tagi í okkar samtíma. Ég held að það sé ekkert síður ástæða til að reyna að hafa uppi almenn viðmið og markmið í þeim efnum eins og á við um aðra hluti eins og útivistartíma, fegurðarsamkeppnir eða annað í þeim dúr.

Herra forseti. Þetta voru þau efnisatriði sem ég ætlaði aðeins að koma inn á við 1. umr. málsins en ítreka og endurtek að ég fagna framkomu þessa frv. og vona að það muni leiða til farsællar heildarendurskoðunar á lögunum.