Forvarnasjóður

Miðvikudaginn 23. janúar 2002, kl. 14:02:26 (3473)

2002-01-23 14:02:26# 127. lþ. 59.2 fundur 352. mál: #A Forvarnasjóður# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 127. lþ.

[14:02]

Ásta Möller:

Herra forseti. Forvarnastarf þarf að byggja á sem bestum rannsóknum til að hægt sé að taka ákvörðun um áherslur og aðferðir til að ná árangri. Ég hef með áhuga fylgst með starfi áfengis- og vímuvarnaráðs, sem hóf störf sín í janúar 1999. Eins og komið hefur fram er það áfengis- og vímuvarnaráð sem gerir tillögur til ráðherra um úthlutun á fé úr Forvarnasjóði. Ráðið hefur frá byrjun lagt áherslu á að starfa í þeim anda að leggja mikla vinnu í að afla sem bestra upplýsinga, m.a. um stöðu áfengis- og vímuvarna og neyslu ungmenna og meta árangur af starfi þeirra.

Ég man t.d. eftir því að ráðið lagði strax í byrjun áherslu á að útrýma áfengi úr grunnskólum og þrátt fyrir þennan stutta starfstíma hefur þegar sést árangur af því með því að gefa þessi skýru skilaboð. Með stofnun Forvarnasjóðs hefur úthlutun styrkja til hópa og einstaklinga, sem vinna að forvörnum á sviði áfengis og vímuefna verið sett í ákveðinn farveg. Ég geri ráð fyrir því að úthlutanirnar taki mið af áherslum stjórnvalda og áfengis- og vímuvarnaráðs á hverjum tíma þannig að fjármagnið nýtist sem best.

Mér finnst þetta til fyrirmyndar og tek undir það með hv. þm. Pétri Blöndal.