Loftferðir

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 11:44:13 (3530)

2002-01-24 11:44:13# 127. lþ. 60.2 fundur 252. mál: #A loftferðir# (eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar, flugvernd, gjöld o.fl.) frv., Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[11:44]

Frsm. minni hluta samgn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að síðasta ræða hv. formanns samgn. finnst mér vera rökstuðningur fyrir því að málið komi á ný til nefndar því ég gat ekki betur heyrt en hv. þm. hafi bara ekki mikið kynnt sér þetta mál.

Tvenns konar gagnrýni hefur komið fram. Hv. þm. á ekki að grípa fram í. Í fyrsta lagi að sú stofnun sem nú á að fela allt þetta vald hafi ekki getu til þess að sinna því. Í öðru lagi er mikil gagnrýni frá mjög mörgum aðilum sem gera miklar athugasemdir við einstakar greina. Hv. þm. ákveður að skjóta sér undan því í þessari umræðu en snýr umræðunni upp í það að hér sé um einhverjar móralíseringar að ræða, móralíseringar sem gangi út á að fjalla um einstök deilumál. Við erum ekki í því hér. Það er ekki okkar hlutverk. Hlutverk okkar er að setja hinn stóra ramma utan um þessa stofnun. Hlutverk okkar er að ákveða hver verkefni hennar eiga að vera. Hlutverk okkar er að tryggja að hægt verði að fara eftir þessum reglum. Það er okkar hlutverk. En þegar maður hlýðir á ræður eins og þær sem hv. þm. flutti hér þá er það klárlega mitt mat að rík ástæða sé til þess að málið komi að nýju til nefndarinnar því ég er ekki viss um að hv. þingmenn meiri hlutans þekki það sem skyldi.