Loftferðir

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 12:13:45 (3542)

2002-01-24 12:13:45# 127. lþ. 60.2 fundur 252. mál: #A loftferðir# (eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar, flugvernd, gjöld o.fl.) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[12:13]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka það að þær efnislegu athugasemdir sem eru í nál. minni hlutans og komu einmitt fram hjá mörgum þeirra sem gerðu athugasemdir við frv. eru einmitt við það að án frekari skoðunar sé Flugmálastjórn fengið það vald og þær skyldur að vera sá sem veitir rekstrarleyfið, veitir ráðgjöf og þjónustu, annast eftirlitið, beitir viðurlögum og dómum og tekur út.

Ég verð að segja fyrir mig að ég hefði viljað fá nánari greinargerð á því hvort Flugmálastjórn væri þannig uppbyggð að hún réði við að taka að sér svona margþætt stjórnsýsluhlutverk sem skarast við sjálft sig eða býður upp á hagsmunaárekstra, og ég tel að slíkrar greinargerðar hefði verið þörf. Það var verið að vitna í einstakar umsagnir til nefndarinnar sem mér finnst alveg á mörkunum að vera siðlegt í sjálfu sér en þó er það gert. Þá hefði átt að lesa þær allar upp. Ég get þá vitnað í eina umsögn sem kemur frá Garðaflugi ehf. þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Það er með ólíkindum hvaða vald er sett í hendur Flugmálastjórnar með þessum greinum.`` Síðan er talið upp og þar er einmitt varað við því að setja inn að sektarákvæðin verði eitt megininntakið fyrir Flugmálastjórn að beita, og óttast að í stað þess að veita ráðgjöf og leiðandi þjónustueftirlit grípi menn til þess að vera innheimtustofnun fyrir ríkið. Fleiri atriði hefði mátt skoða frekar þannig að málið átti að fá miklu meiri undirbúning og meðhöndlun en vera afgreitt úr nefnd í bakherbergi og án þess að vera á dagskrá.