Afstaða Bandaríkjastjórnar gagnvart Palestínu

Mánudaginn 28. janúar 2002, kl. 15:19:46 (3605)

2002-01-28 15:19:46# 127. lþ. 61.1 fundur 270#B afstaða Bandríkjastjórnar gagnvart Palestínu# (óundirbúin fsp.), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 127. lþ.

[15:19]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Fréttir voru að berast af því að Bandaríkjastjórn sé að hugleiða að setja heimastjórn Palestínumanna undir forsæti Yassers Arafats á lista stjórnvalda vestra yfir hryðjuverkahópa. Slík ráðstöfun mundi án efa gera friðarumleitanir fyrir botni Miðjarðarhafs að engu, en málið verður rætt á fundi utanríkisráðherra Evrópusambandslandanna í dag, eins og komið hefur fram í fréttum.

Anna Lindh, utanríkisráðherra Svíþjóðar, hefur af þessu tilefni látið eftir sér hafa að hótanir Bandaríkjastjórnar um að stimpla heimastjórnina sem hryðjuverkahóp séu bæði óviðeigandi og heimskulegar og gætu leitt til allsherjarstyrjaldar í Miðausturlöndum.

Bandaríkin hafa verið helsti bakhjarl Ísraelsríkis frá stofnun þess árið 1948. Ekkert ríki fær jafnmikla fjárhagsaðstoð frá Bandaríkjunum og viðskipti þessara tveggja ríkja með vopn, Apache árásarþyrlur, skriðdreka og F-16 orrustuflugvélar hafa verið blómleg.

Yasser Arafat er réttkjörinn leiðtogi Palestínumanna hvort sem fólki líkar það betur eða verr. Með því að einangra heimastjórnina og setja Arafat í stofufangelsi er aðeins verið að styrkja öfgasamtök á borð við Heilagt stríð og Hamas, íslamistana í hópi Palestínumanna. Við hverja hyggst ríkisstjórn Ariels Sharons semja setjist hún einhvern tíma að friðarsamningaborðinu? Ætlar hún að semja við kvislingana í hópi Palestínumanna?

Áhrif Bandaríkjanna í Ísrael eru mikil eins og alkunna er og því verður að líta það alvarlegum augum ef helsti bakhjarl óslóarsamkomulagsins telur það ekki lengur hlutverk sitt að stuðla að friði á milli Ísraela og Palestínumanna en kyndir undir ófriðnum með þeim hætti sem nú hefur gerst.

Hér á landi hefur myndast þverpólitísk samstaða um að styðja sjálfskvörðunarrétt Palestínumanna og tilverurétt Ísraelsríkis. Siðferðileg og pólitísk ábyrgð okkar er mikil gagnvart Palestínumönnum og Ísraelsmönnum en það er ekki síður á okkar ábyrgð að spyrja fulltrúa bandarískra stjórnvalda hér á landi, vinaþjóðar okkar og bandalagsþjóðar í vestri, hvernig standi á þessum yfirlýsingum og hvort hæstv. utanrrh. ætli ekki örugglega að gera athugasemdir fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands og Alþingis um þetta efni.