Afstaða Bandaríkjastjórnar gagnvart Palestínu

Mánudaginn 28. janúar 2002, kl. 15:22:07 (3606)

2002-01-28 15:22:07# 127. lþ. 61.1 fundur 270#B afstaða Bandríkjastjórnar gagnvart Palestínu# (óundirbúin fsp.), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 127. lþ.

[15:22]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það hefur komið skýrt fram af minni hálfu að við styðjum friðarferlið í Miðausturlöndum og við styðjum það með þeim hætti að það fari fram milli Ísraelsmanna og heimastjórnar Palestínumanna undir forustu Yassers Arafats.

Það liggur alveg ljóst fyrir að þetta sem við höfum kallað friðarferli er í algjöru uppnámi og það ríkir mikil svartsýni á þessu sviði. Ég ræddi þetta mál í síðustu viku við utanríkisráðherra Spánar sem nú fer með forustu fyrir hönd Evrópusambandsins, og Evrópusambandið hefur miklar áhyggjur af stöðu mála fyrir botni Miðjarðarhafs.

Ég tel að eina leiðin til að endurvekja friðarferlið sé tala við heimastjórnina undir forustu Yassers Arafats. Ég sé enga aðra leið. Hvort heimastjórnin hefur aftur á móti brotið einhverjar reglur hef ég ekki vitneskju um og ætla ekki að dæma um. En þar er um réttkjörna heimastjórn að ræða og það er enginn annar aðili sem hægt er að ræða við í þessu sambandi.

Ég vona svo sannarlega að friðarferlið geti hafist á nýjan leik. En það verður að segjast alveg eins og er að ekkert bendir til þess við núverandi aðstæður og ég tel að þær yfirlýsingar sem nú hafa komið frá Bandaríkjamönnum séu ekki hjálplegar í því sambandi, svo ekki sé meira sagt.