Bókhald, ársreikningar og tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 28. janúar 2002, kl. 16:21:21 (3635)

2002-01-28 16:21:21# 127. lþ. 61.11 fundur 347. mál: #A bókhald, ársreikningar og tekjuskattur og eignarskattur# (reikningshald í erlendum gjaldmiðli) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 127. lþ.

[16:21]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það er rétt sem fram kom í máli hæstv. fjmrh. að ýmsir þingmenn hafa kallað eftir því að íslenskum fyrirtækjum yrði sköpuð sú aðstaða sem ætlunin er að gera með því frv. sem hér liggur fyrir, þ.e. þau geti fært bókhald sitt og ársreikninga í erlendum gjaldmiðli.

Mönnum er flestum, velflestum hér á Alþingi, afskaplega vel ljós sú staða íslenskra fyrirtækja að búa við lítinn heimamarkað með litlum gjaldmiðli og auðvitað vilja menn gjarnan taka þátt í því að leita leiða til þess að jafna samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja svo sem unnt er.

Við í Samfylkingunni höfum m.a., eða einstöku þingmenn, hvatt til þess að frv. sem þetta verði lagt fram. Við höfum verið með fyrirspurnir til þess að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort og þá hvernig sú vinna færi fram, nú síðast hv. þm. Gísli Einarsson 14. nóvember sl. Við höfum tekið þátt í umræðum um það hvað mætti verða til þess að bæta stöðu íslensks atvinnulífs.

En það er nú svo, herra forseti, að það hefur ekki allt endilega gefist vel sem reynt hefur verið og þar vil ég nefna erlendu viðskiptafélögin sem menn ætluðu hér nokkurt hlutverk en hefur minna orðið úr en efni stóðu til og væntingar voru gefnar um. Við gerum okkur einnig mætavel grein fyrir því að þær skattbreytingar sem hæstv. ríkisstjórn fór í núna fyrir jólin voru ekki hvað síst hugsaðar til þess að bæta samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs og má kannski segja að menn séu hér að leita leiða til þess að bæta íslenskum fyrirtækjum upp það óhagræði sem skapast af því að Ísland stendur og mun í næstu framtíð standa utan evru-svæðisins, nema hvað það varðar að við erum skuldbundin til þess að taka yfir ýmsar af gerðum Evrópusambandsins án þess þó að fá að njóta ýmissa þeirra kosta sem kynnu að vera því samfara að vera innan sambandsins.

Herra forseti. Það er alveg rétt sem fram kom hjá hæstv. ráðherra að hér er auðvitað að ýmsu að hyggja og ég held að það hafi nú þegar komið fram að ýmsir þeir sem höfðu horft til þess vonaraugum að þeim yrði gert kleift að færa bókhald og ársreikninga í erlendri mynt finnist kannski að frv. sé ekki jafnaðlaðandi og þeir höfðu gert sér vonir um, að þetta krefjist meiri vinnu en menn höfðu ímyndað sér af því að bæði þarf að færa bókhaldið í hinni erlendu mynt og sömuleiðis í íslenskum krónum vegna skattskilanna. En þetta er eitthvað sem hv. efh.- og viðskn. hlýtur að ræða við bæði endurskoðendur og fulltrúa atvinnulífsins, að menn leiti leiða til þess að finna út úr því hvernig þetta getur verið sem best, þannig að þau atvinnufyrirtæki sem telja sig þurfa að geta sýnt bókhald sitt og uppgjör í erlendri mynt sjái sér hag í því.

Herra forseti. Gefin voru ákveðin vilyrði fyrir því að frv. sem þetta kæmi fram á haustdögum og þá þegar spunnust umræður um það á ýmsum fundum atvinnulífsins og menn veltu vöngum yfir því hvernig frv. mundi líta út og hvers væri að vænta í framhaldinu.

Mjög fljótlega kom fram að áhugi var fyrir því að fá einnig að skrá hlutabréf í erlendri mynt. Sömuleiðis að fá að gera launasamninga í erlendri mynt. Og það er forvitnilegt að fá upplýsingar um það hjá hæstv. fjmrh. hvort erindi þess efnis hafa borist fjmrn., hvort þessar óskir hafa verið ámálgaðar við hæstv. ráðherra og hver viðbrögð hans eru þá. Menn vilja auðvitað reyna að laða erlent fjármagn inn í íslenskt atvinnulíf og horfa þar með til slíkra þátta einnig.

Þetta er áhugavert vegna þess, eins og ég sagði áðan, að okkur sýnist ýmsum að ríkisstjórnin sé að leita hér leiða til þess að gera lífið bærilegt fyrir íslenskt atvinnulíf, án þess þó að Ísland gangi í Evrópusambandið og gerist þar með hluti af evru-svæðinu.

Herra forseti. Það er alveg ljóst að við erum að tala um mál sem getur skipt verulegu fyrir einstök fyrirtæki. Það kom mér þess vegna svolítið á óvart þegar ég kíkti á það svar sem hæstv. ráðherra gaf hv. þm. Gísla Einarssyni við fyrirspurn hans hér í haust, að hann taldi enga sérstaka þörf á því að gera úttekt á því hvernig þessi ráðstöfun mundi virka. Hann var samt með starfshóp í gangi sem var að vinna að málinu. Mér finnst það svolítið merkilegt að hæstv. fjmrh. geti lýst því yfir hér að það sé eðlilegt að gefa fyrirtækjum á Íslandi kost á því að færa bókhald og ársreikning í erlendri mynt og engin ástæða sé til að gera úttekt á því hvaða áhrif slíkt kunni að hafa.

Við minnumst þess sem hv. formaður utanrmn. sagði í umræðu um utanríkismál að þeir sem væru að tala um evru væru bara að tala krónuna niður, það væri vantrú á krónunni sem þar færi fram. Ég man ekki betur en hann segði að vandlega yrði fylgst með slíkum aðilum. Það lá undir hálfgerð hótun í máli hans að þarna færu eins konar landráðamenn. En, herra forseti, ég sé ekki betur en þegar menn eru komnir í þá stöðu að þurfa að laga hér ýmsar reglur, skattalög og bókhaldslög og annað að þeim aðstæðum sem við búum við til þess að gera lífið bærilegra fyrir íslensk atvinnufyrirtæki vegna hins litla markaðar krónunnar, þá séu menn nú ekki langt frá því að lýsa ákveðinni vantrú á þennan gjaldmiðil.

Mér fannst líka dálítið merkilegt, herra forseti, að í svari hæstv. fjmrh. í haust kom fram að hann taldi að þetta mál sem við erum að ræða hér í dag væri hagkvæmnismál en ekki efnahagsmál. Ég velti því fyrir mér þegar við erum að vinna í þessum málum, hvort sem það eru skattamál eða annað, hvar skilin eru. Hvar hæstv. fjmrh. dregur skilin á milli þess að eitthvað sé hagkvæmnismál fyrir atvinnulífið eða efnahagslífið og hvenær það sé orðið efnahagsmál. Mér finnst þetta vera efnahagsmál. Mér finnst það vera efnahagsmál hvernig við stillum upp hlutum til þess að atvinnulíf okkar sé samkeppnisfært. Og það skiptir verulegu máli að það sé ígrundað hvaða skref er verið að stíga.

Það er alveg ljóst að ef haldið verður áfram á þessari braut, ef þetta dugar ekki og menn þurfa að stíga önnur og frekari skref, þá getur það auðvitað haft það í för með sér að krónan verði enn þá minni hér, minni krónutraffík verði á markaðnum, eins og ágætur hagfræðingur orðaði það, sem þýðir þá auðvitað enn þá meiri vantrú á krónunni og væntanlega enn þá meiri sveiflur á þeim gjaldmiðli. Það er þá klárlega efnahagsmál en ekki bara hagkvæmnismál hvernig menn bregðast við því.

Það er alveg ljóst, herra forseti, að menn verða með ýmsum hætti að bregðast við Myntbandalagi Evrópu og upptöku evrunnar. Tekið var saman álit sem kom frá forsrn. árið 1998, það álit var reyndar tekið saman að beiðni jafnaðarmanna þar sem því var beint til stjórnvalda að þeir létu fara fram könnun á kostum þess og göllum að innlend fyrirtæki ættu möguleika á að færa bókhald sitt í evrum. Nú gengur þetta frv. vissulega lengra en svo. Ekki er einungis um það að ræða eins og er í Danmörku og Svíþjóð, enda eru þau lönd innan Evrópusambandsins. Hér er í rauninni leyfilegt að menn færi bókhald sitt og ársreikninga í hvaða mynt sem er ef sú mynt er einungis skráð hér á landi, eða ég fæ ekki lesið frv. öðruvísi.

[16:30]

Herra forseti. Ég þykist vita að hv. efh.- og viðskn. muni fara gaumgæfilega í saumana á þessu frv. og þá þannig að það verði sem haganlegast fyrir íslenskt atvinnulíf að vinna með. Eins og ég sagði hafa þingmenn Samfylkingarinnar lagt fram fyrirspurnir um hvort hæstv. ráðherra hyggist fara í þessa breytingu eða leggja hana til eins og hér er gert. Við munum auðvitað taka þátt í þessu starfi af viðeigandi áhuga á því að laga til fyrir íslenskt atvinnulíf.

Ég vil hins vegar gjarnan fá svör við þeim spurningunum sem ég varpaði fram, í rauninni í framhaldi af þeim óskum sem ég heyrði frá fulltrúum atvinnulífsins í haust og ég gat um áðan. Ég spyr hvort hæstv. fjmrh. hafi léð máls á því að haldið verði áfram á þessari braut og hlutabréf verði skráð í erlendri mynt og hvort menn fái þá í framhaldinu að gera launasamninga í erlendri mynt.

Menn hljóta að hafa velt þessum spurningum fyrir sér þegar þeir voru að semja frv. Þó svo ekki hafi farið fram úttekt eins og fram kemur í máli ráðherra, í svari hans við fyrirspurn hv. þm. Gísla S. Einarssonar, hljóta menn þó að hafa gefið því gaum að hugsanlega dygði þetta ekki til að íslensk fyrirtæki teldu sig samkeppnisfær og þá þyrftu menn jafnvel að ganga skrefinu lengra. Sem sagt: Hvað eru menn tilbúnir að gera til viðbótar ef þetta dugar ekki? Er hæstv. ráðherra tilbúinn til að svara slíkum spurningum? Hefur þetta verið ígrundað í ráðuneyti hans?