Rannsóknir á útbreiðslu, stofnstærð og veiðiþoli kúfskeljar

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 16:55:44 (3728)

2002-01-29 16:55:44# 127. lþ. 62.12 fundur 131. mál: #A rannsóknir á útbreiðslu, stofnstærð og veiðiþoli kúfskeljar# þál., KLM
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[16:55]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Sú till. til þál. sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, mælti fyrir er mjög merkileg. Eins og hér kom fram er lagt til að Alþingi álykti að fela sjútvrh. að standa hið fyrsta fyrir rannsóknum á útbreiðslu, stofnstærð og veiðiþoli kúfskeljar umhverfis Ísland. Með öðrum orðum, eins og hv. þm. sagði í lok ræðu sinnar, fjallar hún um að íslenska ríkið leggi meira fé til að kosta þessar rannsóknir.

Sé greinargerðin sem fylgir með þessari þáltill. lesin kemur í ljós að þar er mjög mikill fróðleikur um þennan fisk. Þar kemur fram að elsta kúfskel sem aldursgreind hefur verið á Íslandi er 201 árs gömul. Í Bandaríkjunum hefur verið aldursgreind kúfskel sem var 221 árs. Þetta sýnir okkur og segir að nýliðun er náttúrlega mjög hæg, í raun er það ekki vel þekkt. Auðvitað er hér töluverð hætta á ofveiði nema þeim mun betur sé fylgst með og rannsakað.

Einnig kemur fram að við Íslendingar vitum ekkert um kúfskel fyrir neðan 50 m dýpi. Með öðrum orðum: Ekkert hefur verið rannsakað á meira dýpi. Það dálítið merkilegt að aðalveiðisvæði Bandaríkjamanna, sem stunda mikið þessar veiðar, er á 50--100 m dýpi.

Herra forseti. Greinargerðin sem hér fylgir er mjög ítarleg og merkileg. Þar eru miklar heimildir um það sem formaður Samfylkingarinnar er hér 1. flm. að. Nokkur okkar fóru með hv. þm. formanni Samfylkingarinnar í fararbroddi og heimsóttum Þórshöfn í sumar og sáum þann mikla kraft sem þar var og merkilegu áform. Það sýndi okkur og sannaði og sagði okkur margt um hve lítið við Íslendingar, íslenska ríkið, leggjum í þær rannsóknir sem hér er um að ræða, þ.e. á kúfskelinni.

Herra forseti. Það er engan veginn hægt að sætta sig við að stór hluti af rannsóknarkostnaði, fórnarkostnaði við að hefja veiðar og prófa sig áfram með þetta, skuli falla til á eitt fyrirtæki. Þess vegna er þessi tillaga flutt. Hún er til þess að ýta á hæstv. sjútvrh. og hrinda í framkvæmd miklu meiri rannsóknum á þessum fiski. Þó að til séu margar vísindaritgerðir, m.a. eftir Guðrúnu G. Þórarinsdóttur sjávarlíffræðing, auk skrifa frá fiskifræðingunum Sólmundi T. Einarssyni og Hrafnkeli Eiríkssyni og fleirum, þá breytir það því ekki að það er eyða í þessum rannsóknum og fjárframlög til þessara rannsókna eru mjög af skornum skammti. Eins og fram kemur í greinargerðinni er ljóst hvað við höfum í raun farið hægt í þær og hve mörg ár hafa dottið úr varðandi þessar rannsóknir.

[17:00]

En auðvitað er mjög mikilvægt að þetta sé líka skoðað gaumgæfilega vegna þess að Fiskistofa hefur aðeins gert heilnæmisúttekt á tveimur veiðisvæðum kúfskelja við Norðausturland. Við vitum því lítið um annað. Það gerir það náttúrlega að verkum, og hefur það komið fram í viðtölum við talsmenn Hraðfrystihúss Þórshafnar, að nauðsynlegt er að fá leyfi til veiða víðar til þess að auka veiðina og hlífa núverandi veiðisvæðum.

Herra forseti. Það er einmitt þess vegna sem þessi tillaga er flutt af 1. flm., Össuri Skarphéðinssyni. Hún er liður í vinnu Samfylkingarinnar að nýrri sókn í sjávarútvegi, ein af fjölmörgum hugmyndum Samfylkingarinnar sem kynntar hafa verið á þessum vetri. Þetta er náttúrlega liður í því að skjóta fleiri stoðum undir vinnslu og veiðar sjávarverðmæta. Þetta leiðir einnig hugann að þeirri miklu verðmætasköpun sem er úr hafinu við Ísland. Jafnframt segir tillagan okkur og greinargerð sem hér fylgir með, hve mikið við eigum eftir að rannsaka og hvað við eigum í raun og veru mikið af auðlindum í hafinu sem við þyrftum að komast í og jafnvel taka meira úr, en þá eru rannsóknir náttúrlega algert grundvallaratriði.

Herra forseti. Mér finnst þetta mál vera eitt af þeim málum sem allir þingmenn ættu að geta sameinast um og ég á von á því að hv. sjútvn. taki tillöguna til góðrar skoðunar og komi með hana aftur í þingið þannig að hún verði samþykkt áður en þing hættir í vor.