Rannsóknir á útbreiðslu, stofnstærð og veiðiþoli kúfskeljar

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 17:02:03 (3729)

2002-01-29 17:02:03# 127. lþ. 62.12 fundur 131. mál: #A rannsóknir á útbreiðslu, stofnstærð og veiðiþoli kúfskeljar# þál., KVM
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[17:02]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Hér er verið að ræða till. til þál. um rannsóknir á útbreiðslu, stofnstærð og veiðiþoli kúfskeljar. Hversu mikið er til af kúfskel við landið, hvað er hún gömul, hvað eru elstu árgangarnir stórir og hvernig dreifist kúfskelin? Hvert er veiðiþol stofnsins? Hvað vitum við um ástand þeirrar lífveru? Þegar við veltum upp slíkum spurningum kemur í ljós að það er í sjálfu sér ekki svo mikið sem við vitum. Þess vegna er þessi þáltill. lögð fram til þess að fá botn í það hvernig við eigum að haga okkur í umgengninni við þessa tegund, kúfskelina.

Umræða hefur farið fram, herra forseti, í þinginu í dag þar sem orðið rannsóknir hafa nokkrum sinnum komið við sögu. Hér er ég að vísa til þáltill. um þorskeldi og þessarar þáltill. hér. Hvort tveggja lýtur þetta að dýrategundum sem eru í hafinu og þá vaknar sú spurning: Hver er staða okkar, þessarar miklu sjávarútvegsþjóðar í sambandi við rannsóknir á lífríki hafsins? Hvaða stofnanir eða skólar eru með þessi mál á sinni könnu og hvaða skipulag er í öllum þessum málum? Það er til Hafrannsóknastofnun og háskóli og ýmislegt fleira, jafnvel sjávarútvegsfyrirtæki sem eru að gera hlutina hvert á sínu sviði. Því fer að vakna sú spurning hvort ástæða sé til að endurskoða þessi mál og tengja þau enn þá betur háskólunum og jafnvel rannsóknastofnunum úti í heimi því þetta er náttúrlega mál sem varðar allan heiminn, hvernig við göngum um hafið, bæði hér og annars staðar. Við eigum líka flota á fjarlægum miðum. Okkur ber að sýna ábyrgð og lotningu fyrir lífríkinu og eigum ekki að ganga á það. Þess vegna er nauðsynlegt að við reynum að afla okkur eins mikillar þekkingar og við getum á því sviði. Þess vegna er þessi tillaga m.a. komin fram og líka til stuðnings og styrks við slíkar veiðar.

Það er auðvitað stórmerkilegt sem hér kemur fram hvað kúfskelin getur orðið gömul, það kemur fram í ágætri greinargerð hjá flutningsmönnum sem hv. formaður Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson, á mestan veg og vanda af og við erum virkilega ánægð með þá vinnu og hve hún er góð.

Ekki verður hjá því komist, herra forseti, að minnast aðeins í fáum orðum á kræklingaeldi sem sumir eru farnir að þreifa fyrir sér með og hvernig betur mætti standa að því. Það eru fleiri hundruð þúsund tonn af kræklingi sem eru etin í Evrópu nálægt okkur og spurningin er hvort við gætum ekki komið betur að þeim markaði, einkum og sér í lagi með tilliti til þeirra orða sem hv. formaður Samfylkingarinnar nefndi áðan um mengun hafsins í Evrópu, t.d. við Frakkland, þar sem menn eru farnir að draga það við sig að borða skel vegna mengunar hafsins. Þetta eru mál sem þarf að huga betur að, allan þennan rannsóknarþátt sem lýtur að sjávarútveginum og ég vona að þessar ágætu þáltill. verði m.a. til að leggja lóð á þær vogarskálar.