Verslun með áfengi og tóbak

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 17:39:48 (3738)

2002-01-29 17:39:48# 127. lþ. 62.13 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[17:39]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Nú er hugsjónabaráttan farin að rísa hátt, að koma áfengi inn í barnafataverslanir og helst sem víðast.

Ég hef ekki hér tölur um hvernig hagnaður ÁTVR skiptist. Sjálfsagt er að setjast yfir það. En ég vísa í það sem kemur fram í greinargerð flutningsmanna frv., að gert er ráð fyrir því að þessi breyting muni veikja þær stoðir sem ÁTVR er reist á. Það er staðreynd. ÁTVR og það fyrirkomulag sem við búum við er þannig sniðið að það skilar ríkissjóði umtalsverðum fjármunum. Þeir fjármunir munu að sjálfsögðu renna annað þegar veltunni verður beint annað.