Verslun með áfengi og tóbak

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 17:49:25 (3744)

2002-01-29 17:49:25# 127. lþ. 62.13 fundur 135. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (smásöluverslun með áfengi) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[17:49]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst þetta eiginlega alveg furðuleg yfirlýsing. Mér finnst furðulegt ef hv. 1. flm. hefur virkilega ekki kynnt sér þessi mál. Hann flytur ræðu og segist ekki hafa kynnt sér málin, sér sé ekki kunnugt um að neinn samanburður hafi verið gerður. Það hefur verið unninn fjöldi samanburðarskýrslna. Ég hef skoðað þessar skýrslur. Þar kemur líka í ljós að það er samhengi á milli vörudreifingarinnar og áfengisneyslu. Og það er samhengi á milli áfengisneyslu og heilbrigðisvanda sem tengist þessari sömu neyslu. Þetta eru bara staðreyndir. Ef hv. þm. reynir ekki að kynna sér málin áður en hann fer fram með þingmál af þessu tagi finnst mér það ekki vera mjög traustvekjandi.

Síðan er hitt, hvað tala menn um af hvað mestri fyrirlitningu þegar þeir beina spjótum sínum að ÁTVR? Það er einokunin. Hún er verst. Ég er hins vegar að sýna fram á að krafa Kaupmannasamtakanna, krafa samtaka kaupmanna, gengur út á að færa einokun sem hefur verið á hendi ríkisins, opinberra aðila, yfir á aðrar hendur, yfir í einokunarverslun í smásölunni sem mun vera komin 70% á hendur eins aðila. Sannast sagna, hæstv. forseti, finnst mér þetta ekki vera framfaraspor, og ekki síst í ljósi þeirra þátta sem ég hef áður nefnt.

Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson fór örlítið í gegnum söguna og hvernig skipulagið væri núna á áfengissölunni. Það er alveg rétt. Menn hafa verið að gera þessar breytingar á undangengnum árum en aldrei voru þessi mál rædd heildstætt þegar hæstv. fjmrh., ekki sá sem nú situr heldur forveri hans, réðst í þessar breytingar.