Sala Landssímans

Miðvikudaginn 30. janúar 2002, kl. 14:11:08 (3778)

2002-01-30 14:11:08# 127. lþ. 65.94 fundur 294#B sala Landssímans# (umræður utan dagskrár), GunnB
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 127. lþ.

[14:11]

Gunnar Birgisson:

Herra forseti. Hv. málshefjandi, hv. þm. Jón Bjarnason, var að reyna að gera samninginn sem gerður var við fyrrverandi forstjóra Símans tortryggilegan. Rétt er að taka fram að ekkert er óeðlilegt við það að tryggja með samningum störf eða starfstíma milli aðila. Fyrirtæki sem ræður starfsmann reynir að tryggja sér starfsmanninn í ákveðinn tíma og hann reynir að hafa tímann sem lengstan til að hafa sína hluti á hreinu.

Hvers vegna var gerður samningur til fimm ára? Jú, það er þannig samkvæmt lögum um opinbera starfsmenn að forstjórar ríkisstofnana eru ráðnir til fimm ára í senn, til að upplýsa hv. þingheim um það, og auðvitað var þessi samningur við þáverandi forstjóra gerður á þeim grunni. Að gera hæstv. samgrh. og fyrrv. forstjóra Símans tortryggilega er algerlega út í hött og á ekki að vera málinu viðkomandi. (ÖJ: Það er meira að segja búið að afnema biðlaunarétt hjá opinberum starfsmönnum.)

Síðan er það hitt versið varðandi samkeppnina. Menn voru tortryggnir á að ekki yrði samkeppni. Ég vil benda á að það eru önnur símafyrirtæki í landinu. Það eru Íslandssími og Tal. Síðan má ekki gleyma niðurgreiddri samkeppni frá R-listanum, af því að menn voru að hrósa sér af honum áðan, niðurgreidd samkeppni með skattfé Reykvíkinga. Menn ættu þá væntanlega ekki að vera í vandamálum með að ekki væri nóg samkeppni á markaðnum eftir það. En það kemur mér ekkert á óvart í þessu varðandi flokk hv. málshefjanda. Hann er flokkur aukinnar samneyslu, aukins ríkisrekstrar, aukinnar skattheimtu, niðurgreiddrar landsbyggðarstefnu, engrar stóriðju, engra framfara en láta fólkið borða úr hendi miðstýringar ríkisins.