Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 30. janúar 2002, kl. 14:41:21 (3784)

2002-01-30 14:41:21# 127. lþ. 65.1 fundur 425. mál: #A stjórn fiskveiða# (handfæraveiðar með dagatakmörkunum) frv. 3/2002, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 127. lþ.

[14:41]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um frv. til laga um breytingu á lögum, nr. 38 5. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Ég hef skrifað undir þetta frv. með fyrirvara. Ég vil að það komi fram líkt og í fyrri ræðu minni um þetta mál að efnislega er frv. líkt frv. sem við þrír hv. þm. lögðum fram fyrir jól, hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, hv. þm. Karl V. Matthíasson og sá sem hér stendur.

Fyrirvari minn er fyrst og fremst vegna þess að í frv. söknum við ákvæða sem voru í frv. okkar. sem lagt var fram fyrir jólin, þ.e. varðandi gólf á sóknardagana. Við vildum að sett yrði gólf þannig að tryggt væri að menn hefðu alltaf vissan grunn til að byggja á.

Það hefur verið skýrt allvel frá því sem þetta frv. inniheldur en ég vil koma því að að ég tel mikilvægt fyrir þá sem stunda sjóinn á dagabátum, sú breyting sem hér er boðuð, að farið er úr sólarhringssókn yfir í klukkutíma. Ég held að hún sé einhver merkasta breytingin hér og eftir því sem við fáum upplýst þá fagna henni allir. Sólarhringskerfið lagði grunn að því og hvatti menn til þess að þrauka í vondum veðrum. Það þurfti harða menn til sjósóknar í því kerfi ellegar að tapa kannski heilum degi ef snúið var til lands. Að vísu var í gamla kerfinu ákvæði um að menn mættu snúa aftur úr veiðiferð innan þriggja klukkutíma. Ég held hins vegar að það sé borðleggjandi að með þessu ákvæði um að breyta talningunni yfir í klukkutíma í stað sólarhringa, muni það leiða til miklu manneskjulegra umhverfis að vinna í og miklu jafnari sóknar. Ég vil lýsa ánægju minni með það.

Virðulegi forseti. Ég vil að það komi skýrt fram að þó að ég styðji þetta frv. og nál. sem lagt er fram, reyndar með fyrirvara, sakna ég þess, eins og fram kom í ræðu minni við 1. umr. frv., að við skulum ekki standa í þeim sporum að vinna að mótun nýrra tillagna um nýtt og breytt fiskveiðistjórnarkerfi í heild sinni, fremur en að stunda þær plástranir sem hér eru stundaðar í þinginu, með leiðréttingum af því tagi sem hér eru. En þrátt fyrir allt er þetta til bóta fyrir þennan flokk í útgerðinni. Við höfum marglýst því yfir, stjórnarandstaðan, að við teljum að það hefði átt að freista þess á hinu háa Alþingi að fara heildstætt í þessi mál, fiskveiðistjórnarmálin, í stað þess að taka þetta í smábitum eins og nú er boðað af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.

[14:45]

Það sem hefur valdið mönnum áhyggjum í sambandi við frv. er að þessi breyting muni e.t.v. leiða til aukins afla og aukinnar sóknar. Menn hafa sagt sem svo að ef klukkutímamæling fer í gang þá muni það leiða til þess að menn eigi kost á og muni að öllum líkindum veiða meira. Þetta eru hlutir sem verða að koma í ljós. Aðrir eru þeirrar skoðunar að þetta muni engu breyta. Við verðum að sjá hvernig þetta reynist, enda á að endurskoða frv. og skoða hvernig útkoman af því verður innan eins árs.

Virðulegi forseti. Þokkalegt samkomulag er um að fara þessa leið þó menn vilji undirstrika sérstöðu sína. Ég sé kannski ekki ástæðu til að fjölyrða meira um frv. Það hefur verið ágætlega unnið að því í hæstv. sjútvn. Þangað hafa komið nokkrir sérfræðingar sem hafa upplýst okkur um skoðanir sínar á þessum breytingum.

En að síðustu, virðulegi forseti, vil ég segja að þetta eru smáskammtalækningar af hálfu stjórnarmeirihlutans. Við förum enn fram á og viljum hefja heildstæða endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða sem taki til allra þátta. Hér er verið að taka út úr eitt og eitt atriði og boðað er að ein tvö eða þrjú ný frv. muni sjá dagsins ljós fyrir vorið. Þetta teljum við ótæk vinnubrögð og lýsum eftir því verklagi að fjallað verði heildstætt um fiskveiðistjórnarkerfið og breytingar á því.