Geislavarnir

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 11:15:32 (3798)

2002-01-31 11:15:32# 127. lþ. 67.5 fundur 344. mál: #A geislavarnir# (heildarlög) frv., heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[11:15]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um geislavarnir. Frv. gerir ráð fyrir að lög nr. 117/1985, um geislavarnir, falli úr gildi.

Frv. var samið í samvinnu við Geislavarnir ríkisins. Jafnframt var haft samráð við landlæknisembættið og félög röntgenlækna og röntgentækna hvað varðar ákvæði um geislavarnir við læknisfræðilega geislun.

Miklar breytingar hafa átt sér stað og viðhorf í geislavörnum breyst töluvert frá því að lög nr. 117/1985 tóku gildi. Alþjóðageislavarnaráðið hefur m.a. gefið út nýjar leiðbeiningar um grundvallaratriði geislavarna. Þar koma fram nýjar áherslur sem mörg lönd hafa tekið upp í löggjöf sinni. Markmið með endurskoðun laga um geislavarnir er jafnframt að aðlaga íslenska löggjöf og framkvæmd hennar að tilskipunum Evrópusambandsins um geislavarnir og framkvæmd þeirra auk þess að taka mið af breyttum áherslum við framkvæmd geislavarna.

Virðulegi forseti. Ég mun nú rekja nánar helstu breytingar sem felast í frv.

Í 1. gr. frv. er fjallað um markmið laganna. Þeim er ætlað að tryggja nauðsynlegar öryggisráðstafanir gegn geislun frá geislavirkum efnum og geislatækjum í því skyni að takmarka skaðleg áhrif hennar. Ákvæðið tekur til öryggisráðstafana vegna allrar geislunar, bæði jónandi og ójónandi. Notkun ójónandi geislunar hefur aukist mjög undanfarin ár í heilbrigðiskerfi, iðnaði svo og fjarskiptum og afþreyingu ýmiss konar. Vitneskja hefur aukist um skaðsemi slíkrar geislunar og að þörf sé á sérstökum öryggisráðstöfunum vegna hennar. Geislavarnir vegna ójónandi geislunar eru mikilvægur þáttur í starfsemi geislavarnastofnana í öðrum löndum Evrópu. Í frv. er gert ráð fyrir að svo verði hjá Geislavörnum ríkisins hér á landi.

Í 2. gr. frv. er gildissvið laganna tilgreint nánar og í 3. gr. eru skilgreiningar á hugtökum sem koma fyrir í ákvæðum laganna. Taka skilgreiningarnar mið af tilskipunum Evrópusambandsins á þessu sviði.

Í 4. gr. frv. er fjallað um stofnunina Geislavarnir ríkisins og hvert hlutverk hennar skuli vera. Skal hún hafa það hlutverk að annast öryggisráðstafanir gegn geislun frá geislavirkum efnum og geislatækjum.

Þá er í ákvæðinu fjallað um skipun forstjóra en hann ber ábyrgð á daglegum rekstri stofnunarinnar. Skal ráðherra skipa forstjóra.

Í 5. gr. frv. er nánar tilgreint í 11 töluliðum hvaða verkefni Geislavarnir ríkisins skuli annast. Verkefni stofnunarinnar eru að mestu þau sömu og samkvæmt núgildandi lögum en þó er gert ráð fyrir nokkrum nýjum verkefnum.

Stofnunin skal hafa eftirlit með geislaálagi starfsmanna og halda skrá yfir niðurstöður einstaklingsbundins eftirlits með geislun fyrir hvern einstakan starfsmann. Slík skrásetning er nýmæli en er í samræmi við tilskipanir Evrópusambandsins. Stofnunin skal enn fremur annast reglubundið mat á heildargeislaálagi almennings af starfsemi sem lögin taka til og mat á geislaálagi sjúklinga af læknisfræðilegri geislun hérlendis. Þar er einnig um nýmæli að ræða.

Þá er það einnig nýmæli að stofnunin undirbúi, sæki um og viðhaldi faggildingu vegna tiltekinna þátta rannsókna og eftirlits sem stofnunin annast.

Í 6. gr. frv. er gert ráð fyrir að ráðherra skipi fimm manna geislavarnaráð til fjögurra ára í senn og að það verði fagleg ráðgjafarnefnd Geislavarna ríkisins. Kemur hún í stað stjórnar samkvæmt núgildandi lögum og er í samræmi við þá stefnu að forstjóri fari með stjórn stofnunarinnar og beri ábyrgð á faglegum og fjárhagslegum rekstri hennar.

Í 7. gr. frv. er fjallað um leyfi til innflutnings, framleiðslu, eignar, sölu og afhendingar geislavirkra efna. Leyfisskylda tryggir fullnægjandi vitneskju um öll geislavirk efni sem flutt eru til landsins.

Mat á gagnsemi og áhættu við notkun geislunar, sem ákvæði 8. gr. frv. kveður á um, er nýmæli og eitt grunnatriða geislavarna. Tekur ákvæðið mið af reglum Evrópusambandsins.

Ákvæði 9.--12. gr. frv. um notkun geislavirkra efna og geislatækja eru í samræmi við reglur Evrópusambandsins. Þar er m.a. gert ráð fyrir að ráðherrar geti ákveðið með reglugerð að notkun ákveðinna flokka geislatækja sem nýta ójónandi geislun skuli hafa leyfi. Er það talið mikilvægt til að bregðast við nýjum upplýsingum um skaðleg áhrif geislunar eða ef notkunin er á almannafæri eða skemmtistöðum. Þá er gert ráð fyrir að Geislavarnir ríkisins geti krafist förgunar eða fjarlægingar geislavirkra efna og geislatækja sem ekki eru lengur í notkun. Sé ekki orðið við kröfum stofnunarinnar um förgun eða fjarlægingu getur stofnunin annast framkvæmdina á kostnað eiganda.

Ákvæði 13. og 14. gr. frv. fjalla um geislavarnir á vinnustöðum. Það er nýmæli að Geislavarnir ríkisins skuli halda skrá yfir niðurstöðu einstaklingsbundis eftirlits með geislun og er í 14. gr. frv. sérstaklega kveðið á um hvernig með slíkar skrár skuli farið.

Ákvæði 15. og 16. gr. frv. fjalla um læknisfræðilega geislun og eru nýmæli í lögum. Slík ákvæði hafa verið í reglum Geislavarna ríkisins en talið er rétt að setja þau í lögin. Ákvæðin taka jafnframt mið af reglum Evrópusambandsins á þessu sviði.

Í 17.--19. gr. frv. er fjallað um eftirlit með geislatækjum og geislavirkum efnum. Með eftirliti Geislavarna ríkisins er átt við eftirlit með geislaálagi starfsmanna, skoðun á geislatækjum og geislavirkum efnum sem og búnaði og aðstöðu þar sem slík tæki og efni eru notuð. Markmiðið með eftirlitinu er tvíþætt. Annars vegar að tryggja sem árangursríkasta notkun geislunar þannig að gagnsemin sé sem mest, samhliða eins lítilli geislun á fólk og unnt er að teknu tilliti til tilgangs geislunarinnar og með skynsamlegu tilliti til aðstæðna. Hins vegar að tryggja að öll starfsemi, búnaður og aðstaða sem lögin gilda um sé í samræmi við lögin.

Áfram er gert ráð fyrir innheimtu gjalds vegna reglubundins eftirlits Geislavarna ríkisins, fyrir mat á umsóknum um leyfi og fyrir eftirlit með geislaálagi starfsfólks. Er gert ráð fyrir að ráðherra setji gjaldskrá að fengnum tillögum Geislavarna ríkisins og gjaldskráin taki mið af kostnaði við eftirlitið.

Í 20. gr. frv. er gert ráð fyrir að Geislavarnir ríkisins veiti leyfi til uppsetningar og breytingar á geislatækjum sem gefa frá sér jónandi geislun. Þá skulu þeir einir annast viðgerðir, upplýsingar og breytingar á slíkum tækjum sem uppfylla kröfur Geislavarna ríkisins um þekkingu og reynslu.

Í 21. gr. frv. er almennt reglugerðarákvæði og í 22. gr. eru refsiákvæði.

Virðulegi forseti. Eftir að hafa reifað nokkuð ákvæði frv. til laga um geislavarnir leyfi ég mér að leggja til að frv. verði vísað til hv. heilbr.- og trn. og til 2. umr.