Málefni flugfélagsins Go-fly

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 13:59:26 (3828)

2002-01-31 13:59:26# 127. lþ. 67.94 fundur 298#B málefni flugfélagsins Go-fly# (umræður utan dagskrár), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[13:59]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Svo að það sé alveg ljóst þá er þetta ekkert reglugerðarmál í samgrn. Þessi innritunaraðstaða er málefni utanrrn. og það liggur fyrir að öllum aðilum, þar á meðal Flugþjónustunni --- Flugþjónustan borgar fimm dollara á farþega --- hefur verið boðið það sama. Flugþjónustan er með sinn eigin hugbúnað og það kostar þá 60--90 sent á farþega. Hinum hefur verið boðin sú þjónusta fyrir einn dollara á farþega.

Nú er það ljóst og hv. þm. hlýtur að skilja að það er hlutfallslega ódýrara ef mjög margir farþegar eiga hlut að máli, eins og er hjá Fugleiðum. Skil ég hv. þm. rétt, eða ber utanrrn. að bjóða langt niður fyrir það þannig að samkeppnisaðilinn fái ódýrari aðstöðu? Þessi aðstaða er fyrir hendi. Borðin eru fyrir hendi. Henni hefur verið komið upp. Frelsið er fyrir hendi. Það er rétt að þessir aðilar hafa ekki gengið að því að borga einn dollar sem er talið kostnaðarverð, aðeins hærra en hjá Flugþjónustunni, þeirra kostnaðarverð. Við skulum tala um það. Við skulum tala um þetta mál á grundvelli staðreynda í stað þess að búa til einhverja hluti í kringum þetta stóra og viðkvæma mál.

Staðreyndin er sú að af þeim gjöldum sem inn koma á Keflavíkurflugvelli fer um helmingur, eða um 600 milljónir, til annarra hluta samkvæmt ákvörðun Alþingis. Það liggur alveg ljóst fyrir að ef þessi skattur yrði afnuminn þá væri fjármögnun flugmálaáætlunar í uppnámi, upp á 600 milljónir kr. Það ættu hv. þm. að hafa í huga þegar rætt er um þessi mál.

En það er búið að skapa þessa aðstöðu á Keflavíkurflugvelli. Hún er fyrir hendi. Og það er ekki rétt að samkeppnisskilyrði þar standi í vegi fyrir því að aðrir geti komið þar inn.